Greinir af bókinni Ester

En so er það bréf hljóðandi: „Hinn mikli kóngur Artaxerxes frá Indialandi allt til Blálands sendir þeim hundrað sjö og tuttugu höfðingjum og þeirra undirmönnum sína kveðju. [

En þó að eg sé megtugur konungur og sá stæsti herra á jörðunni þá hefi eg þó ekki viljað upphroka mér af minni magt heldur hefi eg kostgæft að ríkja náðarsamlega og spektarlega og að halda ætíð þann góða frið af hverjum hver maður gleðst so að hver maður megi lifa rólega og gæta síns verknaðar. Þar um hélt eg ráð við mína höfðingja hvernin slíkt mætti verða. Þá stýrði Aman mér, minn sá hyggnasti, elskulegasti og trúasti ráðgjafi, sem næst kónginum er hæðstur, að þar væri eitt fólk útdreift um öll lönd sem hefur sérdeilis lögmál þvert í móti siðvenjum allra landa og þjóða og fyrirliti jafnan kóngsins boð hvar með þeir forhindra frið og samþykki í landinu. [

Þá vér nú merktum það að eitt einstaka fólk setti sig í móti öllum heiminum og héldi eiginlegar siðvenjur og fyrirliti vorn boðskap hvar með þeir gjöra stóran skaða og sturla frið og samheldi í voru ríki því bjóðum vér að hverja sem Aman, sá yppasti höfðingi og æðstur er næst kónginum, vor faðir, tilnefnir, þeir skulu með kvinnum og börnum í hel slegnir verða af sinna óvina sverði án allrar miskunnar og vægðar. Og þetta skal ske þann tólfta dag í mánuðinum adar á þessu ári so að þeir óhlýðnu verði í hel slegnir allir á einum degi og að þar kunni að verða staðfastur friður í voru ríki.“ [

Og Mardocheus bað til Drottins og upptaldi hans dásemdarverk, segjandi: „Drottinn Guð, þú ert sá almáttugi konungur, allir hlutir eru í þínu valdi og enginn kann að standa í móti þínum vilja þegar þú vilt hjálpa Ísrael. Þú hefur skapað himin og jörð og allt það sem þar er inni. Þú ert Drottinn allra og enginn kann þér í móti að standa. Þú veist alla hluti og hefur það séð að það hefur ekki verið af neinni drambsemi né metnaði þó eg vildi ei tilbiðja hinn stolta Aman. Því að eg var reiðubúinn Ísrael til góða vel viljuglega að kyssa á hans fætur. Heldur hef eg gjört það af ótta so að eg ekki gefi þá æru nokkrum manni sem mínum Guði tilheyrir og að eg tilbiðji öngvan annan en minn Guð.

Og nú Drottinn, þú kóngur og Guð Abrahams, miskunna þú þínu fólki það vorir óvinir vilja afmá oss og þinn arf uppræta þann þú hefur haft frá upphafi. Fyrirlít þú ekki þinn litla hóp sem þú frelstir af Egyptalandi. Heyr mína bæn og vert líknsamur þínu fólki og snú þú vorri hryggð í gleði so að vér lifum og prísum þitt nafn. Afmá þú ekki munna þeirra sem þig lofa.“ Og allur Ísraelslýður kallaði til Drottins af öllu megni því að þeir voru í dauðans neyð.

Og drottningin Ester sneri sér til Drottins í þessari dauðans hættu og hver lagði af sér sín konungleg klæði og íklæddist hryggðarklæðum og í staðinn dýrmæts vats og balsam þá dreifði hún ösku og dufti yfir sitt höfuð og þjáði sitt hold með föstu. Og alls staðar þar hún hafði áður haft glaðværð þá reytti hún sitt hár af sér og ákallaði Ísraels Guð, segjandi:

„Drottinn, þú sem ert alleina vor kóngur, hjálpa þú mér aumri. [ Eg hefi öngvan annan hjálparmann utan þit og neyðin er nálæg. Eg hefi heyrt af mínum föður, Drottinn, að þú hafir skilið Ísrael frá öllum heiðingjum og hafir tekið þér vora feður frá upphafi til eilífrar eignar og þú hefur haldið við þá hvað sem þú hefur talað. Vér höfum syndgast fyrir þér. Þar fyrir hefur þú yfirgefið oss í vorra óvina hendur. Drottinn, þú ert réttlátur því að vér höfum heiðrað þeirra skúrgoð.

