Fyrirmæli um brottför frá Sínaí

1 Drottinn sagði við Móse: „Haltu af stað. Farðu héðan upp eftir með fólkið, sem þú leiddir upp frá Egyptalandi, til landsins sem ég hét Abraham, Ísak og Jakobi með því að segja: Niðjum þínum mun ég gefa það. 2 Ég mun senda engil á undan þér og reka burt Kanverja, Amoríta, Hetíta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta. 3 Þið skuluð fara til þess lands sem flýtur í mjólk og hunangi. Ég fer ekki sjálfur með ykkur því að þið eruð harðsvíruð þjóð og til þess gæti komið að ég eyddi ykkur á leiðinni.“ 4 Þegar fólkið heyrði þessa hótun hryggðist það og enginn bjóst skarti sínu. 5 Þá sagði Drottinn við Móse: „Segðu við Ísraelsmenn: Þið eruð harðsvíruð þjóð. Væri ég aðeins stundarkorn með ykkur á leiðinni upp eftir mundi ég eyða ykkur. En takið nú af ykkur skart ykkar svo að ég geti ákveðið hvað ég geri við ykkur.“ 6 Þar, við Hórebfjall, tóku Ísraelsmenn af sér skart sitt og báru það ekki framar.

Samfundatjaldið

7 Móse var vanur að taka tjaldið og reisa það utan við búðirnar í nokkurri fjarlægð frá þeim. Hann nefndi það samfundatjald. Þegar einhver vildi ganga til fundar við Drottin gekk hann út til samfundatjaldsins sem var utan við búðirnar. 8 Þegar Móse gekk út til tjaldsins reis allt fólkið á fætur og hver maður fór út í tjalddyr sínar og horfði á eftir Móse þar til hann hvarf inn í tjaldið. 9 Um leið og Móse var kominn inn í tjaldið steig skýstólpinn niður og staðnæmdist við tjalddyrnar. Því næst talaði Drottinn við Móse. 10 Þegar allt fólkið sá skýstólpann sem stóð við tjalddyrnar reis það á fætur og féll fram, hver fyrir sínum tjalddyrum. 11 Drottinn talaði við Móse augliti til auglitis, eins og maður talar við mann. Því næst sneri Móse aftur til búðanna en þjónn hans, unglingurinn Jósúa Núnsson, vék ekki úr tjaldinu.

Fyrirbæn Móse

12 Móse sagði við Drottin: „Þú sagðir við mig: Leiddu þetta fólk upp eftir. En þú hefur ekki sagt mér hvern þú ætlar að senda með mér. Samt sagðir þú sjálfur: Ég þekki þig með nafni og þú hefur fundið náð fyrir augum mínum. 13 Hafi ég nú fundið náð fyrir augum þínum skýrðu mér þá frá vegum þínum svo að ég megi þekkja þig og hljóta náð fyrir augum þínum. Minnstu þess að þetta fólk er þjóð þín.“ 14 Drottinn svaraði: „Auglit mitt mun fara með þér og ég mun veita þér hvíld.“ 15 Móse sagði: „Ef auglit þitt fer ekki með leiddu okkur þá alls ekki héðan upp eftir. 16 Hvernig er hægt að vita að ég og þjóð þín höfum fundið náð fyrir augum þínum nema þú komir með okkur? Þá verðum við, ég og þjóð þín, tekin fram yfir allar aðrar þjóðir jarðarinnar.“ 17 Drottinn svaraði Móse: „Einnig þetta, sem þú sagðir, mun ég gera því að þú hefur fundið náð fyrir augum mínum og ég þekki þig með nafni.“ 18 Þá sagði Móse: „Sýndu mér dýrð þína.“ 19 Drottinn svaraði: „Ég mun sjálfur láta allan ljóma minn líða fram hjá þér og ég mun hrópa nafnið Drottinn frammi fyrir þér. Ég vil líkna þeim sem ég vil líkna og miskunna þeim sem ég vil miskunna.“ 20 Enn fremur sagði hann: „Þú getur ekki séð auglit mitt því að enginn maður fær séð mig og haldið lífi.“ 21 Síðan sagði Drottinn: „Þarna er staður, stattu uppi á klettinum. 22 Þegar dýrð mín fer fram hjá læt ég þig standa í klettaskorunni og hyl þig með lófa mínum þar til ég er farinn fram hjá. 23 Þegar ég tek lófa minn frá muntu sjá aftan á mig. Enginn fær séð auglit mitt.“