XX.

Davíð flýði frá Najót í Rama og fór til fundar við Jónatan og sagði: „Hvað hefi eg gjört? [ Hvað hef eg misbrotið? Hvert er mitt ranglæti við föður þinn að hann sækir svo eftir lífi mínu?“ En hann svaraði honum: „Ei mun svo vera, þú skalt ei deyja. Sjá, minn faðir gjörir það aldrei, smátt né stórt, so að hann segi mér það ekki áður. Því skyldi faðir minn dylja mig þessa? Því má þetta ekki ske.“ Þá svór Davíð enn framar og sagði: „Þinn faðir veit vel að eg hefi fundið náð fyrir þínu augliti og því hugsar hann svo: Jónatas skal ekki vita so hann hryggist ei við það. Svo sannlega sem Drottinn lifir og svo sannlega þín sál lifir þá er þar ekki fótmál milli mín og dauða.“

Jónatas sagði til Davíðs: „Fullgjöra mun eg allt það sem þitt hjarta girnist.“ Davíð svaraði honum: „Sjá, á morgun er mánaðarkoma en eg er þá vanur að sitja til borðs með kóngi. So leyf mér nú að felast á akri allt til kvelds á inum þriðja degi. En spyrji þinn faðir að mér þá svara þú svo: Davíð bað mig leyfis að hann mætti fara sem snarast til Betlehem, borgar sinnar, því hans öll ætt heldur þar eitt árlegt hátíðaroffur. Ef hann þá svarar að það sé vel þá mun þínum þjón friðt vera. En verði kóngurinn reiður þá máttu merkja að þar býr honum illt í sinni. Svo gjör nú miskunnarverk á þjón þínum því þú hefur gjört einn félagskap við mig, þinn þræl, í augliti Drottins. En finnist nokkur misgjörningur með mér þá drep þú mig. Því hvar fyrir vilt þú færa mig til þíns föðurs?“

Jónatas svaraði: „Það sé langt frá mér að eg ef kann að merkja að minn faðir hugsar þér nokkuð illt að eg skylda ekki láta þig vita það.“ [ Davíð mælti: „Hver skal kunngjöra mér það ef faðir þinn svarar þér þunglega?“ Jónatas sagði til Davíðs: „Kom, göngum út á akur.“ Og þeir gengu báðir út á akurinn. Og Jónatas sagði til Davíðs: „Drottinn Guð Ísraels, ef eg formerki á mínum föður á morgin og þann þriðja dag að Davíð muni friðt vera og ef eg sendi þér ekki boð þar um og ber það til þinna eyrna þá gjöri Guð Jonathe það og það. En hugsi minn faðir nokkuð illt að gjöra þér þá skal eg og kunngjöra þér það og láta þig fara með friði. Og sé Drottinn með þér sem hann var með mínum föður. Og haldi eg ekki þetta þá gjöri enginn Guðs miskunnsemi við mig svo lengi sem eg lifi og eigi heldur þá eg er dauður. Og þá Drottinn hefur afmáð sérhverja Davíðs óvini af landinu so tak ekki þína miskunn frá mínu húsi ævinlega.“ So gjörði Jónatas eitt sáttmál með Davíðs húss (og sagði): „Krefji Drottinn þess af Davíðs óvina hendi.“

Og enn sagði Jónatas og sór Davíð, so elskaði hann hann. Því hann elskaði hann sem sína eigin sál. Og Jónatas sagði til hans: „Á morgun er hátið hins nýja mánaðar. Þá mun spurt verða að þér. Því þín mun saknað verða í burt úr þínu sæti þar þú ert vanur að sitja. Kom ofan hingað sem skjótast á þriðja degi og far einhvers staðar hér að fela þig á virkum degi og set þig hjá þeim steini Asel. Svo vil eg skjóta þremur örvum utan hjá steininum eins sem eg vilda skjóta til hæfis. Og sjá þú, þá skal eg senda minn svein og segja: Far og sæk mér örvarnar. Ef eg segi þá til sveinsins: Sjá þú, örvarnar liggja hingað betur frá þér, ber þær hingað! þá kom þú því þá er friðt og háskalaust, svo sannlega sem Drottinn lifir. En ef eg segi til míns sveins: Sjá þú, örvarnar liggja fram frá þér! þá far þú í burt því að Drottinn vill þú gangir þá. En hvað við höfum talað með okkur, þá sé Drottinn á milli þín og mín ævinlega.“