En nú láta þeir sér ekki þar með nægja að þeir halda oss í so stórri þjáningu heldur eigna þeir magtinni sinna skúrgoða þeirra sigur og vilja gjöra þitt fyrirheit að öngu og uppræta þinn arf og afturbyrgja munninn á þeim sem þig lofa og afmá vegsemd þíns musteris og altaris. Og þeir vilja upplúka heiðingjanna munni til að vegsama magt skúrgoðanna og að veita einum dauðlegum kóngi eilífa hrósan. Drottinn, gef þeim ei þinn ríkissprota sem ekkert eru so að þeir hæði ekki að vorri hryggð heldur lát þeirra uppsátur koma yfir þá og merk þann sem þetta uppbyrjar í móti oss.

Minnstu á oss, Drottinn, og auðsýn þig í vorri neyð og styrk mig, Drottinn, þú kóngur allra guða og herra. Kenn þú mér hvernin eg skal tala fyrir leóninu og snú þú hans hjarta so að hann verði gramur vorum óvin so að hann fyrirfarist sjálfur með öllum þeim sem honum tilheyra. Og frelsa oss fyrri þína hönd og hjálp mér, þinni ambátt, sem öngva aðra hjálp hefur utan þig, Drottinn, alleina, þú sem alla hluti veist og skilur að eg hefi öngva gleði af þeirri vegsemd sem eg hefi í hjá þeim óguðlegu og að eg hef öngva lysting á þeim heiðna og framanda hjúskap. Þú veist að eg hlýt að gjöra það og egi akta eg þá vegsamlegu fegurðarprýði sem eg ber á mínu höfði þegar eg verð að skarta heldur held eg það so sem eitt saurugt klæði og ber það ekki utan þegar eg skal skarta. Eg hefi og enn nú aldrei samneytt Aman og eigi heldur haft glaðværð við það konunglega borð og ekki drukkið af fórnarvíni. Og þín ambátt hefur aldrei glaðvær verið síðan eg var hingað leidd allt til þessa tíma utan alleina í þér, Drottinn, þú Guð Abrahams. Bænheyrð rödd þeirra forlátnu, þú styrkur Guð yfir öllum hlutum, og frelsa oss frá hendi þeirra óguðlegu og hjálp mér af minni neyð.“

Og á hinum þriðja degi lagði hún af sér sinn daglega klæðabúnað og skrýddist sínum konunglegum skrúða og var mjög fríð og hún ákallaði Guð þann frelsara sem alla hluti sér. [ Og hún tók með sér tvær jungfrúr og studdi sig so hægt við þá eina en hin önnur gekk á eftir og hélt upp faldi hennar klæða. Hennar andlitsfegurð var mjög væn, blíðleg og gleðileg að sjá en hennar hjarta var fullt af angist og harmi.

Og þá hún kom inn yfir allar dyrnar þá gekk hún og stóð gagnvart kónginum þar hann sat í sínu konunglega hásæti í sínum konunglegum skrúða sem var af gulli og gimsteinum og var ógnarlegur á að líta. Þá hann nú upplyfti sínum augum og leit reiðuglega til hennar þá leið yfir drottningina og hún féll í öngvit og lagði höfuðið upp á jungfrúna.

