XVIII.

Og eftir það gekk Páll burt af Aþenu og kom til Corinthio og fann þar einn Gyðing, Aquilam að nafni, sá er nýlegana var kominn af Vallandi, og hans húsfrú Priscilla, af því að keisari Claudius hafði boðið öllum Gyðingum að fara af Róm. [ Til þess hins sama gekk hann inn. Og með því að þeir voru eins handverksmenn bleif hann hjá þeim og erfiðaði. En þeirra handverk var tjaldvefnaður. [ Og alla þvottdaga kenndi hann í samkunduhúsi og hafði fortölur fyrir Gyðingum og einnin líka fyrir Grikkjum.

En er Sílas og Tímóteus komu af Macedonia þrengdi andinn Páli til að vitna fyrir Gyðingum það Jesús væri Kristur. [ En sem þeir mæltu í móti því og töluðu háðungarorð hristi hann sín föt og sagði til þeirra: „Yðvart blóð sé yfir yðar höfði, hreinn geng eg eftir þetta til heiðinna þjóða.“ Og hann veik þaðan og gekk inn í hús nokkurs þess er Just var að nafni. Hann heiðraði Guð. Hans hús var og hið næsta samkundunni. En Krispus, hver eð var foringi samkundunnar, trúði á Drottin með öllu sínu hyski. [ Og margir Korintíumenn þeir eð tilheyrðu urðu trúaðir og létu skíra sig.

En Drottinn sagði fyrir sýn um nótt til Páls: [ „Óttast eigi heldur tala þú og þeg ekki því að eg em með þér og enginn skal þér til leggja að þig megi skaða því að margt fólk er mitt í þessari borg.“ En hann sat þar árið um kring og sex mánuði og kenndi þeim Guðs orð.

En er Gallio var landstjórnari í Achaia risu Gyðingar upp með einum huga í móti Páli og leiddu hann fyrir dómstólinn og sögðu: „Þessi ræður mönnum að dýrka Guð í móti lögmálinu.“ En þá Páll bjó sig til að lúka upp munninn sagði Gallio til Gyðinga: „Júðar mínir, ef það væri um nokkur rangindi eður vansemd þá heyrði eg yður gjarnan. En með því það eru spurningar af orðum og nöfnum yðars lögmáls megi þér sjálfir til sjá því að eg vil eigi þeirra dómari vera“ og rak þá frá dómstólnum. Þá gripu allir Grikkir Sostenem samkundunnar höfðingja og slógu hann fyrir dómstólinum. En Gallio gaf sér þar ekki að.

Páll dvaldist þar sjálfur í marga daga. Síðan kvaddi hann bræðurnar og sigldi í Syriam og Priscilla og Aquila meður honum. [ Og hann rakaði höfuð sitt í Cencrea því að hann hafði heit á hendi. Hann kom þá ofan til Epheso og þar skildi hann þau eftir en hann gekk sjálfur inn í samkunduna og þreytti spurningar við Gyðinga. En þeir báðu hann að hann blifi þar enn lengra tíma hjá sér. En hann sinnti því eigi heldur kvaddi hann þá og sagði: „Mér byrjar með öllu á þeirri hátíð sem tilstendur að vera til Jerúsalem. Heldur skal eg að Guðs vilja koma til yðar aftur.“ Og er hann leysti frá Epheso kom hann til Cesarea, gekk upp og heilsaði safnðainum og fór ofan til Antiochia og dvaldist þar nokkra stund, fór burt síðan og gekk hvað eftir öðru um Galiciuríki og Phrygiam, styrkjandi alla lærisveina. [

En þar kom til Epheso Gyðingur nokkur, Apollo að nafni, fæddur í Alexandria, mælskumaður og máttugur í Ritningunum. [ Þessi var formenntur í vegi Drottins og talaði með glóandi anda og tók að kenna allkappsamlega það hvað Drottins er, vitandi einasta af skírn Johannis. Þessi tók trúlega að prédika í samkundunni. En er Aquila og Priscilla heyrðu honum tóku þau hann að sér og lögðu enn innilegar út fyrir honum veg Drottins. Og þá hann vildi reisa í Achaiam skrifuðu bræðurnir og réðu lærisveinunum að þeir meðtaki hann. Og sem hann var þar kominn bætti hann um fyrir mörgum þeim er trúaðir voru orðnir fyrir náðina. Því hann yfirvann Gyðinga allsköruglega, sýnandi þeim opinberlega fyrir Ritningarnar það Jesús væri Kristur.