Dómur Natans og iðrun Davíðs
1 Drottinn sendi nú Natan til Davíðs. Þegar hann kom til hans sagði hann: „Í borg einni bjuggu tveir menn. Annar var ríkur en hinn fátækur. 2 Ríki maðurinn átti fjölda sauða og nauta 3 en sá fátæki átti aðeins eitt lítið gimbrarlamb sem hann hafði keypt. Hann fóðraði það og það dafnaði hjá honum og með börnum hans. Það át af brauði hans, drakk úr krús hans, svaf við brjóst hans og var eins og dóttir hans. 4 Einhverju sinni kom gestur til ríka mannsins. En hann tímdi ekki að taka neinn af sauðum sínum eða nautum til að matreiða handa ferðamanninum sem kominn var til hans. Hann tók því lamb fátæka mannsins og matbjó það handa komumanni.“
5 Þá reiddist Davíð þessum manni ákaflega og sagði við Natan: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir er sá sem þetta gerði dauðasekur. 6 Hann skal bæta lambið með fjórum lömbum af því að hann sýndi slíkt miskunnarleysi.“
7 Þá sagði Natan við Davíð: „Þú ert maðurinn. Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Ég smurði þig til konungs yfir Ísrael og ég bjargaði þér úr hendi Sáls. 8 Ég gaf þér fjölskyldu herra þíns og lagði konur herra þíns í faðm þinn. Ég gaf þér Ísrael og Júda og hafi það verið of lítið gef ég þér gjarnan margt fleira. 9 Hvers vegna hefur þú lítilsvirt orð Drottins og gert það sem illt er í augum hans? Þú hjóst Hetítann Úría með sverði. Þú tókst eiginkonu hans þér fyrir konu og felldir hann með sverði Ammóníta. 10 Vegna þess að þú smánaðir mig og tókst þér eiginkonu Hetítans Úría fyrir konu skal sverðið aldrei víkja frá fjölskyldu þinni. 11 Því að svo segir Drottinn: Ég mun láta ógæfu koma yfir þig úr þinni eigin fjölskyldu. Ég mun taka konur þínar frá þér fyrir augum þér og gefa þær öðrum manni. Hann mun leggjast með konum þínum um hábjartan dag. 12 Þú hefur unnið verk þín á laun en ég mun vinna þetta verk frammi fyrir öllum Ísrael um hábjartan dag.“
13 Þá sagði Davíð við Natan: „Ég hef syndgað gegn Drottni.“
Natan svaraði: „Drottinn hefur fyrirgefið þér synd þína. Þú munt ekki deyja. 14 En vegna þess að þú hefur gefið óvinum Drottins tilefni til að smána hann mun sonur þinn, sem fæðist innan skamms, deyja.“
15 Síðan fór Natan heim til sín.
Sonur Davíðs og Batsebu deyr
Drottinn lét drenginn, sem kona Hetítans Úría ól Davíð, veikjast. 16 Davíð sneri sér þá til Drottins vegna drengsins. Hann lagði á sig stranga föstu, fór heim og lagðist til svefns á bera jörðina. 17 Öldungar ættar hans komu til hans og reyndu að fá hann til að standa upp. En hann vildi það ekki og neytti ekki heldur matar með þeim. 18 Á sjöunda degi dó drengurinn. Þjónar Davíðs þorðu þá ekki að segja honum að drengurinn væri dáinn því að þeir hugsuðu með sér: „Við reyndum að tala við hann á meðan drengurinn var á lífi en hann vildi ekki hlusta á okkur. Hvernig eigum við þá að geta sagt við hann: Drengurinn er dáinn? Hann kynni að vinna voðaverk.“
19 Þegar Davíð sá að þjónar hans voru að hvíslast á varð honum ljóst að drengurinn væri dáinn. Þá spurði hann þjóna sína: „Er drengurinn dáinn?“ Og þeir svöruðu: „Já, hann er dáinn.“ 20 Þá stóð Davíð upp af jörðinni, þvoði sér, smurði sig og skipti um föt, gekk svo inn í hús Drottins og varpaði sér þar niður. Þegar hann kom heim til sín bað hann um mat og var honum þá borinn matur. Þegar hann hafði matast 21 spurðu þjónar hans: „Hvers vegna gerir þú þetta? Á meðan drengurinn var lifandi fastaðir þú og grést en um leið og hann deyr ferðu á fætur og matast.“ 22 Hann svaraði: „Ég fastaði og grét á meðan drengurinn var á lífi af því að ég hugsaði með mér: Ef til vill sýnir Drottinn mér miskunn og drengurinn lifir. 23 En hvers vegna ætti ég að fasta nú þegar hann er dáinn? Get ég sótt hann? Ég mun einhvern tíma fara til hans en hann mun ekki snúa aftur til mín.“
Fæðing Salómons
24 Davíð huggaði Batsebu, eiginkonu sína, fór inn til hennar og lagðist með henni. Hún fæddi son sem hann gaf nafnið Salómon. Drottinn elskaði Salómon 25 og lét Natan spámann bera þau skilaboð að hann ætti að heita Jedídjah[ vegna Drottins.
Davíð vinnur Rabba
26 Jóab gerði árás á Rabba, borg Ammóníta. Þegar hann hafði unnið konungsborgina 27 sendi Jóab þessi boð til Davíðs: „Ég hef ráðist á Rabba og tekið borgarhlutann við vatnið. 28 Kallaðu nú saman það sem eftir er af liðinu og sestu um borgina. Þú skalt sjálfur taka borgina svo að það verði ekki ég sem vinn hana og hún verði kennd við mig.“
29 Davíð safnaði nú saman öllum hernum, skundaði til Rabba, réðst á borgina og vann hana. 30 Því næst tók hann kórónu konungs Ammóníta af höfði hans. Hún var ein talenta gulls að þyngd, skreytt gimsteini, og var hún sett á höfuð Davíðs. Hann tók mjög mikið herfang úr borginni 31 og flutti borgarbúa burt og lét þá vinna með steinsögum, járnhökum og járnöxum. Hann lét þá einnig vinna við tígulsteinagerð. Þannig fór hann með allar aðrar borgir Ammóníta. Því næst sneri Davíð ásamt öllum hernum heim til Jerúsalem.