Þá sneri Guð konungsins hjarta til góða og hann varð hryggur hennar vegna og stökk úr sínu sæti og tók hana sér í faðm þar til hún raknaði við aftur og talaði blíðlega til hennar: „Hvað er þér, Ester? Eg em þinn bróðir, óttast ekki. Þú skalt ekki deyja. Því að þetta forboð áhrærir alla aðra en þig ekki. Kom hingað.“ Og hann upplyfti þeim gulllega sprota og lagði hann upp á hennar axlir, minntist við hana og sagði: „Segðu fram.“

Og hún andsvaraði: „Þá eg leit þig þá þótti mér sem sæi eg engil Guðs. Þar fyrir skelfdust eg fyrir þínu mikla veldi því að þú ert mjög hræðilegur og þitt yfirlit mjög dýrðarlegt.“ Og þegar hún hafði svo talað kom yfir hana ómegin í annað sinn og féll niður. Þá varð kóngurinn skelfdur og hans þénarar og hugguðu hana.

Á því fjórða ári Ptolomei kóngs og Cleupatre höfðu þeir Dositeus (hver eð hélt sig vera kennimann af Leví ætt) og hans sonur Ptolomeus þetta púrímsbréf og sögðu að Lysimachus þess sama Ptolomei sonur hefði útlagt það í Jerúsalem. [

„Artaxerxes hinn mikli konungur frá Indialandi allt til Blálands sendir hundrað sjö og tuttugu höfðingjum og þeirra undirmönnum sína kveðju.

Vér formerktum að þeir eru margir sem misbreyta höfðingjanna náð og verða metnaðarsamir og vondir af þeim heiðri sem þeim veitist so að þeir eigi aðeins yfirfalla þá undirgefnu heldur hugsa þeir að troða herrann sjálfan undir fætur þeim af hverjum þeir eru upphafðir og gjöra ei aðeins í móti náttúrlegum réttindum með því óþakklæti heldur eru þeir so blindaðir af drambseminni að þeir hugsa einnin að Guð (hver eð álítur þá góðu) straffi ekki slíka ótrú. Þeir svíkja og einnin góða höfðingja og koma þeim til að úthella saklausu blóði og þeir sem þjóna þeim trúlega og ærlega þá færa þeir í alls kyns ólukku. Þvílík dæmi finna menn ekki alleina í gömlum sögum heldur reyna menn það daglega hvað mikillri ógæfu slíkir ráðgjafar af stað koma.

Af því að oss ber að sjá so til að þar megi framvegis haldast friður í ríkinu þá neyðunst vér stundum eftir málavöxtum að umbreyta vorum skipunum þá vér formerkjum að það er öðruvís en sem oss er undirvísað og rasa ei fyrir ráð fram ofmjög. [

Nú af því að Aman Hamadathison af Macedonia en ekki af Persablóði og eigi vorrar gæsku tegundar heldur einn gestur hjá oss, hverjum vér (so sem vér plögum að gjöra öllum þjóðum) sýndum alla náð og upphófum hann so að vér nefndum hann vorn föður svo að hann varð af hverjum manni heiðraður næst kónginum, þá varð hann so drambsamur að hann hugði sér að skilja oss bæði við vort kóngaríki og líf. [ Því að hann hefur Mardocheum (sem fyrir sína trú og velgjörð frelsaði vort líf) og vora saklausa húsfrú, drottning Ester, ásamt með öllu hennar fólki falsklega og hrekkvíslega rægt so að þeir yrði allir lífi sviptir. Og þegar þeir hefði nú allir í burt verið sem oss varðveita þá ætlaði hann sér að lífláta oss einnin og koma Persaríki undir þá Macedonios.

En vér formerktum að Gyðingar, hverja sá útflæmdi skálkur vildi drepa láta, eru saklausir, hafa gott lögmál og eru synir hins hæsta, stæsta og eilífa Guðs, hver eð vorum forfeðrum og oss hefur gefið þetta ríki og enn því við magt heldur. Þar fyrir skulu þér ekki halda yður eftir þeim bréfum sem Aman lét útganga því að fyrir slíks gjörnings sakir er hann með öllum sínum ættmönnum á gálga hengdur fyrir Súsansporti og so hefur Guð endurgoldið honum so sem hann hefur forþénað.

