VII.

Hver veit hvað manninum er nytsamlegt í lífinu svo lengi sem hann lifir í sínum hégóma, hvað þó í burtu hverfur sem einn skuggi? Eða hver kann að segja nokkrum manni hvað eftir hans daga mun koma undir sólunni?

Eitt gott rykti er betra en góð smyrsl og dauðans dagur er betri fæðingardegi. Það er betra að ganga í sorgarhús en í drykkjuhús, í hinu er allra manna endatekt og hinir liföndu setja það sér í hjarta. Betri er hryggð en hlátur því að hjartað forbetrast við hryggðina. Vitra manna hjörtu eru í sorgarhúsi en fávísra hjörtu í gleðihúsi. Betra er að heyra ávítan hins hyggna heldur en lofsöng ins heimska. Því að fávíss manns hlátur er líka sem þá þyrnir brestur í eldi undir katli. Og það er og svo hégómi.

Einn þverbrotinn gjörir hygginn mann óviljugan og fordjarfar gjafmilt hjarta. Endir á einum hlut er betri en upphafið. Þolinmæði er betri en metnaðarandi. Ver ekki fljótur í þínu sinni að verða reiður því að reiðin hvílist í hjarta fávísra. Seg þú ekki: Hvað veldur að þeir liðnu dagar eru betri en þessir? Því svoddan er ei vitmannleg spurn. Viskan er góð með erfðagóssinu og hjálpar til að einn kann gleðja sig af sólunni. Því að svo sem viskan verndar svo vernda auðæfin en viskan gefur lífið þeim hana hefur. Hugleið þú Guðs gjörninga því hver kann að gjöra það rétt sem hann gjörir bogið? Gjör þig glaðan á öllum þínum gleðidögum og tak þá hina vondu daga og til þakka. Því að Guð skikkar þá báða hvern með öðrum svo maðurinn skal ekki vita af því hvað eftir hann mun ske.

Allsháttað hefi eg séð í minni hégómatíð. Þar til var einn réttlátur og fyrirfórst í sínu réttlæti og þar var einn óguðlegur hver lengi lifði í sinni illsku. Vertu eigi of réttlátur og eigi of vís svo þú fordjarfir þig ekki. Vert ekki of mjög óguðlegur eða svo mjög heimskur so að þú deyir í ótíma. Gott er þér að höndla þetta en lát hitt annað þó eigi sleppa þér úr hendi því hver eð óttast Guð sá umflýr þetta allt.

Vísdómurinn styrkir þann hyggna meir en tíu voldugir í staðnum. Enginn maður á jarðríki er so réttlátur að hann syndgist ekki. Legg ekki á hjartað allt það sagt er so að þinn þjón bölvi þér ekki. Því þitt hjarta veit að þú hefur oft öðrum bölvað.

Allt svoddan hef eg með visku reynt. Eg sagða: Eg vil verða hygginn, en hún fyrtist mig. Hún er langt í burt, hvað skal það verða? Og er mjög djúpt niður, hver vill hana finna?

Eg snera mínu hjarta til að rannsaka og að spyrja og að leita eftir vísdómi og listum og að reyna heimsku óguðhræddra og villur þeirra fávísu. Og eg fann að svoddan ein kvinna var beiskari en dauðinn hverrar hjarta bæði var net og snara og hennar hendur sem eitt band. Hver Guði þóknast sá kemur frá henni en sá hinn syndugi skal fanginn verða af henni.

Sjá þú, þvílíkt hefi eg fundið, segir prédikarinn, eitt eftir annað svo eg mætta nema kunnáttu. Og mín sála leitar enn og hefur ekki fundið. Á meðal þúsunda fann eg einn mann en á meðal þeirra allra fann eg öngva kvinnu. En sjá þú aðeins, það hefi eg fundið að Guð skapti manninn réttan en þeir leita mikillar kunnáttu. Hver er svo hygginn og hver kann að útleggja það?