Jósef og eiginkona Pótífars

1 Jósef var fluttur til Egyptalands þar sem Pótífar, egypskur hirðmaður faraós og lífvarðarforingi, keypti hann af Ísmaelítunum sem fluttu hann þangað. 2 En Drottinn var með Jósef svo að hann varð lánsamur. Hann dvaldist í húsi hins egypska húsbónda síns. 3 Þegar húsbónda hans varð ljóst að Drottinn var með honum og að Drottinn lét honum heppnast allt sem hann tók sér fyrir hendur, 4 þá fann Jósef náð í augum hans og þjónaði honum. Hann setti Jósef yfir hús sitt og trúði honum fyrir öllu sem hann átti. 5 Frá þeirri stundu, er hann hafði sett Jósef yfir hús sitt og yfir allt sem hann átti, blessaði Drottinn hús hins egypska manns vegna Jósefs. Hvíldi blessun Drottins yfir öllu sem hann átti, innan húss og utan. 6 Pótífar fól Jósef til umráða allar eigur sínar og lét sig ekki varða um annað en matinn sem hann neytti.
Jósef var vel vaxinn og fríður sýnum. 7 Þar kom að kona húsbónda hans renndi hýru auga til hans og sagði: „Leggstu með mér!“ 8 Jósef færðist undan og sagði við hana: „Húsbóndi minn lætur sig ekki varða um neitt í húsinu undir minni stjórn og hefur trúað mér fyrir öllum eigum sínum. 9 Hann hefur ekki meira vald í þessu húsi en ég og hann neitar mér ekki um neitt nema þig vegna þess að þú ert kona hans. Hvers vegna skyldi ég þá aðhafast svo illt og syndga á móti Guði?“ 10 Þó að hún reyndi að tala Jósef til dag eftir dag þá lét hann ekki að vilja hennar að leggjast hjá henni og vera með henni.
11 Dag einn er hann gekk til vinnu sinnar inn í húsið og enginn heimilismanna var þar inni 12 greip hún í skikkju hans og sagði: „Leggstu með mér!“ Hann skildi skikkjuna eftir í hendi hennar og lagði á flótta út. 13 Þegar hún sá að hann hafði látið eftir skikkjuna í hendi hennar og var flúinn út 14 þá kallaði hún á heimafólk sitt og sagði: „Sjáið, hann hefur fært okkur hebreskan mann sem skemmtir sér á kostnað okkar. Hann kom inn til mín og vildi leggjast með mér en ég æpti hástöfum. 15 Þegar hann heyrði hróp mín og köll lét hann skikkju sína eftir hjá mér og lagði á flótta.“ 16 Hún geymdi skikkju hans þangað til húsbóndi hans kom heim. 17 Þá endurtók hún sögu sína og sagði: „Hebreski þrællinn, sem þú færðir okkur, kom til mín til þess að gamna sér. 18 En þegar ég hrópaði og kallaði skildi hann skikkju sína eftir hjá mér og lagði á flótta.“
19 Er húsbóndi hans heyrði konu sína skýra frá hvernig þræll hans hafði komið fram við hana reiddist hann mjög. 20 Lét húsbóndinn taka Jósef og setja hann í fangelsið þar sem fangar konungs voru geymdir. Þar var hann hafður í haldi.
21 En Drottinn var með Jósef, auðsýndi honum miskunn og lét hann finna náð í augum fangelsisstjórans 22 sem setti Jósef yfir alla hina fangana og gerði hann ábyrgan fyrir allri vinnu í fangelsinu. 23 Fangelsisstjórinn þurfti ekki að skipta sér af neinu sem Jósef var trúað fyrir því að Drottinn var með honum. Allt sem hann tók sér fyrir hendur lét Drottinn lánast honum.