Og tveimur árum þar eftir þá dreymdi faraó kóng draum. [ Hann þóttist standa á einum árbakka og sjá, upp úr ánni komu sjö kýr feitar og fagrar og þær bitu græn grös jarðar. Eftir það sá hann aðrar sjö kýr koma upp úr ánni, þær voru ljótar og magrar. Þær gengu að þeim öðrum kúnum sem voru á árbakkanum. Og þær enu ljótu og mögru kýrnar uppátu þær sjö feitu og fögru kýr. Og þá vaknaði faraó.

Og hann sofnaði í annan tíma og dreymdi enn annan draum og þóttist sjá að þar spruttu upp sjö axin á einum hálmi, full og fögur. Þar eftir sá hann önnur sjö axin uppkoma, þau voru mjó og visin. Og þessi sjö mjóu axin uppsvelgdu þau sjö feitu og fullu axin. Þá vaknaði faraó og fornam að það var einn draumur. En um morguninn varð hann hugsjúkur. Og hann sendi út boð og heimti til sín alla spásagnarmenn Egyptalands og alla spekinga og sagði þeim sína drauma. En þar fannst enginn sem þá kunni að ráða.

Þá talaði sá ypparsti skenkjari til pharaonem og sagði: „Minnist eg í dag á misgjörning minn. [ Þá faraó varð reiður upp á sína þénara og lét setja mig og þann ypparsta bakara í myrkvastofu í hofmeistarans húsi þá dreymdi okkur báða á einni nóttu sinn draum hvorn okkar og hvorum fyrir sig gekk eftir því sem hvors draumur réðst. Þar var hjá okkur í myrkvastofunni einn ungur maður ebreskur, hofmeistarans þénari, honum sögðu við okkar drauma og hann réð þá sérhvorum okkar sinn draum og það gekk so sem hann sagði okkur. Því að eg er settur til míns embættis aftur en sá annar var hengdur.“

Þá sendi faraó og lét kalla á Jósef og þeir (eð eftir honum fóru) létu hann strax úr myrkvastofunni, klipptu hans hár og skiptu klæðum við hann og hann gekk inn fyrir faraó. [ Þá sagði faraó til hans: „Mig hefur dreymt einn draum en hér er enginn sá hann kann að ráða. En eg hefi heyrt það sagt að þú ráðir vel drauma.“ Jósef svaraði pharaone og sagði: „Ekki er þvílíkt í mínu valdi, þó mun Guð birta fyrir pharaone farsællega hluti.“

Þá sagði faraó Jósef: „Mig dreymdi eg þóttist standa á árbakkanum og eg sá sjö fagrar feitar kýr koma upp úr ánni og þær gengu í haglendi og átu græn grös. [ Og eftir það sá eg aðrar sjö kýr uppkoma, mjög ljótar og magrar, so að eg hefi aldrei séð aðrar jafnmagrar í öllu Egyptalandi. Og þær sjö mögru og ljótu kýr uppátu þær fyrri sjö feitu kýrnar. Og þá þær höfðu uppétið þær sá þar ekki líkindi til að þær hefði étið þær heldur voru þær jafn magrar sem áður. Og þá vaknaði eg.

Þar eftir sá eg enn í draumi að sjö öx runnu upp á einum hálmi, full og fögur. Þar eftir runnu upp sjö þunn öx sem voru bæði þunn og visin. Og þessi sjö þunnu öxin uppátu þau inu sjö þykkvu öxin. Eg hefi sagt spásagnarmönnum þessa drauma en þar er enginn sem þá kunni að ráða.“

Jósef svaraði pharaone: „Báðir pharaonis draumar merkja eitt, því Guð vill kunngjöra pharaone hvað hann ætlar að gjöra. Sjö kýr fagrar og feitar eru sjö ár og þau sjö aux eru og sjö ár. Þessir báðir draumar hafa eina merking. Og sjö kýr magrar og ljótar sem uppkomu eftir hinar, það eru sjö ár og þau sjö mjóu og visin öx eru sjö hallærisár sem koma munu. Þetta er nú það orð sem eg hefi sagt pharaone að Guð sýnir pharaone hvað hann vill gjöra.

