VII.

Þeir fóru þá og komu til Ragúel og hann tók við þeim harla blíðlega. Hann starði á Tóbías og mælti til húsfrú sinnar Önnu: [ „Hvað líkur að sá ungi sveinn er vorum frænda að yfirlitum!“ Og sem hann sagði þetta þá mælti hann: „Hvaðan eruð þið, kærir bræður?“ Þeir svöruðu og sögðu: „Af kyni Neftalím eru við og af tölu herleiddra í borg Níníve.“ Ragúel segir þá til þeirra: „Þekki þið bróður minn Tóbías?“ Þeir sögðu: „Já, við þekkjum hann vel.“ Og sem hann talaði nú margt gott af Tóbías sagði engillinn til Ragúel: „Tóbías sá er þú spurðir eftir er faðir þessa unga manns.“ Þá hneigði Ragúel fyrir honum grátandi og faðmandi um háls honum og kyssti hann, segjandi: „Ó minn sæti son, blessaður sértu því að þú ert eins réttferðugs, góðs manns sonur.“ Þær húsfrú hans Hanna og Sara dóttir þeirra tóku einnin til að gráta.

Síðan bauð Ragúel að einum sauð skyldi slátra og búa til borðs. Og sem þau báðu þá að setjast niður til borðs sagði Tóbías: [ „Þennan dag skal eg hverki eta né drekka nema þú veitir mér eina bæn og heitir að gifta mér Sara dóttur þína.“ Þá Ragúel heyrði þetta varð hann hræddur því að hann minntist á hversu að þeir sjö mönn höfðu farið sem áður fyrri hafði hann gift dóttur sína og óttaðist að þetta mundi eins fara. Og sem hann vildi þar ekki neitt svar til gefa talaði engillinn til hans: „Óttast ekki að gefa dóttur þína honum því að dóttur þín er ætluð honum til eiginkonu af því að hann er guðhræddur. Þar fyrir hefur öngum öðrum orðið auðið að fá dóttur þína.“

Þá mælti Ragúel: „Eg geng þess ódulinn það Guð mun hafa heyrt mínar bænir og beiskan grát og trúi að þar fyrir hafi hann látið ykkur til mín koma svo að dóttir mín fengi þessa manns af hennar ætt eftir Moyses lögum. Því haf nú öngvan efa þar um, eg vil gifta þér hana.“ Og tók hennar hönd sinnar dóttur og lagði í hönd Tóbías og sagði: „Guð Abrahams, Guð Ísaks, Guð Jakobs veri með ykkur og samtengi ykkur og helli sinni ríkuglegri blessan yfir ykkur.“ Þeir gjörðu bréf þar upp á og skrifuðu skilmálann og lofuðu Guð og héldu máltíð. [

Ragúel kallar til sín húsfrú sína Hönnu og býður henni að búa til annað svefnhús og leiddu þangað dóttur sína Saram og hún grét. Hann talar þá til hennar: „Vertu með góðu geði, mín dóttir. Himna Guð gefi þér gleði fyrir þann harm sem þú hefur borið.“