VIII.

Þessa hef eg elskað og eftir henni leitað frá mínum barndómi og eg hugsaði að taka hana mér til brúður því eg hefi fengið ást til hennar vænleika. [ Hún er mjög ættgöfug því að hennar umgengni er hjá Guði og Drottinn allra hluta elskar hana. Hún er það heimuglega ráð í Guðs viðurkenningu og framkvæmir hans verk. Er ríkdómurinn ágætur hlutur þessa lífs? Hvað er ríkara en spekin sem skapar alla hluti? Gjörir það viskan? Hver er merkilegri meistari á meðal allra en hún? En elskar nokkur réttvísina? Hennar erfiði er ekkert utan mannkostirnir því hún kennir hævesku, hyggindi, réttvísi og styrkleika, hverjir hlutir nytsamlegastir eru þessa lífs. Ef girnist nokkur margt að vita þá kann hann að hitta upp á bæði það umliðna og ókomna. Hún skilur djúpar ræður og kann að leysa úr myrkum ráðgátum. Hún veit teikn og stórmerki fyrir fram og hvernin það mun tilganga á hverri stund og tíma.

Eg hafði hugað mér að taka hana mér til samlags því að eg veit að hún mun vera mér góður ráðgjafi og huggun í sorg og mótgangi. Fyrir hana hefur yngismaðurinn prís á meðal fólksins og heiður hjá þeim gömlu. Eg mun finnast snarpvitur í dóminum og hjá þeim voldugu skulu menn furða um mig. Þá eg þegi þá munu þeir bíða mín, þá eg tala munu þeir það athuga, þá eg framsegi mín orð þá munu þeir leggja hendur á sinn munn. Eg mun fá ódauðlegt nafn af henni og láta eftir mig eilíflega minning hjá mínum eftirkomendum. Eg skal stjórna fólkinu og þeir heiðnu munu verða mér undirgefnir. Grimmir týrannar skulu verða hræddir þá þeir heyra til mín og eg mun finnast á meðal fólksins góðsöm og í bardaganum ein hetja. Þá eg er heima þá hefi eg unaðsemd af henni því það er ei leiðisamlegt að hafa umgengni með henni, eigi heldur leiðilegt að vera hjá henni með lyst og gleði. Um slíkt hugsaði eg og lagði það á hjartað. Því að þeir sem henni tilheyra þeir hafa eilífa veru og þeir sem hennar vinir eru þeir hafa hreinferðuga lysting. Þar kemur óþrotnandi ríkdómur af erfiði hennar handa og hyggindi af hennar samvistum og ræðum og einn góður lofstír af hennar umgengni og viðræðu. Eg gekk um kring að leita hennar so að eg næði henni.

Því eg var eitt barn góðrar náttúru og fékk fagra sál. En þá eg var uppfæddur óx eg og varð ósaurgaður líkami. En þá eg merkta að eg kunni ekki með öðru móti kurteis að verða utan Guð gæri mér það (og það kenndi einnin skilnings, að vita hvers náð það er) þá gekk eg fyrir Drottin og bað hann og sagði af öllu mínu hjarta: