Hvatning til afturhvarfs

1 Í áttunda mánuði annars stjórnarárs Daríusar konungs barst orð Drottins Sakaría spámanni, syni Berekja Íddósonar:
2 Drottinn var afar reiður forfeðrum ykkar. 3 Segðu því við þá: Svo mælir Drottinn allsherjar: Snúið ykkur til mín, segir Drottinn allsherjar, þá mun ég snúa mér til ykkar aftur, segir Drottinn allsherjar. 4 Verið ekki eins og forfeður ykkar. Til þeirra mæltu spámennirnir fyrrum: „Svo segir Drottinn allsherjar: Látið af vondri breytni og illverkum ykkar!“ En um það skeyttu þeir ekki og daufheyrðust við mér, segir Drottinn. 5 Forfeður ykkar, hvar eru þeir nú? Og spámennirnir? Lifa þeir að eilífu? 6 En orð mín og ákvarðanir, sem ég lét þjóna mína, spámennina, boða þeim, hafa þau ekki hitt forfeður ykkar fyrir? Snerist þeim ekki hugur svo að þeir sögðu: „Það sem Drottinn allsherjar hafði ákveðið að gera við okkur eftir breytni okkar og verkum, það hefur hann einmitt gert?“

Fyrsta sýn: Maður á rauðum hesti

7 Á tuttugasta og fjórða degi ellefta mánaðar, mánaðarins sebat, á öðru stjórnarári Daríusar, barst orð Drottins Sakaría spámanni, syni Berekja Íddósonar:
8 Um nóttina vitraðist mér maður, sitjandi á rauðum hesti. Hann hafði numið staðar milli myrtutrjánna í dalbotninum og að baki honum voru rauðir, jarpir og hvítir hestar. 9 Ég spurði: „Herra, hverjir eru þetta?“ Og engillinn, sem við mig talaði, svaraði mér: „Ég skal sýna þér hverjir þeir eru.“
10 Og maðurinn, sem hafði staðnæmst milli myrtutrjánna, tók til máls og sagði: „Þetta eru þeir sem Drottinn hefur sent til að reika um jörðina.“
11 Þeir tóku þá undir við engil Drottins, sem stóð milli myrtutrjánna, og sögðu: „Við höfum farið um jörðina og allt er þar með kyrrum kjörum.“
12 Þá svaraði engill Drottins og sagði: „Drottinn allsherjar, hve lengi ætlar þú að halda miskunn þinni frá Jerúsalem og borgunum í Júda sem þú kallaðir bölvun yfir fyrir sjötíu árum?“
13 Þá mælti Drottinn til engilsins, sem við mig talaði, hlýlegum og huggunarríkum orðum, 14 og engillinn, viðmælandi minn, sagði við mig: „Boðaðu þetta:
Svo mælir Drottinn allsherjar:
Ég er gagntekinn af afbrýði
vegna Jerúsalem, vegna Síonar,
15og ég er sárgramur þeim þjóðum
sem hafa verið andvaralausar.
Gremja mín var minni áður,
en þó juku þær stórum á böl sitt.
16Því mælir Drottinn:
Í samúð sný ég mér aftur að Jerúsalem.
Hús mitt verður reist þar, segir Drottinn allsherjar,
og mælisnúra þanin yfir Jerúsalem.
17Og boðaðu einnig þetta: Svo mælir Drottinn allsherjar:
Aftur munu borgir mínar búa við allsnægtir
og enn mun Drottinn hughreysta Síon
og gera Jerúsalem að kjörinni borg sinni.