XVII.

En þá þeir fóru um Amphipolin og Appolloniam komu þeir til Tessalóníuborgar hvar eð var Gyðingasamkunda. [ En Páll gekk inn eftir venju sinni til þeirra og sagði þeim um þrjá þvottdaga úr Ritningunum, opnaði fyrir þeim og sannaði það Kristi byrjaði að líða og af dauða upp að rísa „og að þessi Jesús hvern eg boða yður,“ sagði hann, „sé sá Kristur.“ Og nokkrir af þeim trúðu og samlöguðu sig Páli og Sila og mikill fjöldi guðlegra Grikkja, þar með hinar æðstu kvinnur eigi allfáar.

En þeir vantrúuðu Gyðingar fylldust vandlætingar og fengu með sér nokkra illþýðisalmúgamenn. Og er þeir höfðu dregið flokk saman gjörðu þeir upphlaup í borginni og æddu fyrir hús Jasonis og sóttu eftir að leiða þá fram fyrir alþýðufólkið. [ En er þeir fundu þá eigi drógu þeir Jasonm og nokkra bræður til höfðingjanna borgarinnar og kölluðu: „Þeir eð villa alla jarðarkringlu eru hér komnir, hverja Jason hýsir. Og þessir allir gjöra í móti keisarans boði, segjandi annan kóng vera sem er Jesús.“ En þeir æstu upp lýðinn og höfðingja borgarinnar þá er þeir heyrðu þetta. Og sem þeir höfðu fullt andsvar fengið af Jasoni og þeim öðrum létu þeir þá lausa.

En bræðurnir létu Pál og Silam burt fara um nótt til Berrhoen. [ Og er þeir komu þar gengu þeir inn í Gyðinga samkundu. En þeir voru hinir eðlabornustu meðal þeirra sem voru í Tessalonia hverjir orðið meðtóku af öllum hugarins tilbúnaði, rannsakandi daglegana Ritningarnar, hvort það væri so. Og margir af þeim gjörðust trúaðir og einnin erlega kvinnur gírskar og eigi allfáir kallmenn. Og er þeir fengu að vita þeir Gyðingar sem voru til Tessalonia að Guðs orð voru boðuð af Páli í Berrhoen komu þeir og þangað og æstu upp lýðinn. [ En jafnsnart sendu bræðurnir Pál þá í burt það hann gengi allt út til sjávarins en Sílas og Tímóteus blifu þar eftir. Og þeir eð leiddu Pál á veg fylgdu honum allt til Aþenu. Og sem þeir fengu þann bífalning af honum til Sila og Timotheo það þeir kæmi sem snarast til hans fóru þeir aftur.

En á meðan Páll beið þeirra til Athena gramdist hans andi með sjálfum honum er hann sá borgina so mjög hneigða til skúrgoðadýrkunar. [ Af því hafði hann spurningar frammi við Gyðinga og guðrækna menn í samkundunni og alla daga á torgi til þeirra manna sem til hans komu. En nokkrir Epicurei, Stoici, veraldlegir spekingar, þráttuðu við hann og sumir sögðu: „Hvað vill þessi orðsnápur til segja?“ En aðrir sögðu: „Það sýnist sem hann vilji nýrra guða boðari vera.“ Fyrir því hann hafði boðað þeim evangelium af Jesú og af upprisunni. Og þeir gripu hann höndum og leiddu á dómflötinn segjandi: „Megu vær ekki fá að vita hver þessi nýja kenning er sem af þér segist? Því að nokkuð nýtt flytur þú fyrir vor eyru. Fyrir því vildu vér vita hvað það væri.“ En allir Aþenuborgarmenn og so útlendingar og gestir stunduðu ekkert annað nema segja eður heyra nokkuð nýtt.

En Páll sté upp á miðjan dómflötinn og sagði: [ „Þér menn Aþenuborgar! Eg sé það þér eruð í öllum hlutum nærsta hjátrúaðir. Eg hefi gengið hér um og séð yðra skúrgoðadýrkan. Eg fann og altari á hverju upp var skrifað: Þeim ókunnuga Guði. Fyrir því boða eg yður þann sama hverjum þér óvitandi dýrkan gjörið. Sá Guð sem gjörði heiminn og allt hvað í honum er, fyirr því að hann er Drottinn himins og jarðar. Eigi byggir hann í musterum þeim sem með höndum eru smíðuð og eigi fágast hann í mannlegum höndum. [ Hann þarf og einskis við með því han gefur sjálfur öllum líf og andardrátt á allan hátt. [ Hann gjörði og af einu blóði allt mannkyn þeir er byggja skyldi yfir allri augsýn jarðar og ályktaði forskikkaða tíma og takmörk þeirra byggingar hefur hann staðfest so að þeir skyldu Guðs leita ef verða kynni að þeir mætti á honum þreifa og á honum finna og sannlega, hann er eigi langt frá einum sérhverjum vorra. Því að fyrir hann lifum, hrærunst og erum vær. So sem nokkrir yðars landsdiktarar hafa sagt: [ Vér erum og hans slektis. Nú með því vér erum Guðs slekti skulum vér eigi meina Guðdóminn líkan vera myndum af gulli og silfri eður steinum af mannafyndingum gjörðum.

Og að sönnu hefur Guð tíma þessarar óvisku líða látið en nú býður hann öllum mönnum hvar helst þeir eru að allir gjöri yfirbót. Fyrir því hefur hann dag til sett á hverjum hann vill dæma alla heimskringluna með réttvísi fyrir einn mann, fyrir hvern hann hafði það og ályktað trú að veita öllum eftir það hann uppvakti hann af dauða.“

En er þeir heyrðu af upprisu framliðinna hæddu sumir að því en sumir sögðu: „Vér skulum heyra þig aftur enn um þetta.“ So gekk Páll út mitt á millum þeirra. Og nokkrir menn héldu með honum og urðu trúaðir, meðal hverra var Díónýsíus, einn af ráðinu, og kona, Damaris að nafni, og fleiri aðrir með þeim.