XIII.

En í þann sama tíma voru þar nokkrir við er kunngjörðu honum frá þeim í Galilea, hverra blóði Pílatus hafði blandað við þeirra fórnir. [ Jesús svaraði og sagði til þeirra: „Meini þér að þessir Galilei væri fyrir öllum Galileis syndugir þótt þeir þyldu þetta? Eg segi yður: Nei, heldur ef þér gjörið eigi iðran þá fyrirfarist þér líka allir. Eða meini þér að þeir átján á hverja turninn í Síló áhrapaði og drap hafi sakaðir verið framar öllum mönnum er byggja til Jerúsalem? Eg segi yður: Nei, heldur ef þér gjörið eigi iðran munu þér einnin allir fyrirfarast.“ [

En hann sagði þeim þessa eftirlíking: [ „Nokkur maður var sá er fíkjutré hafði plantað í sínum víngarði. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann eigi. Þá sagði hann til víngarðsfágarans: Nú í þrjú ár hefi eg árlega komið og leitað ávaxtar af þessu fíkjutré og fundið eigi. Högg það því af. Hvar til hindrar það garðlendið? En hann svaraði og sagði til hans: Herra, lofa því að standa þetta árið þar til eg gref um það og læt að myki ef það vildi so ávöxt færa, en ef eigi, þá högg það eftir á af.“

Og hann kenndi í samkunduhúsi þeirra á þvottdegi. [ Og sjáið, að þar var sú kona er haft hafði krankleiksanda í átján ár og hún var bjúg og með öngvu móti þá gat hún upplitið. En er Jesús leit hana kallaði hann hana til sín og sagði til hennar: „Þú kona, vert laus af krankdæmi þínu“ og lagði hendur yfir hana. Og jafnskjótt rétti hún sig upp og dýrkaði Guð. Þá svaraði yfirmaður samkunduhússins og þykktist við það Jesús læknaði á þvottdögum og sagði til lýðsins: „Sex dagar eru þeir á hverjum eð hæfir að vinna. Því komi þér eigi á þeim að láta lækna yður en eigi á þvottdegi.“

Drottinn svaraði honum og sagði: [ „Þú hræsnari, leysir eigi hver yðar einn á þvottdegi naut sitt og asna af bási og leiðir til vats? En skyldi þessi eigi leysast á þvottdegi, sem þó er Abrahams dóttir, af því bandi er andskotinn hafði hana fjatrað, sjá, í átján ár?“ Og er hann sagði þetta skömmuðust sín allir hans mótmælendur og allt fólkið gladdist yfir þeim öllum dýrðarverkum er af honum gjörðust.

Hann sagði þá: [ „Hverjum er Guðs ríki líkt og hverju skal eg því samjafna? Líkt er það mustarðskorni því maður tók og varpaði í grasgarð sinn. Það spratt upp og varð mikið tré og fuglar himins hreiðruðu sig undir þess kvistum.“

Og enn sagði hann: [ „Hverju skal eg samlíkja Guðs ríki? Líkt er það súrdeigi því er kona tók og mengaði við þrjá mæla mjöls þar tli að það sýrðist allt.“ Og hann gekk í gegnum borgir og kauptún og kenndi og gjörði sína reisu til Jerúsalem.

En þar sagði nokkur til hans: „Herra, meinar þú eigi að þeir sér fáir er hjálpast?“ En hann sagði til þeirra:„Keppið eftir inn að ganga um hið þröngva hliðið því að margir (það segi eg yður) sækja þar til inn að ganga og fá eigi getað. Og í frá því eð húsbóndinn er inngenginn og hefir dyrnar afturluktar þá taki þér til þar fyrir utan að standa og á dyrnar að hnýja, so segjandi: [ Herra, herra, lúktu upp fyrir oss. Hann mun svara og segja til yðar: Eigi þekki eg yður eða hvaðan þér eruð.

Þá munu þér hefja upp og segja: Vær höfum etið hjá þér og drukkið og á strætum vorum kenndir þú. En hann mun þá segja: Eg segi yður það eigi kenni eg yður hvaðan þér eruð. Farið frá mér, allir þér illgjörðamenn. Þar mun vera óp og tannagnístran nær þér sjáið Abraham og Ísaak og Jakob og alla spámenn í Guðs ríki en yður útrekna. Og þeir úr austri og vestri, norðri og suðri munu koma og til borðs sitja í Guðs ríki. [ Og sjáið, að þeir sem voru síðastir verða fyrstir og þeir eð eru fyrstir verða síðastir.“

Á þeim sama degi gengu nokkrir af Phariseis inn og sögðu honum: „Haf þig burt og gakk héðan því að Heródes vill aflífa þig.“ Hann sagði til þeirra: [ „Fari þér og segið þeim ref: Sjáið, að eg rek út djöfla og fullgjöri lækningar í dag og á morgun en á þriðja degi líð eg undir lok. Hvað fyrir það? Þó byrjar mér í dag og á morgun og næsta dag eftir að ganga. Því að það fær eigi skeð að nokkur spámaður farist utan í Jerúsalem.

Jerúsalem, Jerúsalem, þú sem aflífar spámennina og grýtir þá steinum er til þín verða sendir! Hversu oft hefi eg viljað samansafna sonum þínum, líka sem hæna sínu hreiðri undir vængi sér, og þér hafið eigi viljað. Sjáið, yðvart hús skal yður því eyðilátið verða. En eg segi það eigi munu þér sjá mig þar til það kemur er þér munuð segja: Blessaður sé sá er kemur í nafni Drottins.“