IIII.

Þá var Jesús leiddur af anda á eyðimörk upp á það hann freistaður yrði af djöflinum. [ Og þá hann hafði fastað fjörutígu daga og fjörutígu nátta hungraði hann. Og freistarinn gekk til hans og sagði: „Ef að þú ert sonur Guðs seg að steinar þessir verði að brauðum.“ En hann svaraði og sagði: [ „Skrifað er: Maðurinn lifir eigi af einusaman brauði heldur af sérhverju orði sem framgengur af Guðs munni.“

Þá tók djöfullinn hann með sér í borgina helgu og setti hann upp á bust musterisins og sagði til hans: „Ef þú ert Guðs son fleyg þér hér ofan það skrifað er: Hann mun bjóða sínum englum um þig að á höndum beri þeir þig so að þú steytir ei fót þinn við steini.“ Jesús sagði til hans: „Enn aftur er skrifað: [ Eigi skaltu freista Drottins Guðs þíns.“ Og enn aftur flutti djöfullinn hann með sér upp á ofurhátt fjall og sýndi honum öll ríki veraldar og þeirra dýrð og sagði til hans: „Allt þetta mun eg gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig.“ Þá sagði Jesús til hans: „Far burt, þú andskoti, því að skrifað er: [ Drottin Guð þinn skaltu tilbiðja og honum einum þjóna.“ Þá forlét djöfullinn hann og sjá, að englar komu til hans og þjónuðu honum.

En er Jesús heyrði það Jóhannes var gripinn fór hann til Galilealands og forlét borgina Naðsaret og kom og byggði í borginni Kapernaum hver eð liggur við sjávarsíðu í endimörkum Sabúlon og Neftalím. [ So að það uppfylltist hvað sagt er fyrir Esaiam spámann sem segir: „Landið Sabúlon og landið Neftalím við sjávargötu hinumegin Jórdanar og Galilea hin heiðna, lýður sá er sat í myrkrunum hann sá ljós mikið og þeir sem sátu í byggð og skugga dauðans þeim er nú ljós upprunnið.“ Þaðan í frá tók Jesús að prédika og segja: [ „Gjörið iðran því að himnaríki er nálægt.“

En er Jesús gekk með sjónum í Galilea leit hann tvo bræður, Símon sá er kallast Petrus og Andream bróður hans, hverjir eð voru að varpa neti í sjóinn því að þeir voru fiskimenn. [ Og hann sagði til þeirra: „Fylgið mér eftir og eg mun gjöra yður að fiskörum manna.“ En þeir forlétu jafnsnart netin og fylgdu honum eftir.

Og er hann gekk fram lengra burt þaðan sá hann tvo aðra bræður, Jakob son Zebdei og Johannem bróður hans, vera í skipi með föður sínum Zebedeo net sín að bæta. Og hann kallaði þá. En þeir forlétu strax skipið og föður sinn og fylgdu honum eftir.

Jesús fór og um allt Galileam, kennandi í þeirra samkunduhúsum og prédikaði evangelium ríkisins og læknaði öll sóttarfelli og öll krankdæmi með fólkinu og hans rykti barst út um allt Syriam. [ Og þeir færðu honum alla þá sem krenktir voru af margvíslegum sóttarferlum og í ýmislegum píslum höndlaðir og þá er djöful höfðu, tunglamein eða iktsjúkir voru og hann læknaði þá alla. Og margt fólk fylgdi honum eftir úr Galilea og úr þeim tíu borgum og af Jerúsalem og Júda og af þeim héröðum er voru hinumegin Jórdanar.