Sýnir spámannsins

Fyrsta sýn: Engisprettur

1Drottinn Guð birti mér í sýn:
Sjáðu, hann gerði engisprettur
þegar háin tók að spretta eftir konungsslátt.
2Þegar þær voru að ljúka við allt grængresið í landinu
hrópaði ég: „Drottinn Guð, fyrirgef.
Hvernig getur Jakob afborið þetta, þar sem hann er svo lítill?“
3Þá iðraðist Drottinn og sagði:
„Það skal ekki verða.“

Önnur sýn: Eldur

4Drottinn Guð birti mér í sýn:
Drottinn Guð hrópaði á refsandi eld
og hann gleypti hið mikla djúp.
En þegar hann tók að gleypa þurrlendið
5sagði ég: „Drottinn Guð, hættu.
Hvernig getur Jakob afborið þetta, hann er svo lítill?“
6Þá iðraðist Drottinn og sagði:
„Það skal ekki heldur verða.“

Þriðja sýn: Lóðlína

7Drottinn Guð birti mér í sýn:
Sjáðu, maður nokkur stóð uppi á múrvegg
með lóðlínu í hendi.
8Drottinn spurði mig: „Hvað sérðu, Amos?“
Ég svaraði: „Lóðlínu.“
Þá sagði Drottinn:
„Sjá, ég mun leggja lóðlínu við lýð minn, Ísrael.
Ég mun ekki framar láta hann afskiptalausan.
9Fórnarhæðir Ísaks verða lagðar í eyði
og helgistaðir Ísraels brotnir til grunna,
og ég mun rísa upp gegn ætt Jeróbóams með sverð í hendi.“

Amos og Amasía

10 Amasía, prestur í Betel, sendi Jeróbóam Ísraelskonungi þessi boð: „Amos gerir uppreisn gegn þér mitt í Ísraelsríki. Boðskapur hans er óþolandi fyrir landið 11 því að Amos boðar þetta: Jeróbóam mun falla fyrir sverði og Ísraelsmenn verða fluttir úr landi sínu í útlegð.“
12 En við Amos sagði Amasía: „Sjáandi, farðu héðan og flýðu til Júda. Þar geturðu unnið fyrir mat þínum sem spámaður. 13 En þú getur ekki haldið áfram að koma fram sem spámaður í Betel því að það er konunglegur helgistaður og ríkismusteri.“
14 Amos svaraði Amasía og sagði: „Ég er ekki spámaður og ekki lærisveinn spámanns, heldur fjárhirðir og rækta mórber. 15 En Drottinn sótti mig til hjarðarinnar og Drottinn sagði við mig: Farðu og starfaðu sem spámaður fyrir þjóð mína, Ísrael. 16 En hlustaðu nú á orð Drottins: Þú hefur sagt: Þú mátt ekki starfa sem spámaður gegn Ísrael og ekki flytja spámannleg orð gegn ætt Ísaks.
17 Þess vegna segir Drottinn:
Eiginkona þín verður skækja í borginni,
synir þínir og dætur munu falla fyrir sverði,
landareign þinni verður skipt með mælisnúru
og sjálfur munt þú deyja í óhreinu landi.
18Ísraelsmenn verða fluttir úr landi sínu í útlegð.“