Sjá, sjö ár munu koma með nægð alls jarðarávaxtar yfir allt Egyptaland. En að þeim liðnum þá munu koma önnur sjö hallærisár svo að menn skulu gleyma allri þeirri nægð sem að nokkurn tíma var í Egyptalandi. Og það hallæri skal uppéta landið svo að menn skulu ei minnast þeirrar yfirfljótanlegrar árgæsku sökum þeirrar hallæristíðar sem koma mun því hún verður mjög þung. En það pharaonem dreymdi hið sama í öðru sinni, það hefur þá merking að Guð vill sannarlega og snarlega gjöra þetta.

Því sjái sig faraó um og fái til einn vísan og forsjálan mann og setji hann yfir allt Egyptaland og að hann skikki verkstjóra yfir öll héröð landsins og taki þann fimmta hlut allra ávaxta í öllu Egyptalandi í þessi sjö árgæskuárin og samansafni allrahanda vistum á þessum góðum tilkomandi árum og að safnað sé til samans korni í pharaonis kornhlöður til atvinnu og geymist í stöðunum so menn megi finna fæðslur þau sjö hallærisár sem koma munu yfir Egyptaland so að landið fordjarfist ekki af hungri.“

Þetta ráð líkaði pharaone vel og so öllum hans þénurum. [ Og faraó sagði til sinna þénara: „Hvar munum vér finna einn þvílíkan mann með hverjum að Guðs andi er?“ Og hann sagði til Jósefs: „Af því að Guð hefur kunngjört þér þvílíkt so þú veist allt þetta þá er þar enginn so hygginn og forsjáll sem þú ert. Þig set eg yfir mitt hús og allur minn lýður skal lúta þínu boðorði. Kóngs hásæti einu skal eg þér æðri vera.“

Og enn sagði faraó til Jósefs: „Sjá, eg hefi sett þig yfir allt Egyptaland.“ Og hann tók [ hring af hendi sér og gaf hann Jósef og klæddi hann með hvítum silkiklæðum og hengdi eina gullkeðju um hans háls. Og hann lét aka honum í sínum öðrum vagni næst sér og lét kallara fyrir honum renna: „Hann er landsins faðir“, og setti hann höfðingja yfir allt Egyptaland. Og faraó sagði til Jósef: „Eg er faraó. Án þíns vilja skal enginn hræra hönd eður fót í öllu Egyptalandi.“ Og faraó kallaði hann „það leynda ráðið“. Og hann gaf honum Asnat til eiginnarkvinnu, sem var dóttir Pótífars kennimanns í Ón. [

So reisti Jósef út að skoða Egyptaland. Og hann var þrjátígi ára gamall þá hann stóð fyrir pharaone, kónginum af Egyptalandi. [ Og hann gekk út frá faraó og fór út um öll héröð Egyptalands. Og landið leiddi af sér nægð ávaxtar um þau sjö veltiár. Og hann safnaði saman allsháttuðum fæðslum sem voru á Egyptalandi og lagði þær inn í staðina til geymslu, allt það korn sem óx á ökrunum í kringum hvern stað, það alltsaman lét hann innláta. Og í soddan máta safnaði Jósef ómælanlegu korni til samans svo sem sand með sjávarströndu so hann lét af að mæla það því það mátti ekki reiknast.

Og Jósef átti tvo sonu áður en hallærið kom hverja eð Asnat dóttir Pótífars kennimannsins í Ón fæddi honum. [ Og hann nefndi þann fyrra Manasse. [ „Því Guð“, (sagði hann), „hefur látið mig gleyma allri minni ólukku og öllu míns föðurs húsi.“ Þann annan nefndi hann Efraím. [ „Því Guð“, sagði hann, „hefur látið mig vaxa í því landi þar eg var fátækur.“

Og sem þau sjö frjóvgunarár voru umliðin í Egyptalandi þá tóku þau sjö hallærisárin að koma þau sem Jósef hafði talað um. [ Og þar varð hallæri í öllum löndum. En í öllu Egyptalandi var brauð. En sem að þar kom að Egyptalands innbyggjarar tóku að líða hungur þá bað fólkið faraó um brauð. En faraó sagði til allra egypskra: „Farið til Jósefs og hvað sem hann býður yður, það gjörið.“ En sem hallærið megnaðist í öllu landinu þá upplét Jósef allar kornhlöður og seldi þeim egypskum. Því að þess lengur sem hallærið var þess þyngra varð það í landinu. Og öll lönd komu í Egyptaland að kaupa sér atvinnur af Jósef. Því mjög megnt hungur var í öllum löndum.