Bókin Rut

I.

Á þeim tíma þá dómendur stjórnuðu yfir Ísrael varð mikið hallæri í landinu. [ Og það skeði að einn maður af Betlehem Júda flutti sig burt í land þeirra Moabitarum meður sinni kvinnu og tveimur sonum. Þessi maður hét Elímelek og hans kvinna Naemí og hans tveir synir Mahlón og Kiljón; þeir voru Ephrathei og af Betlehem Júda. [ En sem þau komu í land þeirra Moabitarum staðnæmdust þau þar. Og Elímelek bóndi Naemí andaðist. En hún lifði eftir með sínum tveimur sonum. Þeir giftust og tóku sér eiginkonur af ættum þeirra Moabitis. Ein þeirra hét Arpa en önnur Rut. [ Og sem þeir höfðu búið þar hartnær í tíu ár þá önduðust þeir báðir, Mahlón og Kiljón, og kvinnan lifði báða sína sonu og sinn bónda.

Þá tók hún sig upp með sínum sonakvinnum og ferðaðist aftur af landi Móab. Því hún hafði frétt það í land Moabitarum að Drottinn hafði vitjað síns fólks og gefið því brauð. Og hún gekk út af þeim stað sem hún hafði búið og báðar hennar sonarkvinnur með henni. Og sem hún gekk nú á veginn að hún færi aftur í land Júda þá sagði hún til beggja sinna sonarkvenna: „Farið og snúið aftur, hvor ykkar til húsa sinnar móður og heimkynnis. Drottinn veiti ykkur sína miskunn svo sem þið hafið gjört þeim framliðnu og svo mér. Drottinn gefi ykkur að þið finnið hvíld, hvör í síns manns húsi.“ Og hún minntist við þær.

Þá upphófu þær sínar raddir með gráti og sögðu til hennar: „Við viljum fara með þér til þíns fólks.“ En Naemí svaraði: „Snúið aftur, mínar dætur. Hvar fyrir vilji þið fara með mér? Hvað mun eg geta sonu í mínum kviði hér eftir svo að þeir mætti verða ykkar menn? Snúið aftur, mínar dætur, og farið burt því að eg er nú of gömul að giftast nokkrum manni. Og þó eg segða: Það má enn ske ef eg tek mann á þessari nóttu og fæði sonu – en hvernin gæti þið beðið svo lengi þar til þeir eru fullvaxnir? Því vilji þið dvelja því að giftast aftur? Ekki svo, mínar dætur. Mig aumkar yfir ykkur því að hönd Drottins er komin yfir mig.“

Þá upphófu þær sína raust og grétu enn meir og Arpa minntist við sína mágkonu. [ En Rut staðnæmdist eftir hjá henni. Þá sagði hún: „Sjáðu, þín mágkona sneri aftur til síns fólks og til sinna guða. Snú þú og svo aftur með þinni mágkonu.“ Rut svaraði: „Tala þú ekki þar um að eg muni skilja við þig eða fara frá þér. [ Hvert sem þú fer þangað vil eg so fara. Hvar þú verður þar em eg og einnin. Þitt fólk er mitt fólk og þinn Guð er minn Guð. Hvar þú deyr þar dey eg og þar vil eg jörðuð vera. Drottinn gjöri mér það og það, ekki skal okkur skilja nema dauðinn.“

En sem Naemí sá að það var hennar alvara að fylgja henni þá hætti hún að tala við hana þar um. Svo gengu þær báðar saman þar til hún kom til Betlehem. [ Og sem þær gengu inn í staðinn hrærðist allur borgarlýður yfir þeim og sagði: „Er það Naemí?“ En hún staði til þeirra: „Kallið mig ekki [ Naemí heldur Mara því að Sá almáttugi hefur mjög hrellt mig. Eg fór fullrík í burtu en Drottinn hefur fært mig fátæka heim aftur. Því kallið þér mig Naemí þar að Drottinn hefur so lækkað mig og Sá almáttugi hefur hrellt mig?“

Þetta skeði á þeim tíma árs þá eð kornskurðurinn tók til, þá Naemí og hennar sonarkona Rut hin móverska komu aftur af landinu Moabitarum til Betlehem.