III.

Og mér var sýndur sá mikli prestur Jósúa standandi fyrir engli Drottins. Og Satan stóð hjá hans hægri hönd að standa í mót honum. Og Drottinn sagði til Satans: „Drottinn straffi þig, Satan, já Drottinn straffi þig, sá sem útvaldi Jerúsalem! Er þetta ekki einn brandur úr eldi tekinn?“ Og Jósúa var í óhreinum klæðum og stóð fyrir englinum hver eð svaraði og sagði til þeirra sem stóðu hjá honum: „Takið þau óhreinu klæði frá honum.“

Og hann sagði til hans: „Sjáðu, eg hefi tekið þínar syndir frá þér go ífært þig hátíðaklæðum.“ Og hann sagði: „Setjið einn hreinan hatt á hans höfuð.“ Og þeir settu einn hreinan hatt á hans höfuð og færðu hann í klæði og sá engill Drottins stóð þar.

Og engill Drottins vitnaði fyrir Jósúa og sagði: „Svo segir sá Drottinn Sebaót: Ef þú gengur á mínum vegum og geymir mínar varðveitingar þá skaltu stjórna mínu húsi og geyma minna fordyra og eg vil gefa þér af þessum sem hér standa að þeir skulu vegvísa þér.

Heyr til, Jósúa æðsti kennimaður, þú og þínir vinir sem búa fyrir þér, því þeir eru ætíð undarlegir. Því sjá þú, að eg vil láta minn þénara Sema koma. [ Því sjáið á þeim eina steini sem eg lagða fyrir Jósúa skulu vera sjö augu. En sjá, eg vil úthöggva hann, segir Drottinn Sebaót, og eg vil burt taka sama lands syndir á einn dag. Á þeim sama tíma, segir Drottinn Sebaót, skal hver bjóða öðrum til gests undir vínviðartré og fíkjutré.“