IIII.

Heyrið, synir mínir, hirtingu föðurs yðars og gaumgæfið og lærið so þér verðið forsjálir. Því að eg gef yður góðan lærdóm, forlátið ei mitt lögmál. Því að eg var og sonur föður míns, fríður einkason móður minnar, hann kenndi mér og sagði:

Láttu þitt hjarta meðtaka mitt orð, haltu mín boðorð, so muntu lifa, nem þú vísdóm, nem þú skilning, gleym ekki og bregð ekki af orðum munns míns. Yfirgef hann ekki, svo mun hann halda þér, elska þú hann, svo mun hann varðveita þig. Því að upphaf viskunnar er það ef mann hlýðir henni gjarnan og hefur hyggindin kærri en mikil auðæfi. Virð hana mikils og mun hún hefja þig og gjöra þig heiðarlegan ef þú umfaðmar hana. Hún mun þitt höfuð fagurlega fríkka og prýða það með fegurðarkórónu.

Því heyr nú, son minn, og meðtak mín orð, so munu lengjast lífdagar þínir. Eg vil vísa þér viskunnar veg og leiða þig á rétta götu svo að þá þú gengur veiti þér eigi mæðið þín ganga og meiðir þig ei þá þú hleypur. Þol þú agann, yfirgef hann ei, geym þú hann, því að hann er þitt líf.

Kom þú ekki á stigu ómildra og gakk þú ekki á vegi vondra manna. Láttu hann fara, vert ekki þar á, víktu þar frá og gakktu hjá honum. Því að þeir sofa ekki nema þeir hafi nokkuð illt gjört, þeir hafa öngva hvíld nema þeir hafi gjört skaða. Því að þeir hafa nært sig af rangfengnu brauði og drekka af ranglætisins víni. En stígur réttlátra skín sem annað ljós það sem framlíður og lýsir þar til dagur er en vegur ómildra er svo sem myrkur og þeir vita ekki hvar þeir munu detta.

Son minn, hlýttu orðum mínum og hneig eyra þitt til minnar ræðu. Láttu hana ekki frá þínum augum fara, hirtu hana í hjarta þínu því að hún er þeirra líf sem hana finna og heilbrigði allra þeirra líkama. Geym hjarta þitt af allri vandvirkt því að þar út af gengur lífið. Burtskúfa frá þér heimskum munni og láttu háðgjarnar varir langt frá þér. Augu þín láttu rétt fram fyrir sig sjá og skima ekki með þínum augum. Láttu þinn fót jafnframt fyrir þig stíga, svo gengur þú stöðuglega, halla þér hverki til hægri handar né vinstri, snú þínum fótum frá illsku.