IIII.

Sjá þú, mín kærasta, þú ert fögur, sjá, fögur ertu. Þín augu eru sem dúfuaugu á millum þinna hárlokka. Þitt hár er líka sem geitahjörð sú sem klippt er á fjalli Gíleað. Þínar tennur eru sem nýklippt hjörð komandi frá lauginni, verandi allar saman tvílembdar og þa er engin ófrjó á meðal þeirra. Þínar varir eru sem dreyrrauður dregill og þitt mál er lystilegt. Þínar kinnur eru sem rispur á granataepli í millum þinna hárlokka. Þinn háls er sem Davíðsturn, búinn með vígskorðum, á hverjum eð hanga þúsund skildir og alls kyns sterk vopn. Þín tvö brjóst eru þvílíkast sem tvö ung hindarkið sem fæðast undir rosu allt þar til að dagurinn kólnar og skugginn burt líður. Eg vil fara til mirrufjallsins og til reykelsishæðanna.

Mín unnusta, þú ert fögur í allan máta svo þar er enginn flekkur á þér. Kom, mín brúður, af Líbanon, kom af Líbanon. Gakk hér inn, stíg hingað af Amanahæðum, af hæðunum Senír og Hermon, frá leónabælinu og frá leparðafjöllunum. Þú hefur sært mitt hjarta, mín systir, elskuleg brúður, með öðru þínu auga og með einni þinni hálskeðju.

Hversu fögur eru þín brjóst, mín systir, kærasta brúður? Þín brjóst eru fegri en vín og þinn smyrslailmur yfirgengur allar jurtir. Þínar varir, mín brúður, eru sem drjúpandi hunangsseimur, hunang og mjólk eru undir þinni tungu og ilmur af klæðum þínum er svo sem ilmur Líbanon.

Ó mín systir, kæra brúður, þú ert einn læstur aldingarður, ein tillukt uppspretta, einn innsiglaður brunnur. Þinn ávöxtur er líka sem lystugur aldingarður fullur af granataeplum, með göfugum ávöxtum, cyperi og nardi; nardus og saffram, kalmus og cynnamomum og allra handa reykelsistré, mirra og aloe með öllum bestum jurtrum, sem einn aldingarðsbrunnur, sem einn brunnur lifanda vats sá er flýtur af Líbanon.

Rís upp, norðanvindur, og kom, sunnanvindur, og blástu í gegnum minn aldingarð svo að af hans jurtum megi drjúpa.