Annar S. Páls pistill

til Corinthios

I.

Páll postuli Jesú Christi fyrir Guðs vilja og Tímóteus vor bróðir

þeirri Guðs safnan í Corinthio samt öllum heilögum þeim að eru í öllu Achaia:

Sé náð og friður með yður af Guði vorum föður og Drottni Jesú Christo.

Blessaður sé Guð faðir vors Drottins Jesú Christi hver að er faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar, sá oss huggar í allri vorri hryggðan so að vér getum og huggað þá sem að eru í allsháttuðum hryggðum meður þeirri huggun þar vér verðum með af Guði huggaðir. [ Því að líka so sem að yfirgnæfa harmkvælingar Krists í oss so og líka yfirgnæfir vor huggun fyrir Christum.

En hvort að vér höfum hryggð eður huggan þá sker það yður til góða. [ Er það hrygging þá sker það yður til huggunar og heilsugjafar (hver heilsugjöf að auðsýnir sig ef þér á þann máta með þolinmæði líðið líka sem það vér líðum), er það huggan so sker það yður til huggunar og hjálpræðis. Og vor von er staðföst fyrir yður af því að vér vitum það að líka sem þér eruð hluttakarar orðnir hryggðanna so munu þér og verða hluttakendur hugganarinnar.

Því að vér viljum eigi dylja fyrir yður, góðir bræður, vora hryggð hver oss skeði í Asia. Því að vér vorum ódæmilega forþyngdir og yfir megn fram so að vér örvæntum einnin lífi að halda, úrskurðandi það með sjálfum oss að vér ættum að deyja. En það skeði þar fyrir að vér settum ekki vorn trúnað á sjálfa oss heldur upp á þann Guð er dauða upp vekur, hver oss hefur frelsað af þvílíkum dauða og nú daglega frelsar og enn vonum það hann muni oss frelsa hér eftir, fyrir tilstyrk yðrar fyrirbónar fyrir oss so að fyrir þá gáfu sem oss er gefin fyrir margar persónur yfir oss ske mikil þakkargjörð.

Því að vor hrósan er það sem er vitnan vorrar samvisku það vér höfum í einfaldleik og Guðs skærleika, eigi í holdlegri vissu heldur í Guðs náð gengið í heiminum. [ En einna mest hjá yður því að vér skrifum yður ekki annað til en það þér lesið og vitið. En eg vona það þér munuð kenna oss so allt til endaloka so sem þér hafið og kennt oss af nokkurri álfu. Því að vér erum yðar hrósan líka so sem að þér eruð og vor hrósan á degi Drottins Jesú. Og upp á þvílíkan trúskap þenkta eg nú áður að koma til yðar upp á það þér auðluðust tvelfaldar velgjörðir og eg ferðaðist fyrir yður í Macedoniam og kæmi úr Macedonia aftur til yðar og verði so af yður á veg leiddur í Judeam.

En hafi eg lauslyndi framið þá er eg hugleidda slíkt eða er mín fyrirhugsan kjötleg? Eigi so, heldur hjá mér er já já og nei nei. En trúlyndur er Guð því að vor orð voru ei til yðar já og nei. Því að sonur Guðs, Jesús Kristur, sá að fyrir oss er á meðal yðar prédikaður fyrir mig og Silvanum og Timotheum, hann var eigi já og nei heldur var það já í honum. Því að öll Guðs fyrirheit eru já í honum og eru [ amen í honum Guði til dýrðar fyrir oss. En Guð er sá sem oss staðfestir samt yður í Christo og oss hefur smurt og innsiglað og í vor hjörtu gefið pant andarins.