XII.

Og Drottinn sendi Natan til Davíðs. Og sem hann kom til hans þá segir hann svo: „Tveir menn voru í einni borg. Annar var ríkur en annar fátækur. Sá hinn ríki átti fjölda bæði nauta og sauða en sá hinn fátæki átti ekkert utan einn lítinn sauð hvern hann hafði keypt og ól hann upp so hann óx upp hjá honum með hans börnum. Hann át af hans brauði og drakk af hans keri og svaf í hans faðmi og hann var honum svo kær sem hans eigin dóttir. En svo bar til að einn vegfarandi maður kom til hins ríka manns og sá hinn ríki maður tímdi ekki að taka af sínum sauðum né nautum til búðarverðs þeim gesti sem til hans var kominn heldur fór hann og tók sauð þess fátæka manns og tilreiddi hann handa þeim manni sem til hans var kominn.“

Davíð reiddist ákaflega þessum manni og sagði til Natan: „Svo sannarlega sem að Drottinn lifir, sá maður er dauða verður er þvílíkt gjörði. Þar til skal hann bitala þann sauð fjórum verðum þar fyrir að hann gjörði slíkt og þyrmdi honum ekki.“

Þá sagði Natan til Davíðs: „Þú ert þessi hinn sami mann. So segir Drottinn, Ísraels Guð: Eg smurða þig til kóngs yfir Ísrael og eg frelsaði þig af hendi Saul og gaf þér þíns herra hús. Þar með gaf eg þér hans kvinnur í fang, þar til gaf eg þér Ísraels og Júda hús og sé þetta oflítið þá vil eg enn leggja það og það til. Því hefur þú þá forsmáð Drottins orð að þú gjörðir soddan illskuverk fyrir hans augliti? Uriam Hetither hefur þú drepið með sverði, hans húsfrú hefur þú tekið þér til eiginkvinnu en hann sjálfan hefur þú slegið í hel með sverði Amónssona.

Þar fyrir skal sverðið ekki ganga af þínu húsi ævinlega sökum þess að þú forsmáðir mig og tókst Úría Hetithers húsfrú að hún yrði þín eiginkvinna. Svo segir Drottinn: Sjá, eg vil uppvekja ólukku í gegn þér af sjálfs þíns húsi og eg vil taka þínar kvinnur so þú sjáir á og gefa þínum náunga þær og hann skal sofa hjá þínum kvinnum að ásjáandi sólu. Því að þú gjörðir þetta leynilega en eg vil gjöra það í augsýn alls Ísraels og í augsýn sólarinnar.“

Þá sagði Davíð til Natan: „Misgjört hefi eg í móti Drottni.“ Natan sagði til Davíðs: „Svo hefur og Drottinn í burt tekið þína synd að þú skalt ekki deyja. En sökum þess að þú hefur komið Guðs óvinum fyrir þetta til guðslöstunar þá skal sá son sem þér verður fæddur sannlega deyja.“ Og Natan gekk heim.

Og Drottinn sló það barn sem húsfrú Urie hafði Davíð fætt so það varð dauðsjúkt. Og Davíð bað með alhuga til Drottins fyrir barninu og fastaði og gekk inn og lá um nóttina flatur á jörðu. Þá uppstóðu þeir elstu af hans húsi og vildu hafa reist hann frá jörðunni. [ En hann vildi í öngvan máta og eigi heldur át hann með þeim. En á þeim sjöunda degi þá dó barnið. Og Davíðs þénarar þorðu ekki að segja honum að barnið væri dautt. Því þeir hugsuðu: „Sjá, þá barnið var nú enn lífs töluðu vér við hann og hann vildi ekki hlýða vorri raust, hvað mikið meir mun hann af hryggð pínast ef vér segjum honum að barnið sé dautt?“ En sem Davíð merkti að hans sveinar kvisuðu þetta sín á milli og merkti að barnið mundi dautt þá sagði hann til sinna þénara: „Er barnið dautt?“ Þeir svöruðu: „Já.“ Og sem Davíð heyrði það stóð hann upp af jörðunni og þvoði sér og smurði sig og tók á sig önnur klæði og gekk inn í Guðs hús og baðst fyrir. En sem hann kom heim aftur þá bauð hann að bera brauð fyrir sig og hann át. Þá sögðu hans þénarar til hans: „Hvað er þetta sem þú gjörir? Á meðan barnið lifði þá fastaðir þú og grést en nú barnið er dautt stendur þú upp og fær þér mat?“ Hann svaraði: „Eg fastaði og grét sökum barnsins þá það lifði því eg hugsaði: Hver veit nema Drottinn sé mér náðugur að barnið megi lifa. En nú að það er dautt, hvað stoðar mér nú að fasta? Eða mun eg geta fengið það aftur? Eg fer til þess en það kemur ekki til mín aftur.“

En sem Davíð hafði nú huggað sína kvinnu Bethsabe þá gekk hann inn til hennar og svaf með henni. [ Og hún fæddi einn son. Þann nefndi hún Salómon og Drottinn elskaði hann. Og Davíð setti hann undir hönd Natan spámanns og hann kallaði hann Jedídja vegna Drottins. [

Jóab barðist við Ammónsonu í Rabba og hann vann þann konunglega stað og sendi boð til Davíðs og lét segja honum: [ „Eg hefi nú stormað á Rabba og eg hefi unnið vatsstaðinn. Svo kalla saman nú það fólk sem eftir er og sest um borg þessa og vinn hana so að eg vinni hana ekki og mér sé ekki kenndur þessi sigur.“ Síðan tók Davíð allt sitt fólk til samans og dró út að herja á Rabba og vann hana. Og hann tók þeirra kóngs kórónu af hans höfði sem vóg eitt cintener gulls og var sett dýrlegum steinum og hún var sett á höfuð Davíð. [ Og hann flutti úr þeirri borg mjög mikið herfang en borgarlýð leiddi hann út og lagði hann undir járnsög og járnsleða og skipti honum í sundur með hnífum og brenndi hann í tígulofni. So gjörði hann við alla Ammónsona staði. Síaðn sneri Davíð heim aftur til Jerúsalem með allan sinn her.