Saraí Abrams kvinna átti ekkert barn. En hún hafði eina egypska ambátt. Sú hét Hagar. Og Sara sagði til Abram: „Sjá þú, Drottinn hefur [ tillukt mig so eg má eigi börn eiga. Legg hjá þér ambátt mína so eg megi ef ske mætti [ uppbyggjast af henni.“ Abram hlýddi raust Saraí. So tók Saraí Abrams kvinna þá egypsku ambátt Agar og gaf hana sínum manni Abram til kvinnu þá þau höfðu búið tíu ár í Kanaanslandi.

Og hann gekk inn til Agar og hún varð ólétt. Og sem hún sá að hún var ólétt virti hún lítils sína húsfrú hjá sér. Þá sagði Saraí til Abram: „Þú gjörir mér órétt. Eg lagða mína ambátt hjá þér en nú hún sér að hún hefur getnað fengið fyrirlítur hún mig. Dæmi Guð í millum þín og mín.“ Þá sagði Abram til Saraí: „Sjá þú, þín ambátt er undir þínu valdi, gjör við hana slíkt þú vilt.“ [

Og sem Saraí vildi þjá hana þá flýði Agar í burt frá henni. En engill Drottins fann hana hjá einum brunni í eyðimörkinni sem að liggur hjá þeirri uppsprettu sem er á veginum til Súr. Hann sagði til hennar: „Agar, Saraí ambátt, hvaðan kemur þú? Og hvert viltu fara?“ Hún sagði: „Eg flýði frá minni húsfrú Saraí.“ Og engill Drottins sagði til hennar: „Far heim aftur til þinnar húsfrúr og auðmýk þú þig undir hennar hendi.“

Og engill Drottins sagði til hennar: „Eg vil margfalda þitt sæði so það skal enginn kunna að telja fyrir fjölda sakir.“ Og engill Drottins sagði framar meir til hennar: „Sjá, þú ert ólétt orðin og þú munt son fæða, hans nafn skalt þú kalla Ísmael. [ Því Drottinn hefur heyrt þinn mótgang. Hann mun vera einn grimmur maður og hans hönd skal vera í móti hverjum manni og hvers manns hönd í móti honum og hann mun búa gagnvart öllum sínum bræðrum.“

Og hún kallaði herrans nafn sem talaði við hana: „Þú Guð sem sást mig.“ Því hún sagði: „Sannarlega hefi eg séð hér þann sem mig sér hér eftir.“ Því kallaði hún þann brunn brunn þess lifanda og mig sjáanda, hver brunnur að liggur á millum Kades og Bareð.

Og Agar fæddi Abram einn son og Abram kallaði þann son sem Agar fæddi honum Ísmael. [ Og Abram hafði sex um áttrætt þá Agar fæddi honum Ísmael.