Kveðja

1 Öldungurinn heilsar elskuðum Gajusi sem ég ann í sannleika.
2 Ég bið þess, minn elskaði, að þér vegni vel í öllu, þú sért heill heilsu og þér líði vel í sál og sinni. 3 Ég varð mjög glaður þegar bræður komu og greindu frá hve trúr þú ert sannleikanum og breytir eftir honum. 4 Ég hef enga meiri gleði en þá að heyra að börnin mín hlýði sannleikanum.

Samverkamenn sannleikans

5 Þú sýnir trúnað þinn, minn elskaði, í öllu sem þú vinnur fyrir söfnuðinn[ og jafnvel ókunna menn. 6 Þeir hafa vitnað fyrir söfnuðinum um kærleika þinn. Þú gerir vel að greiða för þeirra eins og verðugt er í Guðs augum. 7 Því að sakir nafns Jesú lögðu þeir af stað og þiggja ekki neitt af heiðnum mönnum. 8 Þess vegna ber okkur að hjálpa þessum mönnum og verða þannig samverkamenn þeirra í þágu sannleikans.

Díótrefes og Demetríus

9 Ég hef ritað nokkuð til safnaðarins en Díótrefes, sem vill vera fremstur meðal þeirra, tekur eigi mark á mér. 10 Þess vegna ætla ég, ef ég kem, að benda á gjörðir hans, hvernig hann lætur ófrægja mig með ljótum orðum. Og ekki nægir honum þetta. Hann tekur ekki heldur á móti bræðrum sem koma. Og vilji aðrir gera það hindrar hann þá og rekur úr söfnuðinum.
11 Líktu ekki eftir því sem illt er, minn elskaði, heldur eftir því sem gott er. Sá sem gerir gott heyrir Guði til en sá sem gerir illt hefur ekki séð Guð.
12 Demetríus fær góðan vitnisburð hjá öllum, já, hjá sannleikanum sjálfum. Ég ber honum hið sama og þú veist að vitnisburður minn er sannur.

Lokaorð

13 Ég hef margt að rita þér en vil ekki rita þér með bleki og penna. 14 En ég vona að sjá þig bráðum og munum við þá talast við augliti til auglitis.
15 Friður sé með þér. Vinirnir biðja að heilsa þér. Heilsa þú vinunum hverjum fyrir sig.