Elísa og Naaman

1 Naaman, hershöfðingi konungsins í Aram, var í miklum metum hjá húsbónda sínum og í hávegum hafður því að Drottinn hafði veitt Aram sigur undir stjórn hans. Þessi maður var mikil hetja en orðinn holdsveikur.
2 Einu sinni, þegar Aramear höfðu farið í ránsferð, höfðu þeir numið litla stúlku á brott úr Ísraelslandi. Hún varð þjónustustúlka hjá konu Naamans. 3 Hún sagði nú við húsmóður sína: „Það vildi ég að húsbóndi minn væri kominn til spámannsins í Samaríu. Hann mundi lækna hann af holdsveikinni.“ 4 Naaman fór þá til húsbónda síns, skýrði honum frá þessu og sagði: „Stúlkan frá Ísraelslandi sagði sitt af hverju.“ 5 Aramskonungur sagði: „Farðu þangað. Ég skal senda bréf til Ísraelskonungs.“ Naaman lagði af stað og tók með sér tíu talentur silfurs, sex þúsund gullpeninga og tíu viðhafnarklæðnaði. 6 Hann færði Ísraelskonungi bréfið en þar stóð: „Þegar þetta bréf berst þér skaltu vita að ég hef sent Naaman, þjón minn, til þín svo að þú læknir hann af holdsveiki.“
7 Þegar Ísraelskonungur hafði lesið bréfið reif hann klæði sín og sagði: „Er ég þá Guð sem hefur mátt til að deyða og lífga fyrst þessi maður sendir mér boð um að lækna mann af holdsveiki? Ef þið hugsið ykkur um hljótið þið að skilja að hann ætlar að stofna til illdeilna við mig.“
8 Þegar guðsmaðurinn Elísa frétti að Ísraelskonungur hefði rifið klæði sín sendi hann þessi boð til konungsins: „Hvers vegna hefur þú rifið klæði þín? Láttu Naaman koma til mín og hann mun komast að raun um að til er spámaður í Ísrael.“ 9 Þá kom Naaman með hesta sína og vagn og nam staðar við dyrnar á húsi Elísa. 10 Elísa lét boðbera segja honum: „Farðu og baðaðu þig sjö sinnum í Jórdan. Þá verður þú hreinn og húð þín heilbrigð.“ 11 Þessu reiddist Naaman og fór leiðar sinnar. Síðan sagði hann: „Ég hélt að hann kæmi sjálfur út, næmi staðar og ákallaði nafn Drottins, Guðs síns, hreyfði höndina yfir kaunin og læknaði mig þannig af holdsveikinni. 12 Eru Abana og Parpar, fljótin við Damaskus, ekki betri en allt vatn í Ísrael? Get ég ekki baðað mig í þeim og orðið hreinn?“ Síðan sneri hann sér við og gekk burt reiður.
13 En þjónar hans komu til hans og sögðu við hann: „Ef spámaðurinn hefði falið þér erfitt verk hefðir þú þá ekki unnið það? Hví þá ekki það litla sem hann sagði: Laugaðu þig og þú verður hreinn?“
14 Naaman fór þá niður eftir og dýfði sér sjö sinnum í fljótið Jórdan samkvæmt fyrirmælum guðsmannsins. Húð hans varð þá heilbrigð eins og húð smábarns og hann varð hreinn. 15 Hann sneri nú aftur til guðsmannsins ásamt öllu fylgdarliði sínu, gekk fyrir hann og sagði: „Nú veit ég að hvergi á jörðinni er til Guð nema í Ísrael. Þigg nú gjöf af þjóni þínum.“ 16 En hann svaraði: „Svo sannarlega sem Drottinn, sá er ég þjóna, lifir mun ég ekki taka við neinu.“ Þó að Naaman legði að honum færðist hann undan.
17 En Naaman sagði: „Ef þú vilt það alls ekki, þá láttu fá mér, þjóni þínum, mold á tvo múlasna því að hér eftir mun ég, þjónn þinn, ekki færa brennifórnir né sláturfórnir til annarra guða en Drottins. 18 En þetta eitt verður Drottinn að fyrirgefa þjóni þínum: Þegar herra minn gengur í hús Rimmons[ til þess að biðjast þar fyrir og hann styður sig við handlegg minn, þá verð ég að kasta mér niður í húsi Rimmons um leið og hann kastar sér niður í húsi Rimmons. Megi Drottinn fyrirgefa þjóni þínum þetta.“ 19 Elísa sagði við hann: „Farðu í friði.“
Þegar Naaman hafði farið nokkurn spöl 20 hugsaði Gehasí, þjónn guðsmannsins Elísa, með sér: „Húsbóndi minn hefur látið þennan arameíska mann, Naaman, sleppa fullvel með því að þiggja ekki það sem hann kom með. Svo sannarlega sem Drottinn lifir skal ég hlaupa á eftir honum og fá eitthvað hjá honum.“ 21 Gehasí flýtti sér nú á eftir Naaman. Þegar Naaman sá mann koma hlaupandi á eftir sér hallaði hann sér út úr vagninum að honum og spurði: „Er nokkuð að?“ 22 „Nei,“ svaraði hann. „Húsbóndi minn sendi mig með þessi skilaboð: Rétt í þessu komu til mín tveir ungir menn, lærisveinar spámanna frá Efraímsfjöllum. Gefðu þeim nú eina talentu silfurs og tvo hátíðarklæðnaði.“ 23 Naaman svaraði: „Gerðu mér þann greiða að taka tvær.“ Hann lagði mjög að honum, setti tvær talentur silfurs í tvo poka og tvo hátíðarklæðnaði. Hann fékk þetta tveimur þjónum sínum og þeir báru það á undan honum. 24 Þegar Gehasí var kominn að hæðinni tók hann gjafirnar af þjónunum og faldi þær í húsinu. Síðan sendi hann mennina burt og þeir fóru leiðar sinnar.
25 Sjálfur gekk hann fyrir Elísa, húsbónda sinn, sem spurði: „Hvert fórst þú, Gehasí?“ Hann svaraði: „Þjónn þinn hefur hvergi farið.“ 26 Þá sagði Elísa við hann: „Ég fylgdist með í huganum þegar maður nokkur sneri sér að þér úr vagni sínum. Er kominn tími til að afla fjár, eignast klæði, olíuviðarlundi, víngarða, sauðfé og nautgripi, þræla og ambáttir? 27 Holdsveiki Naamans skal loða við þig og niðja þína, ævinlega.“ Gehasí gekk þá út frá honum hvítur sem snjór af holdsveiki.