Gullkálfurinn

1 Þegar mönnum varð ljóst að Móse seinkaði ofan af fjallinu þyrptust þeir að Aroni og sögðu við hann: „Komdu og búðu til guð handa okkur sem getur farið fyrir okkur því að við vitum ekki hvað varð um þennan Móse, manninn sem leiddi okkur út af Egyptalandi.“ 2 Aron sagði við þá: „Slítið gullhringana úr eyrum kvenna ykkar, sona og dætra og færið mér.“ 3 Þá sleit allt fólkið gullhringana úr eyrum sér og færði Aroni. 4 Hann tók við þeim úr höndum þeirra, bræddi og steypti úr þeim kálf. Þá sagði fólkið: „Þetta er guð þinn, Ísrael, sem leiddi þig út af Egyptalandi.“
5 Þegar Aron sá þetta reisti hann altari fyrir framan kálfinn. Síðan hrópaði hann og sagði: „Á morgun verður Drottni haldin hátíð.“ 6 Morguninn eftir voru þeir snemma á fótum, færðu brennifórnir og leiddu fram dýr til heillafórna. Því næst settist fólkið til að eta og drekka og stóð síðan upp til að skemmta sér.
7 Þá sagði Drottinn við Móse: „Farðu niður eftir því að þjóð þín, sem þú leiddir út af Egyptalandi, hefur steypt sér í glötun. 8 Skjótt hafa þeir vikið af þeim vegi sem ég bauð þeim. Þeir hafa steypt sér kálf, fallið fram fyrir honum, fært honum sláturfórnir og sagt: Þetta er guð þinn, Ísrael, sem leiddi þig út af Egyptalandi.“
9 Drottinn sagði við Móse: „Nú sé ég að þessi þjóð er harðsvírað fólk. 10 Skildu mig eftir einan svo að reiði mín blossi upp gegn þeim og eyði þeim en þig mun ég gera að mikilli þjóð.“ 11 En Móse reyndi að blíðka Drottin, Guð sinn, og sagði: „Hvers vegna, Drottinn, á reiði þín að blossa upp gegn þjóð þinni, sem þú leiddir út af Egyptalandi með miklum mætti og styrkri hendi? 12 Hvers vegna eiga Egyptar að geta sagt: Hann hafði illt í huga þegar hann leiddi þá þaðan út til að svipta þá lífi á fjöllum uppi og afmá þá af yfirborði jarðar. Snúðu frá brennandi reiði þinni og hættu við að valda því böli sem þú ætlaðir þjóð þinni. 13 Minnstu þjóna þinna, Abrahams, Ísaks og Ísraels. Þú sórst þeim við sjálfan þig og hést þeim: Ég mun gera niðja ykkar marga sem stjörnur himinsins og allt landið, sem ég hef talað um, mun ég gefa niðjum ykkar og það skal vera ævarandi eign þeirra.“ 14 Þá hætti Drottinn við það sem hann hafði hótað þjóð sinni. 15 Þá sneri Móse sér við, hélt niður af fjallinu og hafði báðar sáttmálstöflurnar í höndum sér. Á töflunum var letur báðum megin, bæði var ritað á framhlið þeirra og bakhlið. 16 Töflurnar voru gerðar af Guði og letrið var letur Guðs, grafið í töflurnar.
17 Þegar Jósúa heyrði háreystina í fólkinu sagði hann við Móse: „Frá búðunum berast heróp,“ 18 en hann svaraði:
Þetta er ekki hróp sigurvegara,
ekki óp sigraðra,
ég heyri aðeins hávær hróp.

19 Þegar Móse nálgaðist búðirnar og sá kálfinn og hringdansinn blossaði reiði hans upp og hann kastaði töflunum úr höndum sér og molaði þær við fjallsræturnar. 20 Síðan tók hann kálfinn, sem þeir höfðu gert, brenndi hann í eldi, muldi hann mélinu smærra og dreifði duftinu í vatn sem hann lét Ísraelsmenn drekka. 21 Því næst spurði Móse Aron: „Hvað hefur þetta fólk gert þér að þú hefur leitt yfir það svo mikla synd?“ 22 Aron svaraði: „Reiðstu ekki, herra. Þú veist sjálfur að fólkið er taumlaust. 23 Það sagði við mig: Gerðu okkur guði sem geta farið fyrir okkur því að við vitum ekki hvað orðið er um þennan Móse, manninn sem leiddi okkur út af Egyptalandi. 24 Þá sagði ég við fólkið: Sérhver sem ber gullskart slíti það af sér. Þeir fengu mér það, ég kastaði því í eldinn og úr því varð þessi kálfur.“
25 Þegar Móse sá að fólkið var taumlaust af því að Aron hafði sleppt af því taumhaldinu svo að óvinir höfðu það að spotti, 26 staðnæmdist hann í hliði búðanna og sagði: „Hver sem fylgir Drottni komi til mín.“ Þá söfnuðust allir Levítar að honum. 27 Hann sagði við þá: „Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Hver maður skal festa sverð sitt sér við hlið og fara síðan um herbúðirnar frá einu hliði til annars og drepa bróður sinn, vin og nágranna.“ 28 Levítarnir gerðu sem Móse bauð og féllu þrjú þúsund manns af þjóðinni þennan dag. 29 Þá sagði Móse: „Fyllið hendur ykkar í dag með gjöfum Drottni til handa því að hver og einn hefur snúist gegn syni sínum og bróður svo að hann blessi ykkur í dag.“
30 Morguninn eftir sagði Móse við fólkið: „Þið hafið drýgt stóra synd. Nú ætla ég að fara upp til Drottins. Ef til vill get ég friðþægt fyrir synd ykkar.“ 31 Móse sneri því aftur til Drottins og sagði: „Þetta fólk hefur drýgt stóra synd. Það hefur gert sér guð úr gulli. 32 Nú bið ég að þú fyrirgefir synd þess. En getirðu það ekki máðu mig þá út úr bók þinni sem þú hefur skrifað.“ 33 Drottinn sagði við Móse: „Úr bók minni mái ég hvern þann sem hefur syndgað gegn mér. 34 Farðu nú og leiddu fólkið þangað sem ég hef sagt þér. Engill minn mun ganga á undan þér. Þegar dagur reikningsskilanna kemur mun ég draga þá til ábyrgðar vegna synda þeirra.“
35 Drottinn sendi plágu yfir þjóðina vegna kálfsins sem hún hafði látið Aron gera.