XXIII.

Löngum tíma eftir þetta þá Drottinn hafði veitt Ísrael náðir fyrir öllum sínum óvinum allt í kring og Jósúa var nú orðinn gamall og hniginn á efra aldur þá kallaði hann til samans allan Ísrael og þeirra elstu öldunga, dómendur og embættismenn og sagði til þeirra: „Eg er nú gamall og mjög á efra aldur kominn og þér hafið séð allt hvað Drottinn yðar Guð hefur gjört við þetta fólk hér fyrir yður. [ Því að Drottinn yðar Guð hefur sjálfur strítt fyrir yður. Sjáið, eg hefi skipt með yður því fólki sem eftir er til erfðar, sérhverri kynkvísl sinn arf, frá Jórdan og öllum þjóðum sem eg hefi útrýmt og vestur allt til þess stóra hafs. Og Drottinn vor Guð skal útdrífa þá fyrir yður og útrýma þeim frá yður so þér skuluð eignast þeirra land so sem Drottinn yðar Guð hefur lofað yður.

So verið nú hughraustir so að þér haldið og gjörið allt það sem skrifað stendur í Móses lögmálsbók so þér víkið þar ei frá, hverki til hægri né til vinstri handar, upp á það að þér komið ekki á meðal þessa fólks sem nú er enn eftir hjá yður og að þér ekki hugsið eða sverjið við þeirra afguða nafn, eigi heldur þjónið þeim né biðjið til þeirra heldur haldið yður við Drottin yðar Guð so sem þér hafið gjört til þessa dags. [ Svo mun Drottinn útdrífa stórt og megtugt fólk fyrir yður og enginn hefur staðið í mót yður inn til þessa dags. Einn af yður skal elta þúsund því Drottinn yðar Guð stríðir fyrir yður so sem hann hefur sagt. Þar fyrir geymið með gætni yðar sálir að þér elskið Drottin yðar Guð.

En ef að þér snúið yður og haldið yður að því fólki sem nú eftir er og gjörið tengdir við það so að þér samblandist við það og það við yður þá vitið að Drottinn yðar Guð mun ekki meir útrýma allt þetta fólk fyrir yður heldur skal það verða yður að snöru og að neti og að svipu á yðar síður og að þyrnum í yðar augu þar til það eyðileggur yður af því góða landi sem Drottinn yðar Guð hefur gefið yður. [

Sjáið, eg geng götu allrar veraldar. Og þér skuluð vita af öllu hjarta og af öllu sinni að þar hefur ekki eitt orð brugðist af öllu því sem Drottinn yðar Guð hefur lofað yður. [ Það er allt saman fram komið og ekki neitt ávantað. Og líka sem þér hafið fengið allt það góða sem Drottinn yðar Guð hefur lofað yður so mun Drottinn láta allt vont koma yfir yður þar til hann afmáir yður af þessu góða landi sem Drottinn yðar gaf yður ef þér yfirtroðið Drottins yðars Guðs sáttmála þann hann bauð yður og takið fyrir yður að þjóna annarlegum guðum og biðja til þeirra. Þá skulu þér vita að Guðs reiði verður grimm yfir yður og fyrirkemur yður snarlega af því góða landi sem hann hefur gefið yður.“