XXIII.

Nær þú situr til borðs með nökkrum höfðingjum, so athuga gaumgæfilega hvern þú fyrir þér hefur og set [ kníf á barka þér viljir þú lífi þínu halda.

Girnstu ekki fyrir hans fæðu því að það er falskt brauð.

Keppstu ekki við að verða ríkur og hættu af þínum fundningum.

Lát augu þín ei þangað fljúga sem þú kannt ei af að fá því að það sama gjörir sér vængi svo sem ernur og flýgur upp að himni.

Neyttu ekki matar með öfundsjúkum manni og æsk þú þér ekki hans fæðu.

Því líka sem ein [ forynja er hann fyrir innan, hann segir: „Et og drekk“ en hjarta hans er þó ekki þér með.

Þína bita sem þú hefur etið hlýtur þú upp að gefa og tapa þínum vinsamlegum viðræðum.

Tala þú ekki fyrir eyrum hins heimska því að hann fyrirlítur hyggindi þinnar ræðu.

Færðu ekki úr stað þau gömlu landamerki og gakk ei yfir akra föðurlausra

því að voldugur er þeirra frelsari, hann mun rétta þeirra sök þér í móti. [

Gef þitt hjarta til lærdóms og eyra þitt til skynsemdarræðu. [

Lát ekki af að hirta ungmennið því ef þú slær það með vendinum þarf það ekki [ drepið að verða. [

Þú flengir það með vendinum en þú frelsar önd þess frá helvíti.

Son minn, ef þú ert hygginn þá gleðst mitt hjarta og mín nýru fagna þegar varir þínar tala það hvað rétt er.

Lát ekki þitt hjarta eftirfylgja syndunum, vertu heldur daglega í Drottins ótta því að það mun þér síðar meir gott vera og von þín mun ekki bregðast.

Heyr þú, son minn, og vertu hygginn og haga vel hjarta þínu á veginum.

Vertu ekki með ölsvelgjurum og gráðugum því að ölsvelgjarar og gráðugir útarmast og svefnugur maður hlýtur að bera tötrug föt.

Hlýð þú föður þínum sem þig hefur getið og forsmá ekki móður þína þegar hún eldist.

Kaup þú sannindi og sel ekki, visku, lærdóm og skilning.

Faðir hins réttláta fagnar og sá sem vitran son hefur getið gleðst þar af.

Láttu föður þinn og móður fagna sem þig getið hafa.

Gef mér, son minn, hjarta þitt og lát þínum augum vel þóknast mína vegu.

Því ein skækja er djúp gröf og ein hórkona þröngur pyttur. [

Hún umsitur so sem einn reyfari og þá inu djörfu á meðal mannanna dregur hún að sér.

Hvar er vei? [ Hvar er harmur? Hvar eru deilur? Hvar eru ákærur? Hvar eru áverkar fyrir utan tilverknað? Hvar eru rauð augu?

Einkum þar sem menn sitja til samans við víndrykkju og koma til samans af að drekka það sem á er skenkt.

Líttu ekki á vínið þá það er rautt og þess litur er svo skær í glasinu, það rennur sætlega niður.

En eftir á bítur það sem höggormur og stingur sem ein naðra.

Þá munu augu þín líta eftir annarlegum konum og hjarta þitt tala ranghverfa hluti

og munt vera sem nokkur sá er sefur í miðju hafi og líka sem sá eð ofan upp á mastrinu sefur (í skipinu og segir):

„Þeir slá mig en mér er það þó ekki sárt, þeir berja mig en eg kenni ekki til þess. Nær mun eg vakna so að eg þetta oftar fremji?“