Sá atburður var þar eftir að skenkjari kóngsins í Egyptalandi og so hans bakari brutu í móti sínum herra Egyptalands kóngi. Og faraó reiddist báðum sínum þjónustumönnum, þeim ypparsta skenkjara og ypparsta bakara, og lét setja þá í hofmeistarans hús í myrkvastofu þar sem Jósef var fyrir í fangelsi. Og höfðingi myrkvastofunnar setti Jósef yfir þá að hann skyldi þjóna þeim og þeir sátu nokkra daga í myrkvastofu.

Báða Egyptalandskóngs þjónustumenn, skenkjarann og bakarann, dreymdi á einni nóttu undir eins hvorn þeirra sinn draum og hvers þeirra draumur hafði sína merking. [

Þá Jósef kom nú inn til þeirra um morguninn og sá að þeir voru óglaðari en þeir voru vanir. Hann spurði þá að og sagði: „Því eru þið nú so ókátir í dag hjá því sem vani er til?“ Þeir svöruðu: „Okkur hefur dreymt einn draum og hér er enginn sem hann kann að ráða fyrir okkur.“ Jósef sagði: „Guð mun ráða mega draumana. En segið mér þó hvað ykkur dreymdi.“

Þá svaraði sá hinn ypparsti skenkjari og framsagði fyrir Jósef sinn draum og sagði: „Eg sá í draumi vínvið standa með þremur kvíslum, þeir urðu grænir, uxu og blómguðust, so að vínberin þar á urðu fullvaxin, og eg þóttist hafa Pharaonis borðker í minni hendi og eg tók berin og sprengdi þau í kerið og so rétta eg kerið í Pharaonis hönd.“

Þá sagði Jósef til hans: „Þetta er útþýðing draumsins. Þríkvíslóttur vínviður merkir þrjá daga og að þremur dögum liðnum mun faraó upphefja þitt höfuð og setja þig aftur til þinnar tignar so þú munt rétta borðkerið í hans hönd so sem þú plagaðir fyrr að gjöra. [ En minnstu mín þá þér vel gengur og veit mér þá miskunn að þú segir þá pharaone að hann taki mig af þessari myrkvastofu, því að mér var með leynd burt stolið og var eg fluttur af landi Ebreorum. Þar með hefi eg saklaus látinn verið í þessa myrkvastofu.“

Nú sem sá ypparsti bakari sá þetta, að Jósef réð drauminn so vel, þá sagði hann til Jósefs: „Mig dreymdi og so draum. Eg þóttist bera þrjár hvítar karfir á mínu höfði. Og í þeirri efstu körf voru allra handa steiktar krásir til handa pharaone. En fuglarnir átu úr körfinni á mínu höfði.“ Þá svaraði Jósef og sagði: „Þetta er útþýðingin: Þrjár karfir eru þrír dagar og eftir þrjá daga mun faraó upphefja þitt höfuð og festa þig á gálga og fuglar munu slíta þitt hold af þér.“

Á þeim þriðja degi þaðan þá hélt faraó sinn burðardag og gjörði öllum sínum þénurum eitt mikið gestaboð. Þá upphóf hann þess ypparsta skenkjara höfuð og svo þess ypparsta bakarans á meðal sinna þénara. Og hann setti þann ypparsta skenkjara aftur til síns embættis, að hann skyldi rétta kerið í Pharaonis hönd. En þann ypparsta bakara lét hann hengja so sem Jósef hafði útþýtt honum. En sá æðsti skenkjarinn minntist ekki á Jósef heldur gleymdi honum. [