VI.

En á þeirri nótt gat kóngurinn ekki sofið og hann bauð að sækja skyldi kroníkur og annálabækur. Og þá hann lét lesa þær fyrir sér þá kom þar að sem skrifað var hvernin að Mardokeus hafði undirvísað um þá tvo kóngsins herbergjasveina, Bigtana og Teres, þeir eð gættu kóngsins dyra, hversu þeir höfðu borið ráð saman með sér að leggja sínar hendur á Assverum kóng. [ Og kóngurinn sagði: „Hverja æru eða hvað gott höfum vær gjört Mardokeo fyrir þetta?“ Sveinarnir kóngsins svöruðu: „Ekkert hefur hann þar fyri fengið.“ Og kóngurinn sagði: „Hver gengur þar úti í garðinum?“ (Því að Aman gekk í garðinum utan fyrir kóngsins herbergi því hann vildi segja kónginum að hann léti hengja Mardokeum á það tré sem hann hafði tilbúið honum.) Og kóngsins sveinar svöruðu: „Sjá, Aman er hér í garðinum.“ Kóngurinn svaraði: „Látið hann koma hingað.“

Nú sem Aman var inn kominn þá talaði kóngurinn til hans: [ „Hvað skal gjöra þeim manni hvern kóngurinn vill vegsama?“ Og Aman hugsaði með sér: „Hvern mun kóngurinn annan vilja vegsama heldur en mig?“ Og hann svaraði kónginum: „Sá maður sem kóngurinn vill heiðraðan hafa hann skal hér koma og íklæðast þeim kónglegum klæðnaði sem kóngurinn plagar að bera, svo og sé sóttur sá hestur sem kóngurinn sjálfur ríður á og skal setja kóngsins kórónu á hans höfuð. Og þetta sé afhent, bæði klæðnaðurinn og hesturinn, í hendur einum höfðingja af kóngsins höfðingjum. Sá sami skal klæða þann mann sem kóngurinn vill heiðraðan hafa og láta hann ríða um stræti borgarinnar og sé svo úthrópað fyrir honum: So skal gjöra þeim manni sem kóngurinn vill heiðraðan hafa!“

Kóngurinn sagði til Aman: „ Far strax og tak klæðin og hestinn sem þú hefur sagt og gjör þetta sem þú mæltir Mardokeo Gyðingi sem hér situr fyrir kóngsins portdyrum. Og lát ekki eitt bregðast af öllu þessu sem þú talað hefur.“ Þá tók Aman klæðin og hestinn og ífærði Mardokeum og lét hann ríða um stræti borgarinnar og kallaði hátt fyrir honum: „Þennan heiður skal sá maður fá hvern kóngurinn vill heiðra!“ Og Mardokeus kom aftur fyrir kóngsins port.

En Aman fór sem skjótast heim til síns húss, syrgjandi og með huldu höfði. Og hann greindi sinni kvinnu Seres og so öllum sínum vinum frá öllu þessu sem hann hafði hent. Þá svöruðu honum hans spekingar og hans kvinna og sögðu til hans: „Ef að Mardokeus er af Gyðingakyni fyrir hverjum þú ert tekinn að falla, þá munt þú eigi megna að standa honum í móti heldur munt þú falla fyrir honum.“ Og er þeir voru að tala þetta við hann þá komu kóngsins geldingar og neyddu Aman að hann skyldi koma til þess gestaboðs sem Ester hafði reiðubúið.