V.

So heyrið nú, þér prestarnir, og þú Ísraels hús, gef gætur að, og þú konungsins hús, lát þetta falla þér til eyrna. Því þar skal koma ein hefnd yfir yður, þér sem eruð orðnir ein snara í Mispa og eitt útþanið net í Tabór. Þeir drekkja sér með sínu sláturstarfi og sínum hlaupum, þar fyrir hlýt eg að straffa þá alla saman. Eg þekki vel Efraím og Ísrael dylst ekki fyrir mér að Efraím er nú ein hóra og Ísrael er saurguð.

Þeir þenkja ei þar upp á að snúa sér til þeirra Guðs því þeir hafa einn hóruanda í sínum hjörtum og læra ekki út af Drottni.

Þar fyrir skal Ísrael drambsemi niðurþrykkjast fyrir hennar augsýn og bæði Ísrael og Efraím skulu falla sökum þeirra misgjörninga, Júda skal og falla með þeim. Þá skulu þeir koma með sauði og uxa og leita Drottins og finna hann ei því að hann hefur snúið sér frá þeim. Þeir forsmá Drottin og geta annarleg börn. Þar fyrir skulu og þeirra nýju mánuðir eta þá og þeirra arfdeild.

Já blásið í lúðra, þér í Gíbea, já látið gjalla herlúðrana í Raama, já kalli þér í Bet Aven, á bak þér, Benjamín. Því Efraím skal verða í eyði á þeim tíma þá eg straffa hann. Þar fyrir hefi eg trúlega viðvarað Ísraels ættkvíslir.