IX.

En þegar drottningin af ríki Arabia heyrði það rykti Salomonis þá kom hún með miklu föruneyti til Jerúsalem, með úlföldum sem báru jurtir, gull og mikinn fjölda gimsteina, til að reyna Salómon með djúpum spurningum. [ En sem hún kom til Salómon talaði hún við hann allt það hún hafði ætlað sér. Og kóngurinn sagði henni allt það hún spurði að og þar var ekkert hulið fyrir Salómoni að hann segði henni það eigi.

Og sem drottningin af Arabiaríki sá speki Salomonis og það hús sem hann hafði byggt og vistir til hans borðs og herbergi hans sveina, hans þjónustumanna skipanir og þeirra klæðnað, hans skenkjara og þeirra klæðnað og hans sal þar sem upp var gengið til Drottins húss, þá gat hún ekki lengur haldið sér.

Og hún sagði til kóngsins: „Allt er það satt sem eg hefi heyrt í mínu landi um þitt framferði og um þinn vísdóm. En eg vilda ekki trúa þeirra orðum fyrr en nú að eg kom og hefi sjálf séð það með mínum augum. Og sjá, mér hefur ekki verið helmingur sagður af þínum mikla vísdómi. Hann er meiri með þér heldur en það rykti sem eg hefi heyrt. Sælir eru þínir menn og sælir eru þínir þénarar sem ætíð standa frammi fyrir þér og heyra þinn vísdóm. Drottinn þinn Guð sé lofaður hver að elskaði þig og hefur sett þig í sitt hásæti til kóngs Drottins þíns Guðs. Af því að þinn Guð elskar Ísrael að hann upphefji hann ævinlega, þar fyrir setti hann þig til kóngs yfir þá að þú skalt fremja dóm og réttindi.“

Og hún gaf kónginum hundrað og tuttugu centener gulls og mjög miklar kostulegar jurtir og dýrmæta steina. [ Þar voru öngvar jurtir þvílíkar sem þessar hverjar drottningin af ríki Arabia gaf Salómoni kóngi. So og þénarar Híram og þeir sveinar Salomonis, þeir fluttu gull af Ófír, þeir fluttu og svo hebentré og dýrmæta gimsteina. Og Salómon lét gjöra gráður af þessu hebentré í húsi Drottins og í kóngsins húsi, svo og hörpur og psalteria til söngvaranna. Svoddan viður hafði ekki fyrr sén verið í landinu Júda. Og Salómon kóngur gaf drottningunni af ríki Arabia allt það hana girnti og hún baðst eftir fyrir utan það sem hún hafði fært kónginum. Og hún sneri aftur og fór heim í sitt land með sínum þénörum.

En það gull sem Salómoni var fært árlega var sex hundruð sextígi og sex centener. [ Þar að auk sem kramarar og kaupmenn færðu honum. Og allir kóngar af Arabia og herrar og höfðingjar í löndunum færðu bæði gull og silfur til Salómon. Af hverju að kóng Salómon gjörði tvö hundruð skjöldu af því besta gulli, en sex hundruð gyllini fóru til hvers skjaldar, og þrjú hundruð buklara af því besta gulli, og á hvern einn buklara fóru þrjú hundruð gyllini. Og kóngurinn lét þá í það hús Libanusskógs.

Og kóngurinn lét gjöra mikið hásæti af fílabeinum og bjó það allt utan með klárt gull. [ Og hásætið hafði sex gráður og einn fótstallur af gulli upp við hásætið. Og hásætið hafði tvær [ bríkur, sína til hverrar handar, tveim megin hásætisins, og á bríkunum stóðu tvö león. Og tólf león stóðu á þeim sex gráðum á báðar síður. Þvlíkt smíði var aldrei gjört í nokkru kóngaríki.

Og öll Salómons kóngs drykkjarker voru af gulli og öll önnur ker Libanusskógshúss voru af kláru gulli. Því að ei þótti silfur nokkurs vert á dögum Salomonis. Því að kóngsins skip sigldu yfir hafið með þénurum Híram og komu eitt sinn í þrimur árum og fluttu gull, silfur, fílsbein, apynjur og páfugla.

Svo var nú Salómon kóngur megtugri en allir aðrir kóngar á jörðunni af auðæfum og speki. [ Og allir kóngar á jörðu girntust að sjá Salómons andlit og að heyra hans speki hverja Guð hafði honum gefið í hans hjarta. Og sérhver þeirra færði honum skenkingar, silfurker og gullker, klæði, brynjur, jurtir, hesta og múla árlega.

Og Salómon hafði fjögur þúsund vagnhesta og tólf þúsund riddara og þá setti hann í vagnborgirnar og hjá kónginum í Jerúsalem. [ Og hann var einn herra yfir öllum kóngum, frá Vatninu og allt til Philisteilands og inn til egypskra landamerkja. Og svo var mikil gnótt á silfri í Jerúsalem sem á grjóti og svo mikill sedrusviður sem mórbertré á mörkum. Og honum fluttust hestar af Egyptalandi og af öllum löndum. [

En það sem meira er að segja um Salómon, bæði hans ið fyrsta og hið síðasta, sjá, það er skrifað í Natan spámanns kroníku og í Spádómi Ahía af Síló og í Sjónum Jeddí þess sjáanda mót Jeróbóam syni Nebat. Og Salómon ríkti í Jerúsalem yfir allan Ísrael í fjörutígi ár. [ Og Salómon sofnaði með sínum feðrum og þeir jörðuðu hann í borg Davíðs síns föðurs. Og Róbóam hans son tók kóngdóm eftir hann.