1 Davíðssálmur.
Til þín, Drottinn, hef ég sál mína,
2Guð minn, þér treysti ég,
lát mig eigi verða til skammar,
lát eigi óvini mína hlakka yfir mér.
3Enginn sem á þig vonar
mun til skammar verða,
þeir einir verða til skammar
sem ótrúir eru að tilefnislausu.
4Vísa mér vegu þína, Drottinn,
kenn mér stigu þína.
5Lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér
því að þú ert Guð hjálpræðis míns,
allan daginn vona ég á þig.
6Minnst þú, Drottinn, miskunnar þinnar og gæsku
sem er frá eilífð.
7Minnst þú ekki æskusynda minna og afbrota,
minnstu mín í elsku þinni sakir gæsku þinnar, Drottinn.
8Góður og réttlátur er Drottinn,
þess vegna vísar hann syndurum veginn.
9Hann leiðir hógværa á vegi réttlætisins
og vísar auðmjúkum veg sinn.
10Allir vegir Drottins eru elska og trúfesti
fyrir þá sem halda sáttmála hans og boð.
11Vegna nafns þíns, Drottinn,
fyrirgef mér sekt mína þó að hún sé mikil.
12Hverjum þeim sem óttast Drottin
vísar hann veginn sem hann skal velja.
13Sjálfur mun hann búa við hamingju
og niðjar hans munu erfa landið.
14Drottinn sýnir þeim trúnað sem óttast hann
og gerir þeim sáttmála sinn kunnan.
15Ég beini augum sífellt til Drottins
því að hann leysir fætur mína úr snörunni.
16Snú þér til mín og ver mér náðugur
því að ég er einmana og beygður.
17Frelsa mig frá kvíða hjarta míns,
leið mig úr nauðum.
18Lít á neyð mína og eymd
og fyrirgef allar syndir mínar.
19Sjá, hve fjandmenn mínir eru margir,
þeir hata mig ákaft.
20Varðveit líf mitt og frelsa mig,
lát mig ekki verða til skammar
því að hjá þér leita ég hælis.
21Heilindi og ráðvendni verndi mig
því að á þig vona ég.
22 Guð, frelsa Ísrael
úr öllum nauðum hans.