XIIII.

Eftir þetta sagði Júdít til alls fólksins: „Góðir bræður, hlýðið mér. Jafnsnart þegar lýsir þá hengið höfuðið út fyrir múrinn og takið yðar vopn og fallið út fyrir staðinn saman í einni fylkingu og með miklu herópi. Þá munu varðhaldsmennirnir koma til Holofernis landtjalds og sjá þar líkamann liggja í sínu blóði. Þá mun hræðsla koma yfir þá. Og þegar þér merkið að þeir eru hræddir orðnir og taka til að flýja þá rennið eftir þeim djarflega því að Drottinn hefur gefið þá undir yðar fætur.“

Þá eð Akíor sá nú að Drottinn hafði hjálpað Ísrael yfirgaf hann heiðni og trúði á Guð og lét umskera sig og er á meðal Ísrael reiknaður, hann og allir hans eftirkomendur, allt til þessa dags.

Og þá eð lýsti af degi hengdu þeir höfuð út fyrir múrinn, tóku sín vopn og féllu út með miklum gný og herópi. Og er varðhaldsmennirnir sáu þetta hlupu þeir til landtjalds Holofernis. Og þeir sem þar voru gjörðu hark framan fyrir svefnherberginu hvar af hann skyldi vakna. Því að enginn dirfðist að klappa á dyrnar eður inn að ganga í svefnherbergið höfðingjans af Assyria. En þá höfuðsmennirnir þeirra Assyriis komu sögðu þeir til svefnherbergissveinanna: „Farið inn og vekið hann upp því að mýsnar eru úthlaupnar úr sínum holum og eru djarfar orðnar so að þær dirfast að taka í móti oss.“ Þá gekk Bagóa inn og stóð hjá sparlakinu og klappaði höndunum saman það hann ætlaði að hann mundi sofa hjá Júdít og hlustaði til ef hann vildi hræra sig. En þá hann varð einskis var þá lyfti hann upp sparlakinu. Þá sá hann líkamann höfuðlausan, liggjandi á jörðu í sínu blóði. Þá æpti hann og kallaði hátt og sundurreif sín klæði. Og hann leitaði í Júdíts herbergi og þá er hann fann hana ekki þar hljóp hann út til hersins og sagði: „Einasta ein ebresk kvinna hefur allt Nabogodonosor hús af Assyria gjört að spotti og spé fyrir öllum heiminum því að Holofernes liggur þar dauður á jörðu og höfuðlaus!“ Og er höfuðsmennirnir af Assyria heyrðu þetta sundurrifu þeir sín klæði og urðu mjög úr máta skelfdir og þar hófst upp eitt mikið hræðsluóp og kall á meðal þeirra.