Og Davíð faldi sig á akrinum. Og nú sem mánaðarhátíðin kom setti kóngur sig til borðs. Og sem hann var festur í einum stað þar sem hann var vanur þá stóð Jónatas upp en Abner setti sig hið næsta hjá Saul. Og þeir söknuðu Davíðs úr sínu sæti. Og Saul talaði ekki til á þeim degi því hann hugsaði: „Honum hefur eitthvað að borið að hann er ekki hreinn.“ Þann annan dag hátíðarinnar var og autt rúm Davíðs. Þá sagði Saul til síns sonar Jónatan: „Fyrir því kemur ekki sonur Jesse til borðs, hvorki í gær né svo heldur í dag?“

Jónatas svaraði Saul: „Hann bað mig leyfis að hann mætti fara til Betlehem og sagði so: Leyf mér að fara því að mínir frændur hafa eitt offur í staðnum og minn bróðir hefur sjálfaur boðið mér. Hafa eg nú fundið náð í þínu augliti þá vil eg fá leyfi sem snarast þangað að sjá mína bræður. Og fyrir þessa skuld er hann ekki kominn til kóngsins borðs.“ Þá reiddist Saul Jonatha og sagði til hans: „Þú hinn óhlýðugi skálkur! Eg veit vel að þú hefur útvalið þennan son Jesse þér og þinni lýtafullri móður til skammar! Því að svo lengi sem þessi son Jesse lifir á jörðunni þá verður hverki þú né þitt kóngsríki staðfast! So send nú af stað og láttu hafa hann hingað til mín því hann skal vissulega deyja!“

Jónatas svaraði sínum föður Saul og sagði til hans: „Því skal hann deyja? Hvað hefur hann gjört?“ Þá greip Saul spjót og vildi slá hann með. Þá merkti Jónatas að hans faðir hafði endilega einsett sér að hann vildi drepa Davíð. Og hann gekk frá borðinu með grimmum hug og át ei brauð á öðrum degi þeirrar mánaðarhátíðar því hann hryggðist vegna Davíðs fyrir sökum þess að hans faðir hafði so strengilega heitast við Davíð.

Að morni dags þegar lýsti gekk Jónatas út á akurinn þangað sem þeir Davíð höfðu mælt og hans smásveinn með honum. Og hann sagði til sveinsins: „Far og sæk þá ör sem eg skýt af mínum boga.“ En sem sveinninn rann af stað skaut Jónatas einni ör fram yfir hann. En sem sveinninn kom þangað sem Jónatas hafði pílunni skotið þá kallaði Jónatas eftir honum og sagði: „Pílan liggur lengra fram frá þér!“ Og enn kallaði hann meir eftir honum: „Flýt þér snart og statt ekki við!“ Sveinninn tók saman örvarnar og bar þær til síns herra. Og sveinninn vissi ekki til hvers þetta kom en þeir Jónatas og Davíð vissu þessi ráð. Eftir það fékk Jónatas sínum sveini sín vopn og sagði til hans: „Far þú og ber þetta í staðinn aftur.“

Sem sveinninn var af stað farinn þá stóð Davíð upp þaðan sem hann hafði falist í móti suðri og féll fram allur til jarðar og baðst fyrir þrem sinnum. [ Og þeir Jónatas minntust hvor við annan og grétu báðir saman mjög beisklega, þó Davíð miklu meir. Og Jónatas sagði til Davíðs: „Far nú í friði. Hvað sem við báðir höfum svarið til samans í nafni Drottins og sagt: Drottinn veri í milli mín og þín, millum þíns afkvæmis og míns, það vari ævinlega.“ Og Jónatas tók sig upp og kom aftur í borgina.