Og Adam kenndi sinnar kvinnu Evu. Og hún varð ólétt og fæddi Kain og sagði: „Eg hefi öðlast þann mann Drottinn.“ [ Og hún varð ólétt í annað sinn og fæddi hans bróður Abel. Og Abel varð sauðahirðir en Kain varð einn akurmaður.

Og það skeði so eftir stundir liðnar að Kain færði Drottni fórnir af ávöxtum jarðar. Abel bar og fram af frumburði sinnar hjarðar og af þeirra feiti. Og Drottinn leit náðarsamlega til Abels og til hans fórnar. En til Kains og hans fórnar leit hann ekki náðarsamlega. Þá varð Kain afar reiður so að hans yfirbragð afmyndaðist. Og Drottinn sagði til Kains: „Því ertu so reiður? Og hvar fyrir afmyndast so þitt yfirbragð? Er ekki so? Ef þú ert frómur þá ertu þakknæmur en sért þú ekki frómur þá hvílist syndin fyrir dyrum, en lát þú hana ekki hafa sinn vilja heldur drottna yfir henni.“ Þá talaði Kain við bróður sinn Abel.

Og það skeði so þá þeir voru til samans á akrinum að Kain reis upp í móti sínum bróðir Abel og sló hann í hel. [ Þá mælti Drottinn til Kain: „Hvar er þinn bróðir Abel?“ Hann svaraði: „Eg veit ekki. Eða á eg að vakta minn bróður?“ Og hann sagði: „Hvað hefur þú gjört? Röddin þíns bróðurs blóðs hrópar til mín af jörðunni. Og bölvaður sértu nú á jörðunni sem upplauk sínum munni og tók þíns bróðurs blóð af þinni hendi. [ Nær þú erjar jörðina þá skal hún ekki hér eftir gefa þér af [ sínum gróða, ráfandi og landflótta skalt þú vera á jörðunni.

Þá sagði Kain til Drottins: „Mín synd er stærri en það hún megi mér fyrirgefast. Sjá: Þú útskúfar mér í dag af landinu og eg hlýt að fela mig fyrir þínu augliti og vera so ráfandi landflótta maður á jörðu. Þá vill það mín verða að hver mig finnur hann mun slá mig í hel.“ En Drottinn sagði til hans: „Það skal ekki ske, heldur hver sem Kain í hel slær, þess skal hefnt verða sjöfaldlega.“ Og Drottinn setti eitt einkenningarmark á Kain að enginn skyldi slá hann í hel, hver sem hann fyndi. So gekk Kain út frá augliti Drottins og bjó í landinu Nód fyrir austan Eden.

Og Kain kenndi sinnar kvinnu og hún varð ólétt og fæddi Henok. [ Og hann uppbyggði eina borg og kallaði hana eftir síns sonar nafni Henok. Og Henok gat Írað, Írað gat Mahújael, Mahújael gat Matúsael, Matúsael gat Lamek.

En Lamek tók sér tvær eiginkonur, ein þeirra hét Ada en önnur Silla. [ Og Ada fæddi Jabal. Af honum eru þeir komnir sem bjuggu í landtjöldum og voru fjárhirðarar. Og hans bróðir hét Júbal. Hann hóf fyrstur manna hörpuslátt og organs leik. Og Silla varð ólétt og fæddi Túbalkain. Hann var hagleiksmaður í allra handa koparsmíði og járnsmíði. Túbalkains systir hét Naema.

Og Lamek sagði til sinna kvenna: „Ada og Silla, þið Lameks kvinnur, heyrið mín orð og gefið gaum að því eg segi. Eg hefi í hel slegið einn mann mér til áverka og eitt ungmenni mér til sársauka. Kains skal sjö sinnum hefnt verða en Lameks sjötígi sinnum sjö sinnum.“

Og Adam kenndi sinnar kvinnu að nýju og hún fæddi einn son. [ Þann kallaði hún Set. „Því Guð hefur (sagði hún) séð mig og gefið mér nú annað sæði í staðinn Abels sem Kain sló í hel.“ Og Set átti einn son. Þann kallaði hann Enos. Og á þeim tíma hófu menn að predika út af nafni Drottins.