XXI.

Sem það var skeð að vér leystum og hurfum frá þeim komu vér beinleiðis til Co og annars dags til Rodis og þaðan til Patara. [ Og þar fundu vér skip það er fara átti til Phenicen, stigum þar á og sigldum þangað. En sem vér fengum að sjá Cypriam létum vér það vinstri handar og sigldum í Syriam og komum að Tyro því þar átti skipið að leggja upp farmenn. [ Og sem vér fundum lærisveinana blifu vær þar í sjö daga, hverjir Páli sögðu fyrir andagift það hann skyldi eigi fara upp til Jerúsalem. Og það skeði sem þeir dagar voru liðnir fórum vær og gengum af stað. Og þeir allir, með húsfreyjum sínum og börnum, fylgdu oss á veg út fyrir borgina og féllum á hné í fjörunni og báðunst fyrir. Go er vær höfðum kvatt hver annan stigu vér á skip en hinir sneru aftur til sinna heimkynna.

Og er vér höfðum lyktað vora sigling fyrir Tyro komu vær ofan til Ptolomaida og heilsuðum bræðrunum og vorum þar einn dag hjá þeim. En annars dags fóru vær í burt þeir eð með Páli voru og komum til Cesarea og gengum inn í hús Philippi guðsspjallara hver eð var einn af sjö og blifum hjá honum. Hann átti fjórar dætur þær meyjar voru og spáðu fyrir. Og sem vér dvöldunst þar nokkra daga kemur spámaður sá af Judea er Agabus var að nafni. Og þá hann kom til vor tók hann linda Páls og batt hendur sínar og fætur og sagði: [ „Þetta segir heilagur andi: Þann mann hvers eð þessi lindi er munu Gyðingar so binda í Jerúsalem og selja hann í heiðingjanna hendur.“

En sem vér heyrðum það báðu vér hann og þeir aðrir sem í þeim stað voru það hann færi eigi upp til Jerúsalem. En Páll svaraði þá og sagði: [ „Hvað gjöri þér er þér grátið og hrellið mitt hjarta? Því eg em eigi reiðubúinn til að láta mig binda heldur að deyja í Jerúsalem fyrir sakir nafns Drottins Jesú.“ Og með því vér gátum ei talað um fyrir honum þögnuðu vær og sögðum: „Verði vilji Drottins.“ Og eftir þá daga fórum vær út, gengum upp til Jerúsalem. [ Þangað komu og nokkrir lærisveinar meður oss af Cesarea, hafandi þann nokkurn gamlan lærisvein meður sér af Cypria, Mnasonem að nafni, hjá hverjum vér herbergi tókum. Og þá vér komum til Jerúsalem tóku bræðurnir feginsamlega við oss. En annars dags gekk Páll inn meður oss til Jacobum. Allir öldungar komu þar og saman. Og sem hann hafði heilsað þeim skýrði hann þeim frá hvað eftir annað það Guð hafði gjört á meðal heiðinna þjóða fyrir hans þjónkan.

Þá þeir höfðu það heyrt vegsömuðu þeir Guð og sögðu til hans: [ „Bróðir, þú sér hve mörg þúsund Gyðingar að þeir eru sem trúaðir hafa vorðið. En þeir allir eru þó vandlætingarmenn lögmálsins. Og þeir hafa heyrt sagt eftir þér það þú kenndir þeim Gðingum öllum sem meðal heiðinna þjóða eru að snúa frá Moyse, segjandi þeir skyldu eigi umskera sonu sína og eigi eftir þeirri siðvenju ganga. Hvað um það er byrjar safnaðinum allra helst til samans að koma því að þeir munu fá að heyra það þú ert kominn. Því gjör nú það hvað vér segjum þér.

Vér höfum hér fjóra menn, hverjir heit hafa fest yfir sér. Þá sömu tak að þér og hreinsa þig meður þeim og kosta þá að þeir raki sitt höfuð so að allir viti að það hvað þeir hafa heyrt um þig sé ósannindi heldur það þú gangir sjálfur og varðveitir lögmálið. Því þeim sem trúaðir höfðu gjörst af heiðingjum skrifuðum vér og úrskurðuðum að þeir skyldu ekkert þess konar halda nema það þeir vöruðu sig við skúrgoðadýrkan og blóð, köfnuðu og frillulifnaði.“ Þá tók Páll þá menn að sér og lét annars dags hreinsa sig meður þeim og gekk inn í musterið og tjáði sig að halda uppfylling hreinsanardaganna þar til að hver einn þeirra offraði fyrir sig sinni fórn.

En sem þeir sjö dagar voru liðnir sáu hann þeir Gyðingar í musterinu er voru úr Asia og æstu upp allan lýðinn, lögðu hendur á hann og kölluðu: [ „Þér Ísraelsmenn, hjálpið til! Þessi er sá maður sem alls staðar kennir öllum mönnum í gegn þessu fólki og lögmáli og so í mót þessum stað. Þar ofan á hefur hann innleitt heiðna menn í musterið og saurgað so þennan heilaga stað!“ [ Því að þeir höfðu séð Trophimum af Epheso með honum í borginni. Þann meinuðu þeir að Páll hefði í musterið innleitt. Og öll borgin ókyrrðist og áhlaup varð af fólkinu. Og þeir tóku Pál höndum og drógu út af musterinu og jafnsnart urðu dyrnar aftur læstar.

Sem þeir leituðu við að lífláta hann kom sú fregn upp fyrir yfirhöfðingjann herliðsins það öll Jerúsalem væri uppvægð. [ Hann tók stríðsveinana og hershöfðingjana til sín og hljóp burt í milli þeirra. En sem þeir sáu hershöfðingjann og stríðsfólkið gáfu þeir upp að berja á Páli. En hershöfðinginn gekk þar að og tók hann að sér og bauð að binda hann tveimur járnviðjum og spurði að hver hann væri og hvað hann hefði gjört. En sitt kallaði hver af fólkinu. Og með því hann fékk ekki víst að vita fyrir upphlaupinu bauð hann að leiða hann í kastalann. Og sem þeir komu að tröppunni hlutu stríðsmennirnir að bera hann fyrir aðsúg fólksins því að mikill fólksfjöldi fylgdi eftir og kölluðu: „Afskaf þú þennan!“

Og sem Páll varð innleiddur í kastalann sagði hann til hershöfðingjans: [ „Leyfist mér ekki að tala við þig?“ En hann sagði: „Kanntu gírsku? Ertu eigi sá hinn egypski maður sem fyrir þessum dögum styrjöld uppvaktir og dróst út á eyðimörk fjórar þúsundir morðvarga?“ En Páll sagði: „Eg er að sönnu maður Gyðingakyns af Tarsen, einn borgari út af nafnfrægri borg í Cilicia. Eg bið þig, lofa mér að tala til fólksins.“ Og er hann lofaði honum sté Páll upp á tröppurnar og bandaði hendinni til lýðsins. Og er mikil þögn gjörðist talaði hann til þeirra á ebreska tungu og sagði: