XI.

Þar var einn maður af nafni Jefta af kyni Gíleað, mikill hermaður og var laungetinn, og Gíleað hafði getið þennan Jefta. [ En hans kvinna átti við honum börn og þau uxu upp og komu til þroska. Þá vísuðu þau Jefta frá sér og sögðu til hans: „Eigi máttu taka arf í vors föðurs húsi því þú ert af annarlegri konu fæddur.“ Þá flýði hann frá sínum bræðrum og bjó í því landi Tób. Drifu þá til hans umhleypingsmenn og drógu út með honum.

Og eftir stundir liðnar herjuðu Amónsynir á Ísrael. En sem þeir veittu ágang Ísrael þá fóru öldungar Gíleað og sóttu Jefta í hans land Tób og sögðu: „Kom til vor og vert vor höfðingi svo að vér getum haldið bardaga við Amónssonu.“ En Jefta svaraði öldungunum af Gíleað: „Eru þér ekki þeir inu sömu sem mig hafa hatað og útrekið mig af míns föðurs húsi og þó komi þér nú til mín því þér eruð nú í neyð staddir.“ Öldungarnir af Gíleað svöruðu Jefta: „Því komum vér nú til þín aftur að þú farir með oss og veitir oss styrk að berjast í móti Ammónssonum og að þú sért vor höfðingi yfir öllum þeim sem búa í Gíleað.“

Jefta svaraði þeim: „Ef að þér sækið mig nú aftur að eg skuli berjast við Amónssonu og ef Drottinn gefur þá undir mitt vald skal eg þá verða yðar höfðingi?“ Öldungarnir af Gíleað sögðu til Jefta: „Drottinn heyri vor viðurmæli ef vér gjörum ekki það sem þú hefur sagt.“ Svo gekk Jefta með þeim öldungum af Gíleað og fólkið setti hann til höfuðs og höfðingja yfir sig. Og Jefta talaði allt þetta fyrir Drottni í Mispa.

Þá sendi Jefta boð til kóngs Ammónssona og lét segja honum: „Hvað hefur þú með mig að þú kemur til mín og herjar á mitt land?“ [ Amónkóngur svaraði hans sendimönnum: „Sökum þess að Ísrael hefur tekið undir sig mitt land þá þeir fóru af Egyptalandi frá Arnon og allt til Jabok og inn til Jórdan. So gef mér það land aftur nú með friði.“

Og í annað sinn sendi Jefta enn meira boðskap til Ammónssona kóngs og sagði til hans: „Svo segir Jefta: Ísrael hefur ekkert land tekið, hverki frá þeim Moabiter og eigi frá þeim Ammónssonum. Því að þá þeir fóru af Egyptalandi þá dró Ísrael í gegnum eyðimörk til þess rauða hafs og kom til Kades og sendi boð til kóngsins þeirra Edomiter og sagði: Leyf mér að fara í gegnum þitt land. [ En Edómítakóngur vildi ekki heyra þá. Þeir sendu og so til kóngsins af Móab, hann vildi og ekki heldur. So var Ísrael í Kades og gekk um eyðimerkur og ferðaðist í kringum Edóms og Móabsland og komu austan að Moabiteslandi og setti sín landtjöld hinumegin Arnon og kom ekki í Moabiters landaeign því Arnon er Moabiters landamerki.

Og Ísrael sendi boð til Síhon, Amoritis kóngs í Hesbon, og lét segja honum svo: Leyf oss að draga í gegnum þitt land allt til míns heimkynnis. [ En Síhon vildi ekki trúa Ísrael til að ferðast í gegnum sitt land heldur safnaði hann að sér öllu sínu fólki og lagði sig í Jaksa og barðist við Ísrael. Þá gaf Drottinn Israelis Guð Síhon og allt hans fólk í Ísraels hendur svo að þeir slógu hann. Svo vann Ísrael undir sig allt land þeirra Amoritarum þeir sem í því landi bjuggu og þeir eignuðust öll landamerki Amoritarum frá Arnon inn til Jabok og frá eyðimörkunni og allt til Jórdan.

Svo hefur Drottinn Israelis Guð útdrifið og eyðilagt Amoritas fyrir sínu fólki Ísrael og þó vilt þú eignast það og inntaka? [ Þú skyldir heldur leggja þá undir þig sem fordjörfuðu þinn guð Kamos en láta oss eignast þá alla sem Drottinn vor Guð hefur útdrifið fyrir oss. [ Eða meinar þú að þú hafir betra rétt en Balak son Sipór Moabites kóngur? Hefur hann nokkurn tíma átalið eða færst stríð á móti Ísrael? Hefur þó Ísrael nú búið þrjú hundruð ár í borg Hesbon og hennar undirborgum í Aróer og hennar þorpum og í þeim öllum borgum sem liggja hjá Arnon? Hvar fyrir friðuðu þér ekki það á þeim sama tíma? Eg hefi ekki misgjört við þig en þú gjörir svo illa við mig að þú stríðir á mig. Drottinn dæmi í dag á millum Ísrael og Ammónssona.“ En Ammónssona kóngur vildi ekki hlýða þessum boðskap sem Jefta sendi honum.

Þá kom andi Drottins yfir Jefta og hann ferðaðist í gegnum Gíleað og Manasse og í gegnum Mispa sem liggur í Gíleað gegnt Amónsonum. [ Og Jefta hét Drottni einu heiti og sagði: „Ef þú gefur Amónsonu í mínar hendur, hvað sem fyrst kemur í móti mér út af mínu húsi þá eg kem heim aftur með friði frá Ammónssonum, það skal heyra Drottni til og það vil eg offra til brennifórnar.“

Síðan fór Jefta móti Amónsonum og hélt bardaga við þá. En Drottinn gaf þá í hans hendur svo að hann sló þá frá Aróer og allt til Minnít, tuttugu borgir, og allt til þess sléttlendis sem kallaðist Vínviðarvöllur og var þetta hinn mesti bardagi. So lægðist ofstopi Ammónssona fyrir Israelissonum.

En sem Jefta kom nú heim í sitt hús Mispa, sjá, þá rann hans dóttir út í móti honum með strengleik og dansi og hún var hans einbirni svo hann átti ekkert annað barn, hverki son né dóttur. Og sem hann sá hana þá reif hann í sundur sín klæði og sagði: „Ó hó, mín dóttir, því [ beygðir þú mig og hrellir mig? Því eg upplét minn munn fyrir Drottni og eg get það ekki tekið aftur.“ Hún svaraði: „Minn faðir, hafir þú upplátið þinn munn fyrir Drottni þá gjör við mig so sem það er framgengið af þínum munni fyrst að Drottinn hefur hefnt þín á þínum óvinum Amónssonum.“

En hún sagði til síns föðurs: „Gjör mér þó það til vilja að þú gefir mér tveggja mánaða frest að eg megi ganga hér frá upp á fjallið að gráta minn meydóm með mínum fóstursystrum.“ [ Og hann sagði: „Far sem þig lystir.“ Og hann gaf henni tveggja mánaða frest. Síðan gekk hún í burt með sínum fóstursystrum og grét sinn meydóm á fjallinu. Og tveim mánuðum þar eftir kom hún til síns föðurs aftur og hann gjörði henni sem hann hafði heitið. Hún hafði enn aldrei kennt nokkurn mann. Og það varð einn siðvani í Ísrael að Ísraelsdætur gengu árlega árs í burt að gráta dóttir Jefta af Gíleað í fjóra daga á hvörju ári.