Kveðjuræða Samúels

1 Samúel sagði við alla Ísraelsmenn:
„Ég hef í einu og öllu orðið við því sem þið kröfðuð mig um og sett yfir ykkur konung. 2 Nú er konungurinn leiðtogi ykkar. Ég er sjálfur orðinn gamall og grár fyrir hærum og syni mína hafið þið hjá ykkur. Allt frá æskuárum og fram á þennan dag hef ég verið leiðtogi ykkar. 3 Nú stend ég hér. Svarið mér frammi fyrir Drottni og hans smurða. Hef ég tekið naut frá einhverjum? Hef ég tekið asna frá einhverjum? Hef ég féflett einhvern? Hef ég beitt einhvern ofríki? Hef ég þegið lausnargjald fyrir morð af einhverjum og lokað augunum fyrir sekt hans? Hafi ég gert eitthvað af þessu vil ég nú bæta fyrir það.“
4 Þeir svöruðu: „Þú hefur ekki féflett okkur, þú hefur ekki beitt okkur ofríki, þú hefur ekki tekið neitt frá neinum.“
5 Hann sagði við þá: „Nú eru Drottinn og hans smurði vitni þess að þið hafið ekki fundið mig sekan um neitt.“ „Já,“ svöruðu þeir.
6 Síðan sagði Samúel við fólkið:
„Drottinn er vitni þessa, hann sem gerði Móse og Aron að þjónum sínum og leiddi feður ykkar út úr Egyptalandi. 7 Gangið nú fram. Hér frammi fyrir augliti Drottins ætla ég að setja rétt í málum ykkar og minna ykkur á öll hjálpræðisverk Drottins sem hann hefur unnið fyrir ykkur og forfeður ykkar. 8 Þegar Jakob var kominn til Egyptalands og forfeður ykkar hrópuðu til Drottins sendi Drottinn Móse og Aron. Þeir leiddu forfeður ykkar út úr Egyptalandi og létu þá setjast hér að. 9 En þeir gleymdu Drottni, Guði sínum, svo hann seldi þá í hendur Sísera, hershöfðingja frá Hasór, og í hendur Filistea og í hendur Móabskonungs og þeir réðust á þá. 10 En þeir hrópuðu til Drottins og sögðu: Við höfum syndgað því að við yfirgáfum Drottin og dýrkuðum Baalana og Astörturnar. Bjargaðu okkur nú úr höndum fjandmanna okkar, þá skulum við þjóna þér. 11 Þá sendi Drottinn Jerúbbaal, Bedan, Jefta og Samúel og bjargaði ykkur úr höndum allra fjandmanna umhverfis ykkur svo að þið gátuð búið óhultir. 12 En þegar þið sáuð að Nahas, konungur Ammóníta, réðst á ykkur sögðuð þið við mig: Nei, konungur skal ríkja yfir okkur. Þetta gerðuð þið enda þótt Drottinn, Guð ykkar, sé konungur ykkar. 13 Sjáið, hérna er konungur ykkar sem þið hafið valið og beðið um. Nú hefur Drottinn sett konung yfir ykkur. 14 Ef þið virðið Drottin og þjónið honum, ef þið hlýðið boðum hans og setjið ykkur ekki á móti skipunum hans og ef þið og konungurinn, sem ríkir yfir ykkur, fylgið Drottni mun ykkur vegna vel. 15 En hlýðið þið ekki boðum Drottins og setjið ykkur á móti skipunum hans, þá verður hönd Drottins reidd gegn ykkur og konungi ykkar.[
16 Gangið nú fram og sjáið með eigin augum það stórvirki sem Drottinn er í þann veginn að vinna. 17 Stendur ekki hveitiuppskeran yfir núna? Ég ætla að hrópa til Drottins, þá mun hann senda þrumur og rigningu. Þá skiljið þið hve rangt það var af ykkur í augum Drottins að krefjast konungs.“
18 Síðan hrópaði Samúel til Drottins og Drottinn sendi jafnskjótt þrumur og rigningu. Allt fólkið skelfdist Drottin og Samúel 19 og það sagði við Samúel: „Bið fyrir þjónum þínum til Drottins, Guðs þíns, svo að við deyjum ekki af því að við höfum bætt þeirri misgjörð ofan á allar okkar fyrri syndir að krefjast konungs.“ 20 Samúel svaraði þá fólkinu: „Óttist ekki. Þið hafið að vísu unnið þetta illvirki en látið samt ekki af að fylgja Drottni. Þjónið honum heils hugar. 21 Víkið ekki frá honum til þess að elta fánýta hjáguði, sem hvorki veita neinum lið né frelsa nokkurn mann, því að þeir eru einskis nýtir. 22 Drottinn hefur ákveðið að gera ykkur að lýð sínum og vegna síns mikla nafns mun hann ekki hafna lýð sínum. 23 Það sé fjarri mér að syndga gegn Drottni með því að hætta að biðja fyrir ykkur. Ég mun sýna ykkur hinn góða og rétta veg. 24 Óttist Drottin og þjónið honum af trúfesti og heils hugar því að þið sjáið þau stórvirki sem hann hefur unnið fyrir ykkur. 25 En ef þið haldið áfram illri breytni ykkar skal bæði ykkur og konungi ykkar verða svipt í burtu.“