XVII.

Og Elías Thesbiter, einn af borgarmönnum Gíleaðs, sagði til Akab: [ „Svo sannarlega sem Drottinn Ísraels Guð lifir, fyrir hverjum eg stend, þá skal þar hverki koma dögg né regn í þesi ár nema eg segi það.“

Og Guð kom yfir hann og sagði: [ „Far burt héðan og snú þér í mót austri og fel þig hjá þeim læk Krít sem rennur í móti Jórdan. Og þú skalt drekka af læknum. En eg hefi boðið hröfnunum að þeir skuli færa þér atvinnu.“ Og hann gekk af stað og gjörði eftir orði Drottins og fór þangað og setti sig hjá læknum Krít sem fellur að Jórdan. Og hrafnarnir færðu honum brauð og kjöt, bæði kveld og morgna, og hann drakk af læknum.

Og það skeði so nokkrum dögum þar eftir að lækurinn þornaði upp því að ekkert regn kom á jörðina. Þá kom Drottins orð til hans og sagði: „Statt upp og gakk til Sarefta sem liggur hjá Sídon og vert þar. Því eg hefi boðið þar einni ekkju að hún skal fæða þig.“

Og hann stóð upp og gekk til Sarefta. [ Og sem hann kom að staðarportinu, sjá, þá var þar ein ekkja og var að safna sér brennivið. Og hann kallaði til hennar og sagði: „Sæk þú mér lítið vatn í keri so eg megi drekka.“ En sem hún fór að sækja vatnið kallaði hann og sagði: „Fær mér og einn munnbita brauðs.“ En hún svaraði: „Svo sannarlega sem Drottinn þinn Guð lifir þá hefi eg ekki bakað brauð utan mjöl svo mikið sem hafa má í hnefa sér í einu steinkeri og lítið viðsmjörs í krús. Og sjá, eg hefi saman tínt eitt skefli eða tvö og fer eg nú inn að búa þetta til matar fyrir mig og minn son svo við megum eta og deyja síðan.“

Elías sagði til hennar: „Óttast ekki, heldur far þú og gjör það sem þú sagðir en allt að einu, baka þú mér þó fyrst lítið þar af og fær mér það hingað. Eftir það skalt þú gjöra þér og þínum syni. Því að svo segir Drottinn Ísraels Guð: Mjölið í steinkerinu skal ekki þrjóta og viðsmjör í krús skal og ei þverra allt til þess dags að Drottinn skal láta rigna á jörðina.“ Hún gekk í burt og gjörði svo sem Elías bauð. Og hann át og hún og hennar hyski um nokkra tíma. Mjölið í steinkerinu þraut ekki og viðsmjörið í krúsinni þverraði ekki, eftir orðum Drottins sem hann talaði fyrir Eliam.

Það bar til eftir þetta að sonur þessarar konu sýktist þar Elías var til herbergis og hans sjúkdómur varð svo mjög strangur að öndin gekk upp af honum. [ Og hún sagði til Eliam: „Hvað hefi eg með þig, þú guðsmaður? Þú ert kominn til mín að minna misgjörða verði minnst svo að minn sænur dæi.“ Hann sagði til hennar: „Fær mér hingað þinn son.“ Og hann tók sveininn af hennar skauti, gekk upp á þann sal sem hann var og lagði hann í sína sæng, ákallaði Drottin og sagði: „Drottinn, minn Guð, hefur þú og svo hryggt þessa ekkju hverrar gestur eg er að þú i hel slær hennar son?“ [

Og hann breiddi sig þrjár reisur ofan yfir sveininn og kallaði til Drottins og sagði: „Drottinn, minn Guð, lát þessa sveins önd koma til hans aftur.“ Og Drottinn bænheyrði Eliam so að barnsins önd kom aftur til þess og það varð lifandi. Og Elías tók sveininn og bar hann ofan af salnum í húsið og fékk hann sinni móður og sagði: „Sjá þar, þinn sonur lifir.“ Og kvinnan sagði til Eliam: „Nú veit eg víst að þú ert einn guðsmaður og orð Drottins er sannleikur í þínum munni.“