Lúðrarnir

1 Drottinn talaði til Móse og sagði:
2 „Gerðu tvo lúðra úr silfri. Þú skalt gera þá með drifnu smíði. Þú skalt nota þá til að kalla saman söfnuðinn og til að gefa hernum merki til brottfarar. 3 Þegar þið gefið merki með lúðraþyt skal allur söfnuðurinn koma saman hjá þér við dyr samfundatjaldsins. 4 Ef þið þeytið einu sinni skulu höfðingjarnir, æðstu höfðingjar Ísraels ætta, koma saman hjá þér. 5 Ef þið gefið merki með hvellum hljómi skulu hersveitirnar, sem tjalda austan megin, leggja af stað. 6 Ef þið gefið merki öðru sinni með hvellum hljómi skulu hersveitirnar, sem tjalda sunnan megin, leggja af stað. Þið skuluð gefa merki til brottfarar með lúðraþyt. 7 En þegar söfnuðurinn skal koma saman skuluð þið þeyta lúðrana en ekki hvellt.
8 Prestarnir, synir Arons, skulu þeyta lúðrana. Það skal vera þeim ævarandi lagaákvæði frá kyni til kyns.
9 Þegar þið haldið til orrustu gegn þeim sem þrengja að ykkur í landi ykkar og þið blásið í lúðrana verður ykkar minnst fyrir augliti Drottins, Guðs ykkar. Þá verður ykkur bjargað undan fjandmönnum ykkar.
10 Á gleðidögum ykkar og hátíðum og við upphaf mánaða skuluð þið þeyta lúðrana, einnig við brennifórnir og heillafórnir. Þeir munu minna á ykkur frammi fyrir augliti Guðs ykkar. Ég er Drottinn, Guð ykkar.“

Lagt af stað frá Sínaí

11 Á tuttugasta degi annars mánaðar hóf skýið sig upp frá sáttmálstjaldinu. 12 Þá lögðu Ísraelsmenn af stað frá Sínaíeyðimörkinni í þeirri röð sem ákveðin var en skýið nam staðar í Paraneyðimörk.
13 Þeir héldu þá af stað í fyrsta sinn að boði Drottins fyrir munn Móse. 14 Fyrst var haldið af stað með merki búða Júdasona, hver hersveit þeirra fyrir sig en Nakson Ammínadabsson var yfir her Júda. 15 Yfir her sona Íssakars var Netanel Súarsson 16 og Elíab Helónsson yfir her ættbálks Sebúlonssona. 17 Því næst var tjaldbúðin tekin niður og þá lögðu synir Gersons og Merarí af stað en þeir báru tjaldbúðina. 18 Þá var haldið af stað með merki búða sona Rúbens, hver hersveit fyrir sig. Elísúr Sedeúrsson var yfir her Rúbens. 19 Selúmíel Súrísaddaíson var yfir her Símeonssona 20 og Eljasaf Degúelsson yfir her ættbálks Gaðssona. 21 Því næst lögðu Kahatítar af stað sem báru helgidóminn. Tjaldbúðin var reist áður en þeir komu. 22 Þá var haldið af stað með merki búða Efraímssona, hver hersveit fyrir sig. Elísama Ammíhúdsson var yfir her Efraímssona 23 og Gamlíel Pedasúrsson yfir her ættbálks Manassesona. 24 Abídan Gídoníson var yfir her ættbálks Benjamínssona. 25 Loks var lagt af stað með merki búða Danssona, hver hersveit þeirra fyrir sig. Her Dans var bakvarðarsveit alls hersins. Akíeser Ammísaddaíson var yfir her hans. 26 Pagíel Ókransson var yfir her Assersniðja 27 og Akíra Enansson yfir her Naftalíniðja.
28 Þetta var sú röð sem ákveðin var fyrir Ísraelsmenn þegar þeir lögðu af stað, hver hersveit þeirra fyrir sig.
29 Móse sagði við Hóbab Regúelsson frá Midían, tengdaföður sinn: „Við erum í þann veginn að leggja af stað til þess staðar sem Drottinn hefur heitið að gefa okkur. Komdu með okkur. Við munum reynast þér vel því að Drottinn hét Ísrael velgengni.“ 30 Hóbab svaraði honum: „Ég fer ekki með ykkur, heldur heim til lands míns og ættmenna.“ 31 Þá sagði Móse: „Yfirgefðu okkur ekki. Vegna þess að þú veist hvar við getum tjaldað í eyðimörkinni getur þú vísað okkur veginn. [ 32 Ef þú kemur með okkur munum við reynast þér vel þegar Drottinn lætur okkur farnast vel.“
33 Þeir lögðu af stað frá fjalli Drottins og fóru þrjár dagleiðir. Sáttmálsörk Drottins fór fyrir þeim þrjár dagleiðir til að leita þeim að hvíldarstað. 34 Ský Drottins var yfir þeim á daginn er þeir lögðu upp frá herbúðunum.
35 Við brottför arkarinnar sagði Móse:
Rís þú upp, Drottinn,
svo að óvinir þínir tvístrist
og fjandmenn þínir flýi fyrir þér.

36 Þegar hún nam staðar sagði hann:
Snúðu aftur, Drottinn,
til hinna tíu þúsund þúsunda Ísraels. [