XV.

En hlutur þeirra Júdasona og þeirra ættkvísla voru Edóm landsálfur til þeirrar eyðimerkur Sín í suður og til endans á því syðra landi svo að þeirra landamerki í suður voru frá enda þess salta hafs, það er frá þeirri tungu sem gengur í suðurátt og gengur út þar frá upp í móti Akrabbím og gengur í gegnum Sín og rennur sunnan að upp aftur mót Kades Barnea og fellur í gegnum Hesron og gengur upp að Adar og beygir sig í kring Karka og so í gegnum Asmón og kemur so í þann læk í Egyptalandi og so að sjónum. [ Það eru yðar landarmerki í suður.

En yðar landamerki í austur er frá því salta hafi og til Jórdanar enda.

En landamerki í norður er frá hafsins tungu sem liggur við Jórdan og gengur upp til Bet Hogla og víkur sér frá norðri til Bet Araba og kemur síðan út til Rúbensona steinboga og gengur upp frá Akórdal til Debír og frá þeirri nyrðri síðu mót Gilgal sem liggur þar þvert yfir til Adúmmím norðanvert við vatnið. Síðan gengur það til vats sem heitir En-Semes og kemur út að þeim brunni Rógel. Svo gengur það upp til Hinnomsonadal hjá þeim Jebusiter sem búa í suður, það er Jerúsalem, og tekur þaðan upp á tindana fjallsins sem liggur þvert frá Hinnomdal og tekur inn til Raphamisdal í mót norðri. Og so gengur það frá sömum fjallstindum til Neftóavatskeldu og kemur út til þess staðar fjallsins Efron og beygir sig til Baala, það er Kirjat Jearím, og gengur um kring frá Baala mót vestri allt til fjallsins Seír og gengur út með Jearímfjallssíðu norðan til, það er Kesalon, og kemur þar frá ofan til Bet Semes og gengur í gegnum Timna og hleypur framhjá Hebronsíðu mót norðri og strekkir sig til Síkrón og gengur yfir Baalafjall og kemur út til Jabneel so að sjórinn er hennar endi.

En það stóra haf er landamerki vestur frá. Þessi eru Júdasonar landamerki rétt um kring í þeirra kynkvíslum.

Kaleb sonar Jefúnne partur var honum gefinn á meðal Júdasona sem Drottinn bauð Jósúa, sem var Kirjat Arba föðurs Enak, það er Hebron. [ Og Kaleb útdreif þá þrjá syni Anak þaðan sem var Sesaí, Ahímam og Talmaí, fæddir af Anak, og dró þar frá upp til þeirra sem bjuggu í Debír. [ En Debír hét í forðum tíð Kirjat Sefer. Og Kaleb sagði: „Hver sem kann að slá og vinna Kirjat Sefer, þeim vil eg gifta mína dóttir Aksa.“ [ Svo vann Otníel son Kenas, sem var bróðurson Kaleb, þann stað. [ Og síðan gaf hann honum sína dóttir Aksa til eiginkvinnu.

En sem hún dró þar inn var henni ráðlagt að hún skyldi beiðast eins akurlendis af sínum föður og hún féll af asnanum. Þá sagði Kaleb til hennar: „Hvað skaðar þig?“ Hún sagði: „Gef mér eina blessan því þú gafst mér eitt land í suðurátt. Gef mér og nokkra uppsprettubrunna.“ Þá gaf hann henni uppsprettur bæði hið efra og neðra. Þetta er arfleifð Júdasona ættar á millum þeirra kynkvísla.

Og þessar voru borgir sona Júda ættar, frá þeim einum enda og til annars móts við Edomiters landamerki í suðurátt: Kapseel, Eder, Jagúr, Kína, Dímóna, Adada, Kedes, Hasór, Ítnan, Síf, Telem, Bealót, Hasar Hadata, Kiríjót Hesrom, það er Hasór, Amam, Sema, Mólada, Hasar Gadda, Hesmon, Bet Palet, Hasar Súal, Beer Seba, Bí Síót Ja, Baela, Jím, Asem, Eldólað, Kesíl, Harma, Siklag, Madmanna, San Sanna, Lebaót, Silhím, Ain, Rimon. Þetta eru níu og tuttugu borgir með þeirra þorpum.

En í dallendinu var Estaól, Sarea, Asna, Sanóa, En Ganím, Tapúa, Enam, Jarmút, Adúllam, Sókó, Aseka, Saeraím, Adítaím, Gedera, Gíderótaím. Þessir eru þeir fjórtán staðir og þeirra þorp.

Senam, Hadasa, Mígdal Gað, Dílean, Mispe, Jaktíel, Lakís, Basekat, Eglon, Kabón, Lakman, Kitlís, Gederót, Bet Dagón, Naema, Makeda. Þetta eru sextán borgir og þeirra þorp.

Líbna, Eter, Asan, Jefta, Asna, Nesíb, Kegíla, Aksíb, Maresa. Þetta eru níu borgir og þeirra þorp. Ekron með hennar dætrum og þorpum. Frá Ekron og til hafsins allt til Asdód með hennar dætrum og þorpum. Asdód með hennar dætrum og þorpum. Gasa með hennar dætrum og þorpum, allt til lækjarins í Egyptalandi. Og það mikla haf er hans landamerki.

En á fjallbyggðum var Samír, Jatír, Sókó, Danna, Kirjat Sanna, það er Debír, Anab, Estemó, Aním, Gósen, Hólon, Síló. Þetta eru ellefu borgir með þeirra þorpum.

Arab, Dúma, Esean, Janúm, Betapúa, Afeka, Húmta, Kirjat Arba, það er Hebron, Síor. Þetta eru níu borgir og þeirra þorp. Maon, Karmel, Síf, Júta, Jesreel, Jakdeam, Sanóa, Kaín, Gíbea, Timna. Þetta eru tíu borgir og þeirra þorp. Halhúl, Bet Súr, Gedúr, Maarat, Bet Amót, Eltekón. Þetta eru sex borgir og þeirra þorp. Kirjat Baal, það er Kirjat Jearím, Harabba, tvær borgir og þeirra þorp.

En í eyðimörku voru Bet Araba, Middín, Skekaka, Nibsan og sá saltstaðurinn, Engeddí. Þetta eru sex borgir og þeirra þorp.

En þeir Jebusiter bjuggu í Jerúsalem og Júdasynir gátu ekki útdrifið þá. Svo bjuggu þeir Jebusiter í Jerúsalem með Júdasonum allt til þessa dags. [