En þessa skipun sem nú sendum vér til yðar skulu þér láta kunngjöra í öllum borgum að Gyðingar megi með frelsi halda sínu lögmáli. Og ef nokkur vill veita þeim ofríki á þeim þrettánda degi hins tólfta mánaðar sem kallast adar þá skulu þér vernda þá svo að þeir megi hefnast á hinum því að þann sama dag hefur Guð almáttugur gjört þeim að fögnuði á hverjum það útvalda fólk átti líflátið að verða. [

Þar fyrir skulu þér og so halda þennan dag helgan með öðrum hátíðum með öllum fögnuði so að oss vel gangi og öllum þeim sem hollir eru Persum. Og það skal vera eftirdæmi hversu að ótrúleiki verður straffaður. En hvert það land eður borg sem ekki heldur þetta boð það skal með sverði og eldi afmáð verða so að þaðan í frá skulu þar hverki menn né dýr né fuglar inni búa.“

Á öðru ári hins mikla kóngs Artaxerxes, á hinum fyrsta degi mánaðarins nísan, hafði Mardocheus einn draum, sem var einn Gyðingur, sonur Jaírí, sonar Semei, sonar Kís, af ætt Benjamín og bjó í borginni Súsan, einn heiðarlegur maður og vel haldinn í kóngsins garði. [ En hann var einn af þeim herteknu sem Nabogodonosor Babýlonskóngur hafði flutt frá Jerúsalem með Jekonja kóngi Júda. Og þetta var hans draumur:

Þar gjörðist mikið háreysti og hark, reiðarþrumur og jarðskjálfti og ein ógnarhræðsla á jörðunni. [ Og sjá þú, þar voru tveir drekar. Þeir réðust til bardaga hver í móti öðrum. Og það háreysti var so mikið að öll lönd tóku sig upp að berjast í móti einu heilögu fólki. Og það var einn dagur mikils myrkurs, harmkvælis og angistar og mikil hörmung og hræðsla var á jörðunni. Og það heilaga fólk var í mikillri hryggð og hræddist sína ógæfu og óttaðist fyrir sínum dauða og það ákallaði Guð. Og eftir slíkt kall spratt upp einn mikill vatsstraumur úr einum litlum brunni og sólin gekk upp og skein fagurt og þeir vesölu fengu sigur og drápu þá inu drambsömu.

Nú þegar Mardocheus vaknaði eftir sinn draum þá hugsaði hann hvað Guð mundi meina hér með. Og hann varðveitti drauminn í hjarta sínu og hugsaði eftir honum allt til nætur og vildi gjarnan hafa fengið að vita hans útþýðing. Og Mardocheus sagði: „Guð hefur tilskikkað það allt saman. Eg hugsa um minn draum og það hefur so tilgengið sem mig dreymdi.

Sá litli brunnur sem varð eitt mikið vatsfall þá sólin skein og var klár, það er Ester hverja kóngurinn tók sér til eiginkvinnu og gjörði hana að drottningu. [ Þeir tveir drekar, það em eg og Aman. Annar þeirra merkir heiðingja sem til samans komu og vildi afmá Gyðinga nafn. Annað merkir mitt fólk Ísrael hvert eð til Drottins kallaði og Drottinn hjálpaði sínu fólki og frelsaði oss frá þessari ógæfu. Hann gjörir mikil tákn og stórmerki á meðal heiðingja því að hann hefur ætíð gjört mismun á millum síns fólks og heiðingja. Og þegar sú stund kom þá heiðingjarnir voru sem stoltastir en vér sem veikastir og Guð skyldi dæma þá minntist hann á sitt fólk og gaf sínum arfi sigurvinningina.

Og þennan dag skulu menn halda í mánaðinum adar, þann fjórtánda og fimmtánda dag þess mánaðar, með allri gleði og með allri gætni, þegar fólkið kemur til samans. [ Og það skal so haldast ævinlega á meðal Ísraelsfólks.“

Hér endast þær greinir af Ester.