XVIII.

Og Davíð skoðaði lið sitt það sem með honum var og setti höfuðsmenn yfir þúsund og yfir hundrað. Hann setti Jóab höfðingja yfir þriðjung fólksins og yfir þann annan þriðjung setti hann Abísaí son Serúja, bróður Jóab, og yfir þann þriðja þriðjung Ítaí Getither.

Og kóngurinn sagði til fólksins: „Eg vil og fara út með yður.“ En fólkið svaraði: „Nei, þú skalt hvergi út fara því þó svo sé að vér flýjum eða falli helst af oss þá munu þeir ekki hirða um það. En þú einn ert svo sem tíu þúsundir af oss. Það er oss betra að þú veitir oss lið af borginni.“ Kóngurinn svaraði: „Hvað yður sýnist best það vil eg gjöra.“

Kóngurinn gekk í borgarhliðið og allt fólk dró út í riðlum, hundruðum saman og þúsundum. Og kóngurinn bauð Jóab og Abísaí og Ítaí og sagði: „Farið minna vegna varlega með sveininn Absalom.“ Og allur herinn heyrði það að kóngurinn bað alla höfðingja um Absalom.

En sem fólkið kom út á völluna í móti Ísrael þá hófst þegar orostan í skógi Efraím og sneri mannfalli í lið Ísraelsfólks so að Davíðs þénarar veittu þeim mikið slag og felldu á þeim degi tuttugu þúsundir manna. [ Og bardaginn riðlaðist um allt landið og skógurinn tapaði miklu fleirum þann dag heldur en sverðið í hel sló.

Og Absalom mætti Davíðs sveinum og reið einum múl. En sem múllinn kom undir eina mikla og margkvíslótta eik festist hans höfuð í eikinni og hékk hann svo í loftinu en hans múll rann fram undan honum.

Þetta gat að líta einn maður. Hann kunngjörði það Jóab og sagði: „Sjá, eg sá Absalom hanga í einni eik.“ Jóab svaraði manninum sem honum sagði þetta: „Sjá, sást þú þetta? Því slóstu hann þá ekki niður til jarðar og skylda eg hafa gefið þér tíu silfurpeninga og eitt belti.“ [ Maðurinn svaraði Jóab: „Þó þú hefðir vegið út í mína hönd þúsund silfurpeninga þá vilda eg þó ekki hafa lagt mínar hendur á kóngsins son. Því kóngurinn bauð þér og Abísaí og Ítaí oss áheyröndum og sagði: Varðveitið mér sveininn Absalom. En hefða eg gjört þá ofdirfsku í gegn sálu minni með því að ei má það leynt vera fyrir kónginum þá mundir sjálfur þú hafa staðið helst í móti mér.“ Jóab svaraði: „Ekki má eg lengur tefja hjá þér.“

So þreif Jóab þrjú spjót og stakk þeim í brjóst Absalom þar hann hékk lifandi í eikinni. Og tíu af Jóabs skjaldsveinum kringdu um Absalom og slógu hann í hel. Þá blés Jóab herblástur og stöðvaði fólkið af flóttarekstrinum því Jóab vildi þyrma fólkinu.

Og þeir tóku Absalom og köstuðu honum í eina gryfju þar í skóginum, gjörðu mikinn grjóthaug upp af honum. So flýði allur Ísraelslýður hver til sinna heimkynna.

Absalom hafði uppreist einn stólpa að hann lifði hver eð stendur í kóngsins dal. Því hann sagði: „Eg á öngvan son, þar fyrir skal þetta vera til minningar mínu nafni.“ Og hann kallaði þann stólpa eftir sínu nafni og hann kallast inn til þessa dags Absaloms hönd. [

Akímaas son Sadók sagði: „Kæri, látið mig hlaupa að segja kóngi að Drottinn hefur dæmt honum dóm um sína óvini.“ [ Jóab sagði til hans: „Þú ber honum engin góð tíðindi í dag. Annan tíma skaltu tíðindi bera en ekki í dag því kóngsins son er dauður.“ En til Kúsí sagði Jóab: „Far þú og seg kóngi hvað þú hefur séð.“ [ Og Kúsí laut Jóab og rann af stað. Akímaas son Sadók sagði þá í annað sinn til Jóab: „Hvað, en ef eg hleyp eftir Kúsí?“ Jóab svaraði: „Því vilt þú fara, minn son? Kom hingað því að þú ber engin fagnaðartíðindi þangað.“ „Hvað, en ef eg hleyp?“ Jóab sagði til hans: „Hlaup þú.“ Akímaas rann þann beinsta veg og komst fyrir Kúsí.

Davíð sat í millum tveggja dyra og varðhaldsmaðurinn gekk upp á þakið turnsins yfir múrnum og upplyfti sín augu og litaðist um og sá hann hvar einn maður hljóp. Og hann kallaði til kóngsins og sagði honum það. Kóngurinn svaraði: „Ef hann er einn þá mun hann segja góð tíðindi.“ Og sem þessi maður nálgast þá sá vörðurinn einn annan mann hlaupanda og hann kallaði þegar ofan í portið og sagði: „Sjá, enn kemur einn maður hlaupandi.“ Kóngurinn svaraði: „Þessi mun og góður sendiboði?“ Varðhaldsmaðurinn sagði: „Mér sýnist sem Akímaas son Sadók renni fyr.“ Og kóngurinn sagði: „Hann er góður maður og mun bera góðan boðskap.“

Akímaas kallaði hátt og sagði til kóngsins: „Friður!“ Og hann féll fyrir kónginn á sína ásjónu fram til jarðar og sagði: „Blessaður sé Drottinn Guð sem hefur gefið þá menn undir þitt vald sem að upphófu sínar hendur í móti mínum herra kóngi.“

Kóngurinn svaraði: „Eru grið gefin sveininum Absalom?“ Akímaas svaraði: „Eg sá ös mikla þá Jóab, kóngsins þénari, sendi mig, þinn þénara, hingað og eigi veit eg hvað það var.“ Kóngurinn sgaði: „Gakk þú þangað og statt þú þar.“ Og hann fór og stóð þar.

Í þessu kom Kúsí og sagði: [ „Góð tíðindi ber eg, minn herra kóngur: Drottinn hefur dæmt fyrir þig í dag alla þá er risu upp í gegn þér.“ Þá sagði kóngurinn til Kúsí: „Er fritt sveininum Absalom?“ Kúsí svaraði: „Fari so allir míns herra kóngs óvinir sem sá sveinn og allir þeir sem setja sig upp í móti þér til hins vonda.“ Þá varð kóngurinn hryggur og gekk upp á loftsalinn í portinu grátandi og sagði svo: [ „Minn son Absalom, minn son, minn son Absalom! Guð gæfi að eg mætti deyja fyrir þig! Ó Absalom, minn son, minn son!“