XXII.

En þá tók að nálgast hátíðardagur ins sæta brauðs hver eð kallaðist páskar. [ Og kennimannahöfðingjar og skriftlærðir eftirleituðu hvernin þeir gæti hann líflátið því að þeir óttuðust lýðinn. [ En andskotinn var hlaupinn í Júdas þann kallaður var Ískaríot hver eð var einn af tólf. Og hann fór burt og talaði við kennimannahöfðingjana og höfuðsmennina hvernin hann vildi selja þeim hann. Þeir glöddust við og hétu að gefa honum peninga til. Og hann lofaði þeim því og leitaði lags að hann fengi selt þeim hann án upphlaups.

En er kom dagur ins sæta brauðs á hverjum sæfast skyldi páskalambið. [ Og hann sendi út Petrum og Johannem og sagði: „Fari þið, búið til páskalambið so að vér neytum.“ En þeir sögðu til hans: „Hvar viltu að vér reiðum það til?“ Hann sagði til þeirra: „Sjáið, nær þér gangið inn í borgina mun maður mæta ykkur berandi vatsskjólu. Fylgið honum eftir í það hús hvert hann gengur inn og segið húsbóndanum: Meistarinn lætur segja þér: Hvar er það herbergi þar eg megi páskalambið í eta með mínum lærisveinum? Og hann mun vísa yður stóran sal ástráðan. Reiðið það þar til.“ Þeir gengu burt og fundu so sem hann hafði sagt þeim og reiddu til páskalambið.

Og þá er sú stund kom setti hann sig niður og þeir tólf postular með honum. [ Og hann sagði til þeirra: „Mig hefur af hjarta næsta eftirlangað að eta þetta páskalamb með yður áður en eg líð. Því að eg segi yður að hér eftir mun eg eigi oftar af því neyta þar til að það fullkomnast í Guðs ríki.“ Hann tók og kaleikinn, gjörði þakkir og sagði: [ „Meðtakið hann og skiptið honum á milli yðar. Því að eg segi yður: Eg mun eigi drekka af vínviðarávexti þar til að Guðs ríki kemur.“ Og hann tók brauðið, gjörði þakkir og braut það og gaf þeim og sagði: „Þetta er mitt hold það fyrir yður gefið verður. Gjörið þetta í mína minning.“ Líka einnin og kaleikinn eftir kveldmáltíðina og sagði: „Þessi er kaleikur hins nýja testamentis í mínu blóði hvert fyrir yður úthellist.

En þó, sjáið, að hönd þess er mig svíkur er meður mér á borði. [ Og að sönnu fer Mannsin son eftir því sem ályktað er. Þó ve þeim manni fyrir hvern hann verður svikinn!“ Og þeir tóku að spyrja sín á milli hver af þeim væri sá er þetta mundi gjöra.

En þar hófst upp þræta þeirra á milli hver þeirra mundi mestur haldinn verða. [ En hann sagði til þeirra: „Veraldlegir konungar drottna og hverjir yfirmagtina hafa þá kallast náðugir herrar. En þér skuluð eigi svo. Heldur sá sem mestur er yðar á milli veri hann svo sem hinn minnsti og hinn æðsti sem annar þénari. Því hver er meiri, sá sem til borðsins situr eður sá sem þjónar? Er eigi so að hann sem við borðið situr? En eg em á millum yðar sem sá er þjónar. En þér eruð þeir hverjir hjá mér voru í mínum freistingum. Og eg vil tileinka yður ríki so sem minn faðir hefir mér það tileinkað so að þér skuluð eta og drekka yfir mitt borð í mínu ríki og sitja á stólum, dæmandi tólf kynkvíslir Ísraels.“

En Drottinn sagði: [ „Símon, Símon, sjáðu, að andskotinn hefir beiðst yðar að hann mætti sælda yður sem hveiti. En eg bað fyrir þér að þín trúa þrotnaði eigi. Og hvenar þú snýst um aftur þá styrk þú bræður þína.“ En hann sagði til hans: [ „Herra, reiðubúinn em eg með þér í fjötur og dauða að ganga.“ En hann sagði Pétri: „Eg segi þér að í dag gelur haninn eigi áður þú hefir þrisvað afneitað því að þú þekktir mig.“

Og hann sagði til þeirra: [ „Þá eg senda yður út án pungs eður tösku eða skófata, hvort brast yður þá nokkuð?“ En þeir sögðu: „Alls ekkert.“ Þá sagði hann til þeirra: „En nú hver eð pung hefir sá taki hann, líka og einnin töskuna og sá er eigi hefur selji hann kyrtil sinn og kaupi sverð. Því að eg segi yður að það hlýtur á mér að fullkomnast hvað skrifað er: Það hann er meður illvirkjum reiknaður. Því hvað af mér skrifað er hefir nú enda.“ En þeir sögðu: Herra, sjá, tvö sverð eru hér.“ Hann sagði til þeirra: „Það er nóg.“

Og hann gekk eftir vana til fjallsins Olivetum og hans lærisveinar fylgdu honum eftir. [ Og þá hann kom til þess staðar sagði hann til þeirra: „Biðjið að eigi falli þér í freistanir.“ Og hann veik sér frá þeim mestu steinsnari, féll á kné og tók að biðja og sagði: „Faðir, ef þú vilt þá tak þennan kaleik af mér. En þó eigi minn heldur verði þinn vilji.“ En honum birtist engill af himni, styrkjandi hann. Og þar kom að hann þreytti við dauðann og tók ákafar að biðja. En hans sveiti varð so sem blóðsdropar þeir eð féllu á jörðina. Og hann stóð upp af bæninni og kom til sinna lærisveina og fann þá sofandi af hryggð og sagði til þeirra: „Hvað sofi þér? Standið upp og biðjið að þér fallið eigi í freistni.“

Þá hann var þetta að segja, sjá, það flokkurinn og einn af tólf, sá Júdas hét, gekk fyrir þeim og vildi nálgast Jesúm að hann kyssti hann. [ En Jesús sagði til hans: „Júdas, svíkur þú Mannsin son með kossi?“ En er þeir sem hjá honum voru sáu hvað verða vildi sögðu þeir til hans: „Herra, skulu vær eigi slá með sverði?“ En einn af þeim sló þjón prestahöfðingjans og hjó af hans hið hægra eyra. Jesús svaraði og sagði: „Leyfið þeim að gjöra allt hið frekasta.“ Og hann snart hans eyra og læknaði hann.

En Jesús sagði til þeirra prestahöfðingja og höfuðsmanna musterisins og öldunganna, hverjir eftir honum voru komnir: [ „So sem til annars illvirkja gengu þér út með sverðum og stöngum. Þá eg var daglega í musterinu hjá yður lögðu þér eigi hendur á mig, heldur er þetta yðar tími og magt myrkranna.“ En þeir gripu hann og leiddu hann í prestahöfðingjans hús. En Pétur fylgdi honum eftir álengdar.

Þeir kveiktu þá upp eld í miðjum forsalnum og settu sig í kringum hann. [ Og Pétur var þar á milli þeirra. Þá sá hann ambátt nokkur sitja við logann, horfði á hann og sagði: „Þessi var og með honum.“ En hann afneitaði honum og sagði: [ „Kona, eigi þekki eg hann.“ Og litlu einu þar eftir sá hann annar maður og sagði: „Þú ert og einn af þeim.“ En Pétur sagði: „Ei em eg.“ Og er bil var á orðið sem eins tíma tilstyrkti nokkur annar og sagði: „Að sönnu var og þessi með honum því að hann er Galíleari.“ En Pétur sagði: „Maður, eigi veit eg hvað þú segir.“ Og jafnsnart að honum nú þetta enn talandi gól haninn. Og Drottinn snerist við og leit til Péturs. Og Pétur minntist orða Drottins, hvernin hann hafði sagt: „Fyrr en haninn gelur muntu afneita mér þrisvar.“ Og Pétur gekk út og grét beisklega.

En þeir menn sem héldu Jesú dáruðu hann og dustuðu, byrgðu hann og slógu í hans andlit, spurðu hann að og sögðu: „Hver er sá sem þig sló?“ Og margt annað háðuglegt sögðu þeir við hann.

Og er dagur var komu saman öldungar lýðsins og prestahöfðingjar og hinir skriftlærðu og leiddu hann upp fyrir sitt ráð og sögðu: [ „Ef þú ert Christus, seg oss það.“ Og hann sagði til þeirra: „Ef eg segi yður þá trúið þér mér ei. En ef eg spyr yður þá svarið þér mér eigi og látið mig ei lausan. Og héðan í frá mun Mannsins son sitja til hægri handar Guðs kraftar.“ [ En þeir sögðu allir: „Ertu þá Guðs sonur?“ Hann sagði til þeirra: „Þér segið það því að eg em hann.“ En þeir sögðu: „Hvað þurfum vér nú vitnisburðinn lengur? Vér sjálfir heyrðum það af hans munni.“