LXI.

Vegna Síon mun eg eigi þegja og vegna Jerúsalem mun eg eigi hvílast þangað til að hennar réttlæti uppgengur sem annar geisli og hennar hjálpræði uppkveikist sem annar ljóslogi so að hinir heiðnu sjái þitt réttlæti og allir kóngarnir þína dýrðarvegsemd. [ Og þú skalt með nýju nafni nefnd verða hvert eð munnur Drottins mun þig nefna. Og þú munt vera eitt dýrðardjásn í hendi Drottins og ein kóngleg kóróna í hendi Guðs þíns.

Þú skalt ekki lengur kallast hin fyrirlitna né þitt land foreyðsla kallast heldur skalt þú kallast Mín ást til hennar og þitt land Minn kæri elskugi því að Drottinn hefur ást á þér og þitt land hefur einn elskulegan unnusta. Því að líka sem sá eð elskar hann hefur sína unnustu kæra svo munu þín börn þig kæra hafa og so sem það brúðguminn gleður sig yfir sinni brúði so mun þinn Guð gleðja sig yfir þér.

Ó Jerúsalem, eg mun vökumenn tilskipa upp á þína múrveggi, þeir eð alla daga og allar nætur skulu aldregi hljóðir vera og þeir eð æ skulu minnast Drottins so það í hjá yður sé engin þögn og þér þegið ekki um hann þangað til að Jerúsalem verður búin og sett til lofs á jörðu.

Drottinn hann hefur svarið við sína hægri hönd og við armlegginn síns magtarveldis: Eg mun ei lengur gefa þitt korn þínum óvinum að éta né láta framandi menn drekka þitt það sæta vínið sem þú hefur erfiði fyir haft heldur þeir sem því safna skulu einnin þess neyta og lofa so Drottin og þeir eð það innbera skulu drekka það í fordyrum míns helgidóms.

Gangið út, gangið út í gegnum portin, tilreiðið fólkinu veginn. [ Sléttið veguna, sléttið veguna, lesið í burt steinana, setjið upp merkið fyrir fólkinu. Sjáið, Drottinn hann lætur heyra sig allt til enda veraldarinnar. Segið dótturinni Síon: Sjá þú, þitt hjálpræði kemur, sjá þú, hverju hann launar það er hjá honum og hverjum hann bitalar það er fyrir höndinni. Þeir munu kallast það heilaga fólk, þeir hinir endurleystu Drottins og þú munt kallast Hin [ heimsótta borg og ekki hin fyrirlitna.