VIII.

En er Jesús gekk ofan af fjallinu fylgdi honum margt fólk eftir. [ Og sjá, að líkþrár maður kom, tilbað hann og sagði: [ „Herra, ef þú vilt getur þú mig hreinsað.“ Og Jesús útrétti höndina, snart hann og sagði: „Eg vil, vertu hreinn.“ Og jafnsnart varð hans líkþrá hrein. Og Jesús sagði til hans: „Sjá til að þú seg það eigi neinum heldur far þú og sýn þig kennimönnunum og offra þína gáfu þá er Móses bauð, til vitnisburðar yfir þeim.“

En þá Jesús gekk inn í Kapernaum kom til hans hundraðshöfðingi nokkur, biðjandi hann og sagði: [ „Herra, þjón minn liggur kveisusjúkur heima og kvelst þunglega.“ Jesús sagði til hans: „Eg vil koma og lækna hann.“ Höfðinginn svaraði og sagði: „Lávarður, eg em eigi verðugur að þá gangir undir mitt þak heldur seg þú eitt orð og mun minn þjón heilbrigður verða. Því eg em maður yfirvaldinu undirgefinn, hafandi undir mér hernaðarsveina. Og nær eg segi þessum: Far, þá fer hann, og öðrum: Kom þú, og hann kemur, og þræli mínum: Gjör þetta, og hann gjörir það.“

En þá Jesús heyrði það undraðist hann og sagði til þeirra sem honum eftirfylgdu: „Sannlega segi eg yður að slíka trú hefi eg ei fundið í Ísrael. En eg segi yður það margir munu koma af austri og af vestri og sitja með Abraham, Ísaak og Jakob í himnaríki en ríkisins synir munu verða útreknir í yðstu myrkur þar sem vera mun óp og tannagnístran.“ Og Jesús sagði til höfðingjans: „Gakk héðan, verði þér eftir því sem þú trúðir.“ Og hans þjón varð heill á þeirri sömu stundu.

Og þá Jesús kom í hús Péturs og leit að móðir konu hans lá haldin í köldu þá tók hann um hönd hennar og kaldan forlét hana. [ Og hún stóð upp og þjónaði þeim.

En er kvelda tók færðu þeir marga djöfulóða til hans og hann rak andana út með orðinu og læknaði þá alla er krankir voru so að uppfylltist hvað sagt er fyrir Esaiam spámann, sem segir: [ „Hann hefur vor meinlæti upp á sig tekið og vorar sóttir hefur hann borið.“

En þá Jesús leit margt fólk kringum sig bauð hann sínum lærisveinum að þeir færi yfir um hinumegin þess sjóar. Og einn skriftlærður gekk að og sagði til hans: [ „Meistari, eg vil fylgja þér hvert þú fer.“ Jesús sagði til hans: „Refar hafa holur og fuglar loftsins hreiður en Mannsins son hefur eigi hvar hann sitt höfuð að hneigi.“

Enn annar af hans lærisveinum sagði til hans: „Lávarður, lofa mér fyrst að fara og greftra föður minn.“ Jesús sagði til hans: „Fylg þú mér eftir og lát þá dauðu greftra sína hina dauðu.“

Og er hann sté á skip fylgdu hans lærisveinar honum eftir. Og sjá, að mikill ókyrrleiki gjörðist í sjónum so að skipið huldist bylgjum en hann svaf. [ Og hans lærisveinar gengu að honum og vöktu hann upp og sögðu: „Herra, hjálpa þú oss, vær forgöngum!“ Þá sagði hann: „Hvað hræðist þér, lítiltrúaðir?“ Hann reis þá upp og hastaði á sjóinn. Þá varð logn mikið. En mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur er þessi því að vindur og sjór eru honum hlýðugir.“

Og er Jesús kom yfir um sjóinn í byggðir Gergesenimanna hlupu tveir djöfulóðir í móti honum, komandi úr leiðum framliðinna, þeir eð voru mjög ólmir svo að enginn mátti um þann veg fara. [ Og sjá, að þeir kölluðu og sögðu: „Hvað höfum vær með þig, þú Jesús Guðs sonur? Komstu hingað að kvelja oss áður en tími er til?“ En þar var langt í burt frá þeim hjörð margra svína í gæslu. Djöflarnir báðu hann og sögðu: „Ef þú rekur oss út héðan þá leyf þú oss að fara í svínahjörðina.“ Og hann sagði til þeirra: „Fari þér.“ En þeir fóru út og hlupu í svínin og sjá, að öll svínahjörðin fleygði sér með ös mikilli í sjóinn og þau drekktust í vatninu. En hirðarnir flýðu og komu í borgina, kunngjörðu allt þetta og hvað þeim djöfulóðum hafði veist. Og sjá, að allur borgarmúgur gekk út í mót Jesú. Og er þeir sáu hann báðu þeir hann burt fara af þeirra landamerkjum.