XII.

Og af þeim andlegum gjöfum vil eg eigi dylja fyrir yður, góðir bræður. [ Þér vitið það þér voruð heiðnir og genguð burt til mállausra skúrgoða sem þér urðuð til leiddir. Fyrir því kunngjöri eg yður það enginn sá sem fyrir Guðs anda talar formælir Jesú og enginn fær Jesúm Drottin kallað utan alleinasta fyrir heilagan anda.

Sennilega eru gjafirnar margvíslegar en hinn sami er andinn. Þar eru og margháttuð embætti en hinn sami Drottinn. Þar eru margháttaðar verkanir en hinn sami Guð er sem verkar alla hluti í öllum. En í sérhverjum einum auðsýna sig gjafir andans til almennilegrar nytsemdar. Einum verður gefið fyrir anda að mæla af visku en öðrum verður gefið að tala af skynsemi af hinum sama anda. Öðrum trúan í sömum anda en hinum gjafir lækninganna í sömum anda, öðrum kaftaverk að gjöra en öðrum að gjöra aðskiljanleg grein andanna, hinum öðrum margháttuð tungumál en öðrum útlegging sagnanna. En allt þetta verkar einn og hinn sami andi, skiptandi sérhverjum eftir því sem hann vill.

Því að líka so sem einn líkami er og hefur þó marga limu en allir limir eins líkama hversu margir sem að eru þá eru þeir þó einn líkami, líka so er Kristur. Því að vér erum í einum anda allir í einn líkama skírðir hvort vér erum Gyðingar eður Grikkir, þrælar eða frelsingjar, og erum so allir í einum anda drykkjaðir. Því að líkaminn er eigi einn limur heldur margir. Og ef fóturinn segði: „Engin hönd er eg, þar fyrir er eg eigi limur líkamans“ skyldi hann nú því ekki vera líkamans limur? Og ef eyrað segði: „Eg er eigi augað, þar fyrir er eg ekki limur líkamans“ skyldi það sakir þess ekki vera líkamans limur? Því ef allur líkaminn væri augað hvar væri þá heyrnin, hvar væri þá ilmingin?

En nú hefur Guð sett limuna og hvern einn þeirra á líkamann so sem hann hefur viljað. En ef allir limirnir væri einn limur hvar væri þá líkaminn? En nú eru limirnir margir en líkaminn einn. Því að augað má eigi segja hendinni: „Eg þarf þín eigi við“ eða þar í mót höfuðið til fótanna: „Eg þarf eigi yðar við.“ Miklu heldur, þeir limir líkamans sem oss sýnast breyskvaðir vera þeir eru nauðsynlegastir og þá vér reiknum ótérugasta þeim sömu leggjum vér mestan sóma til og þeir eð oss eru lýti að virðu vér mest. Því að þeir sem oss prýða þurfa þess eigi við. En Guð hefur so líkamann samantengt og gefið þeim nauðsynjalimum hinn mesta sóma so að engin ágreining sé á líkamanum heldur það hver limurinn ber áhyggju fyrir öðrum. Og ef einn limurinn líður þá líða allir limirnir með og ef einum limnum verður sómi veittur þá samfagna honum allir limirnir.

En þér eruð Krists líkami og limir, hver eftir sinni deild. Og Guð hefur sett í söfnuðinn í fyrstu postula, þá spámenn, í þriðja máta lærifeður, eftir það þá sem kraftaverkin gjöra, þar næst þá sem lækningsgjafirnar hafa, þá viðhjálparana, þá stjórnarana, þá margháttuð tungumál. Eru þeir allir postular? Eru þeir allir spámenn? Eru þeir allir lærifeður? Eru þeir allir þeir menn sem kraftaverkin gjöra? Eða þeir sem lækningsgjöfina hafa? Tala þeir allir margháttuð tungumál? Kunna þeir allir út að leggja? Eftirstundið þeim hinum bestu gjöfunum. Og eg vil vísa yður enn æðra veg.