VIII.

En Saul var samsinnandi hans dauða. [ Þá gjörðist og mikill ófriður þeim safnaði sem var til Jerúsalem. Og þeir tvístruðust allir burt um héröð Judee og Samarie fyrir utan postularnir. En guðhræddir menn bjuggu um Stephanum og báru yfir honum trega mikinn. En Saul tók að eyða söfnuðinum, gangandi inn í ýmsra hús, dragandi út menn og kvinnur og setti í varðhöld.

En þeir sem tvístraðir voru fóru um kring og prédikuðu Guðs orð. [ Philippus fór og ofan til borgarinnar í Samaria og prédikaði þeim út af Christo. Og fólkið tók með einu samheldi til að heyra og gætur að því að gefa sem af Philippo sagðist, sjáandi og þau teikn er hann gjörði. Því að óhreinir andar fóru út af mörgum þeim er óðir voru með ópi miklu. Margir iktsjúkir og haltir urðu og heilbrigðir. Og mikill fögnuður gjörðist í þeirri borg.

En þar var áður fyrri í þeirri borg sá nokkur sem Símon hét, töframaður, og tældi með því hina samversku þjóð að hann sagði sig vera nokkursháttar mikinn, hverjum þeir hlýddu allir, frá hinum minnsta til ins mesta, segjandi: [ „Þessi er kraftur Guðs sá er kallas hinn mikli.“ En þeir lutu honum af því að hann hafði í langan tíma ært þá með sinni fjölkynngi. Og þá þeir trúðu nú Philippo sem hann prédikaði af Guðs ríki og af nafni Jesú Christi skírðust bæði menn og konur. [ Þá trúði og Símon sjálfur. Og er hann var skírður hélt hann sig að Philippo. En þá hann sá þau tákn og kraftaverk sem skeðu tók hann felmsfullur að undrast.

En er postularnir þeir sem til Jerúsalem voru heyrðu það að Samaria hafði meðtekið Guðs orð sendu þeir til þeirra Petrum og Johannem. [ Og þá þeir ofan komu báðu þeir fyrir þeim so að þeir meðtæki heilagan anda. Því að hann var eigi enn kominn yfir nokkurn þeirra nema þeir voru aðeins skírðir í nafni Drottins Jesú Christi. Þeir lögðu þá hendur yfir þá og þeir meðtóku heilagan anda.

En er Símon sá það að heilagur andi varð gefinn fyrir handaupplegging postulanna bauð hann þeim peninga og sagði: „Gefi þér mér og þetta vald so að yfir hvern er eg legg hendur að hann meðtaki heilagan anda.“ En Pétur sagði til hans: [ „Peningur þinn sé með þér til glötunar því þú meintir Guðs gáfu með peninga útvegast. Ekkert hlutskipti né gæfu lag verður þér af þessu orði því að þitt hjarta er eigi réttferðugt fyrir Guði. Fyrir því gjör iðran fyrir þessa þína illsku og bið Guð um ef verða mætti að þér fyrirgefist þessi hugsan þíns hjarta því að eg sé þig vera með beisku galli og í fjötri ranglætisins.“

Þá svaraði Símon og sagði: „Biðji þér fyrir mér til Drottins so að ekkert komi yfir mig út af því sem þér sögðuð.“ En þeir þá eð þeir höfðu vitnað og talað orð Drottins sneru þeir aftur til Jerúsalem og prédikuðu guðsspjöllin í mörgum samverskum kauptúnum.

En engill Drottins talaði til Philippo og sagði: [ „Statt upp og gakk í suður á þeim veg sem liggur frá Jerúsalem ofan til Gasa þeirrar sem í eyði er.“ Hann stóð upp og gekk í burt. Og sjáðu, að blálenskur maður, geldingur og vildarmenni drottningarinnar Candases af Blálandi, hver eð yfir var settur allar hennar fjárhirslur, hann var farinn til Jerúsalem að tilbiðja og fór nú heim í veg og sat í sínum vagni, lesandi Esaiam spámann.

En andinn sagði til Philippo: „Gakk þangað að og teng þig að þeim vagni.“ Þá skundaði Philippus þangað að og heyrði að hann var að lesa Esaiam spámann og sagði: „Skilur þú ekki hvað þú les?“ En hann svaraði: „Hvernin má eg kunna það nema að nokkur leiðrétti mig?“ Þá bað hann Philippum það hann stígi upp og sæti hjá sér. En Ritningarinnihald það hann las var þetta: „So sem sauður er hann til dráps leiddur og þegandi sem lamb fyrir þeim er það klippir, líka so hefur hann og eigi upplokið sínum munni. Í hans lækkan er hans dómur burt hafinn en hver mun hans aldur út mega segja? Því að hans lífdagar eru af jörðunni í burt teknir.“ Þá svaraði geldingurinn Philippo og sagði: „Eg beiði þig, af hverjum talar spámaðurinn þetta? Sjálfum sér eður um nokkurn annan?“

En Philippus lauk upp sínum munni og tók til í frá þessari skrift og boðaði honum af Jesú. Og sem þeir fóru um veginn komu þeir að vatni nokkru. Og geldingurinn sagði: „Sjáðu vatnið, hvað hamlar mér það eg skírunst eigi?“ En Philippus sagði: „Ef þú trúir af öllu hjarta þá hæfir það.“ Hann svaraði og sagði: „Eg trúi að Jesús Christus sé Guðs sonur.“ Og hann bauð að vagninn staðnæmdist. Og þeir stigu báðir ofan í vatnið, Philippus og geldingurinn, og hann veitti honum skírn. En er þeir voru upp komnir úr vatninu greip andi Drottins Philippum í burt og geldingurinn sá hann eigi meira. Með það fór hann glaður sína götu. En Philippus fannst í Asdód, gekk um kring og prédikaði evangelium í öllum stöðum þar til hann kom til Cesaream.