Harmagrátur Jeremie

I.

Hvernin liggur sú borgin í eyði sem full var með fólk! Hún sem var ein höfðingsfrú á meðal þjóðanna er vorðin sem ein ekkja og drottningin í landinu hlýtur nú skattgild að vera.

Hún grætur á nóttinni so að tárin renna ofan eftir hennar kinnbeinum, þar er enginn á meðal allra hennar ástvina sem hugsvali henni, allir hennar náungar fyrirlíta hana og eru vorðnir hennar óvinir.

Júda er hertekin í útlegð og þungan þrældóm, hún byggir á meðal þjóðanna og finnur öngva hvíld, allir hennar ofsóknarmenn breyta vondslegana við hana.

Vegirnir til Síon liggja í eyði af því að þangað kemur enginn upp til neinnrar hátíðar. Allar hennar portdyr standa auðar, hennar kennimenn þeir andvarpa þungt, hennar meyjar eru sorgarlegar á að sjá og hún sjálf er harmþrungin.

Hennar mótstöðumenn eru upphafnir, hennar óvinum vegnar allt vel því að Drottinn hefur fyllt hana með eymd fyrir hennar mikilla synda sakir og hennar börn eru hertekin í burt farin fyrir augsýn óvinarins.

Öll fegurðarprýðin er burt frá dótturinni Síon, hennar höfðingjar eru líka sem þeir hrútar eð ekkert fóður finna og ganga þreyttir fyrir þeim eð þá fram rekur.

Jerúsalem þenkir á þessum tíma hversu það aumleg og fyrirlitin hún er og hversu mikil auðæfi að hún hefur haft forðum daga, með því að allt hennar fólk liggur þar niður slegið af óvinarins hendi og enginn er sá sem henni hjálpar, hennar óvinir þeir sjá sína lysting á henni og spotta hennar þvottdaga.

Jerúsalem hefur syndgast, þar fyrir hlýtur hún að vera sem ein saurug kvinna. Allir þeir sem hana heiðruðu þeir forsmá hana nú með því að þeir sjá hennar vanvirðing. En hún blæs þungan og er aftur snúin.

Hennar óhreinindi þau loða við faldinn á hennar klæðum, hún hafði ekki so meint að það mundi so eiga að ganga henni að síðustunni, hún er so hræðilegana undirlaugð og þar með hefur hún öngvan þann sem henni hugsvalar. Aha Drottinn! Líttu á mína eymdarvesöld það óvinurinn hann þykist so mikill!

Óvinurinn hefur lagt sína hönd á alla hennar dýrgripi það hún hlaut að horfa á það að hinir heiðnu gengu inn í hennar helgidóm, um hvað þú hefur þó boðið að þeir skyldu ekki innkoma í þína samkundu.

Allt hennar fólk það stynur hátt og leitar sér fæðslu, þeir selja út sínar hávur fyrir mat að þeir kunni so að lífga sáluna. Aha Drottinn! Álít það og hygg að því hversu aumleg eg em orðin!

Yður segi eg það, öllum þeim sem hér framhjá ganga: Skoðið það og hyggið að því hvert þar er nokkur sorg so sem mín sorg sem eg hefi í ratað því að Drottinn hefur fyllt mig af eymd á þeim deginum sinnar grimmdarreiði.

Hann hefur sent í mín bein einn eld út af hæðunum og lætur hann geisa, hann hefur sett net fyrir mínar fætur og hneppt mig so til baka, hann hefur gjört mig að einu örbæli so að eg hlýt daglegana sorgbitin að vera.

Mínar þungu syndir eru uppvaknaðar fyrir hans refsing og eru í hópum komnar yfir minn háls so það allur minn mannskapur líður í burt. Drottinn hefur svo útreitt mig það eg kann ekki upp að komast.

Drottinn hefur niðurtroðið alla mína öfluga þá sem eg hafði, hann hefur látið úthrópa eitt helgihald yfir mér til að fordjarfa mína kaska yngismenn. Drottinn hann lét meyjarnar dótturinnar Júda troða vínþrúguna.

Þar fyrir græt eg so og bæði mín augu fljóta af vatni af því að sá hugsvalarinn sem endurlífga skyldi mína sálu er mér mjög fjarlægur. Mín börn eru í burt það óvinurinn hefur fengið sigur úr skiptum.

Síon breiðir út sínar hendur og þar er þó enginn sem hugsvalar henni því að Drottinn skipaði óvinum Jakobs í kringum hann so að Jerúsalem hlaut að vera á millum þeirra líka sem ein saurug kvinna.

Drottinn er réttlátur því að eg var hans munni óhlýðug. Heyrið það, allt fólk, og hyggið að minni sorg, mínar meyjar og yngismenn eru í burt gengnir í herleiðingina.

Eg kallaði á mína vini en þeir tældu mig, mínir prestar og öldungar í staðnum eru máttlausir það þeir ganga og biðja sér matar so að þeir kunni þar með að endurlífga sínar sálir.

Óhó Drottinn! Álíttu þó hversu kvalin að eg er so að mér er aumt í kviðinum þar út af, mitt hjarta það slæst um í mínu lífi það eg em mjög harmþrungin. Úti þá hefur sverðið mig og í húsinu þá hefur dauðinn gjört mig til einnrar ekkju.

Þeir heyra það vel að eg andvarpa so þungt og eg hefi þó öngvan hugsvalara. Allir mínir óvinir heyra mína ógæfu og gleðja sig þess, það sama gjörir þú. So lát þó þann dag koma sem þú úthrópar að þeim skuli ganga líka sem mér.

Lát alla þeirra illsku koma fyrir þig og útreið þá so sem þú hefur útreitt mig fyrir allra minna misgjörða sakir. Því að mín andvarpan er mikil og mitt hjarta er harmþrungið.