XIII.

Og þá hann gekk út af musterinu sagði einn af hans lærisveinum: [ „Meistari, skoða hvílíkir steinar og hvílíkt smíði þetta er.“ Jesús svaraði og sagði til hans: „Sér þú allar þessar miklu byggingar? Hér mun eigi eftir látast steinn yfir steini sá er eigi verði niðurbrotinn.“

Og þá hann sat á fjallinu Oliveti gegnt musterinu spurðu hann að sér í lagi Pétur og Jakob og Jóhannes og Andreas: [ „Seg þú oss nær þetta skal ske og hvert teikn verður þá þetta skal allt til taka að fullkomnast.“ Jesús svaraði þeim og tók til að segja: „Sjáið til að eigi fái nokkur villt yður. Því að margir munu koma í mínu nafni og segja: Eg em Kristur, og munu marga villa.

En þá þér heyrið af bardögum og hernaðartíðindum óttist eigi því að þessu byrjar að ske, endinn er þó enn eigi þá. [ Ein þjóð mun reisa sig og upp í mót annarri og ríki á móti ríki og landskjálftar munu vera í sérhverjum stöðum, hungur og hrellingar munu og verða. Þetta er upphaf hryggðanna.

En sjáið til um sjálfa yður því að þeir munu færa yður á ráðstefnur og samkunduhús og þér munuð strýktir verða og fyrir konungum og höfðingjum munu þér standa minna vegna til vitnisburðar yfir þá. Og guðspjöllum byrjar áður að prédikast á meðal allra þjóða.

Og þá þeir leiða yður og framselja skulu þér eigi hugsa fyrir hvað þér skuluð tala heldur hvað yður gefst á þeirri stundu, það skulu þér tala. [ Því að ei tali þér heldur heilagur andi. En einn bróðir mun selja annan í dauða og faðir soninn, börnin munu og reisast upp í mót foreldrunum og styrkja þá í dauða. Og þér verðið öllum að hatri fyrir míns nafns sakir. En hver hann er staðfastur allt til enda, sá hjálpast.

En þá þér sjáið svívirðing eyðslunnar (af hverri Daníel spámaður segir) standandi hvar eigi byrjaði – hver eð les hann undirstandi það – hverjir þá eru á Gyðingalandi flýi þeir á fjöll. [ Og hver hann er upp á ræfrinu fari sá eigi inn að taka nokkuð úr sínu húsi og sá sem er á akri hann snúist eigi á bak sér aftur að taka upp föt sín. En vei þunguðum konum og brjóstmylkingum á þeim tímum! Biðjið heldur að flótti yðar verði eigi um vetur. Því að á þeim dögum verða slíkar hörmungar hverjar eigi hafa verið frá upphafi skepnunnar þá sem Guð skapaði og allt til þessa og eigi heldur mun verða. Og ef Drottinn stytti ekki þessa daga yrði enginn maður hólpinn. En fyrir útvaldra sakir hverja hann útvaldi hefur hann stytt þessa daga.

Og ef nokkur segir þá til yðar: Sé, hér er Kristur! Sé, þar er hann! þá trúið því eigi. Því að upp munu rísa falskristar og falskir spámenn og munu gjöra teikn og stórmerki til að villa (ef verða mætti) einnin útvalda. Því sjáið til um yður. Sé, eg sagði yður allt þetta fyrir.

En á þeim dögum eftir þessa hörmung mun sólin sortna og tunglið eigi gefa sitt skin og stjörnur munu hrapa af himni, kraftar himins munu og hrærast. [ Og þá munu þeir sjá Mannsins son komandi í skýjunum með dýrð og krafti miklum. Og þá mun hann útsenda sína engla að samansafna sínum útvöldum af fjórum vindum allt af enda jarðar og til hæðar himins.

Af fíkjutrénu þá lærið eina eftirlíking. [ Því þá eð þess kvistur gjörist frjór og laufin springa út þá viti þér að sumarið er í nánd. So og nær þér sjáið þetta ske vitið að það sé þá nálægt fyrir dyrum. Sannlega segi eg yður: Þessi kynslóð forgengur eigi þar til allt þetta sker. Himinn og jörð munu forganga en mín orð munu eigi forganga. En af þeim degi og stundu veit enginn, eigi englar á himnum og eigi sonurinn, nema faðirinn einn.

Sjáið til, vakið og biðjið því að þér vitið eigi nær tíð er. [ So sem sá maður er ferðaðist langt burt, forlét sitt hús og gaf sínum þjónum yfirvald sérhvers verknaðar og bauð dyraverðinum að hann vekti. Því vakið nú það þér vitið ei nær herrann hússins kemur, hvort hann kemur að kveldi eða um miðnætti eður þá haninn gelur elligar að morni, so að ei komi hann skyndilega og finni yður sofandi. En hvað eg segi yður það segi eg öllum: Vaki þér.“