1 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Asafssálmur. Ljóð.
2Guð gerði sig kunnan í Júda,
nafn hans er mikið í Ísrael.
3Tjaldbúð hans er í Salem,
bústaður hans á Síon
4þar sem hann braut leiftrandi örvar,
skjöld og sverð og önnur vopn. (Sela)
5Ógnvekjandi ert þú,
tignarlegri en hin öldnu fjöll.
6Hugrakkir menn voru rændir,
þeir sofnuðu svefni sínum,
hendurnar brugðust hetjunum.
7Fyrir ógn þinni, Jakobs Guð,
misstu hestar og vagnar mátt sinn.
8Þú ert ógnvekjandi,
hver fær staðist reiði þína?
9Þú kunngjörir dóm þinn frá himni,
jörðin skelfist og þagnar
10þegar Guð rís upp til að halda dóm,
hjálpa öllum hrjáðum á jörðu. (Sela)
11Reiði manna snýst í þökk til þín,
þeir sem eftir verða munu sjá það og fagna þér.
12Vinnið heit og efnið þau við Drottin, Guð yðar,
allir umhverfis hann skulu færa gjafir hinum óttalega,
13hann brýtur niður hugmóð höfðingjanna,
ógnar konungum jarðarinnar.