Bíleam og Ísrael

1 Ísraelsmenn héldu af stað og settu búðir sínar á gresjunum í Móab handan við Jórdan gegnt Jeríkó.
2 Balak Sippórsson hafði séð allt sem Ísrael hafði gert Amorítum. 3 Móab óttaðist þjóðina mjög því að hún var fjölmenn og fylltust Móabítar skelfingu gagnvart Ísraelsmönnum. 4 Þeir sögðu því við öldunga Midíans: „Nú mun allur þessi mannfjöldi eta upp allt umhverfis okkur eins og naut rótnaga gras í bithaga.“
Balak Sippórsson var þá konungur í Móab. 5 Hann sendi menn til Bíleams Beórssonar í Petór, sem er við fljótið, [ í landi samlanda hans, til að sækja hann og lét segja við hann: „Þjóð ein er komin frá Egyptalandi. Hún þekur allt landið og nú hefur hún sest að beint á móti mér. 6 Komdu nú hingað og bölvaðu þessari þjóð fyrir mig því að hún er öflugri en ég. Vera má að ég geti þá sigrað hana og rekið hana út úr landinu. Því að ég veit að sá er blessaður sem þú blessar og sá bölvaður sem þú bölvar.“
7 Öldungar Móabs og öldungar Midíans héldu þá af stað og höfðu spásagnarlaun meðferðis. Þegar þeir komu til Bíleams fluttu þeir honum skilaboð Balaks. 8 Hann sagði við þá: „Þið skuluð vera hér í nótt. Síðan skal ég svara ykkur því sem Drottinn segir mér.“ Hirðmennirnir frá Móab voru því um kyrrt hjá Bíleam.
9 Guð kom til Bíleams og spurði: „Hvaða menn eru þetta sem eru hjá þér?“
10 Bíleam svaraði Guði: „Balak Sippórsson, konungur í Móab, sendi þá til mín með þessi skilaboð: 11 Þjóðin, sem fór frá Egyptalandi, þekur nú allt landið. Komdu nú og formæltu henni fyrir mig. Þá get ég ef til vill barist við hana og rekið hana burt.“
12 Guð sagði þá við Bíleam: „Þú skalt ekki fara með þeim. Þú skalt ekki bölva þessari þjóð því að hún er blessuð.“
13 Morguninn eftir fór Bíleam á fætur og sagði við hirðmenn Balaks: „Farið aftur heim til lands ykkar því að Drottinn leyfir mér ekki að fara með ykkur.“ 14 Hirðmennirnir frá Móab lögðu þá af stað og þegar þeir komu til Balaks sögðu þeir: „Bíleam neitaði að koma með okkur.“
15 Þá sendi Balak aftur hirðmenn af stað, fleiri og virtari en þá fyrri. 16 Þegar þeir komu til Bíleams sögðu þeir við hann: „Svo segir Balak Sippórsson: Láttu ekkert aftra þér frá því að koma til mín 17 því að ég mun launa þér mjög ríkulega og veita þér allt sem þú biður um. Formæltu þessari þjóð fyrir mig.“ 18 Bíleam svaraði og sagði við þjóna Balaks: „Þó að Balak gæfi mér hús sitt fullt af silfri og gulli gæti ég ekki gengið gegn fyrirmælum Drottins, Guðs míns, hvorki í smáu né stóru. 19 En nú skuluð þið líka vera hér í nótt. Ég vil vita hvað Drottinn hefur annað að segja mér.“
20 Drottinn kom til Bíleams um nóttina og sagði við hann: „Ef þessir menn eru komnir til að sækja þig skaltu ferðbúast og fara með þeim í fyrramálið. En gerðu það eitt sem ég býð þér.“

Bíleam og asnan

21 Morguninn eftir fór Bíleam á fætur, lagði á ösnu sína og hélt af stað með hirðmönnunum frá Móab. 22 En Guð reiddist af því að hann fór og engill Drottins gekk í veg fyrir hann til að hindra hann þegar hann kom ríðandi á ösnu sinni með tveimur fylgdarmönnum sínum. 23 Þegar asnan sá engil Drottins, sem stóð á veginum með brugðið sverð í hendi, beygði hún af veginum og fór út á akurinn. En Bíleam barði ösnuna til að koma henni aftur á veginn. 24 Engill Drottins staðnæmdist þá á þröngum stíg milli víngarðanna með grjótgarða á báðar hendur. 25 Þegar asnan sá engil Drottins þrengdi hún sér upp að garðinum og varð fótur Bíleams í milli. Þá barði hann hana aftur. 26 Þá gekk engill Drottins enn fram og staðnæmdist á þröngum stígnum þar sem hvorki var hægt að víkja til hægri né vinstri. 27 Þegar asnan sá engil Drottins lagðist hún niður undir Bíleam sem reiddist og sló ösnuna með staf.
28 Þá lauk Drottinn upp munni ösnunnar og hún spurði Bíleam: „Hvað hef ég gert þér að þú hefur nú slegið mig þrisvar?“ 29 Bíleam svaraði ösnunni: „Þú gerir gys að mér. Hefði ég sverð í hendi mundi ég drepa þig.“ 30 En asnan svaraði Bíleam: „Er ég ekki þín asna sem þú hefur riðið alla ævi þar til nú? Hef ég haft það fyrir vana að fara þannig með þig?“ „Nei,“ svaraði hann.
31 Þá lauk Drottinn upp augum Bíleams svo að hann sá engil Drottins standa á veginum með brugðið sverð í hendi. Hann laut honum og féll fram á ásjónu sína.
32 Engill Drottins spurði hann: „Hvers vegna hefurðu slegið ösnuna þína þrisvar? Ég gekk fram til að hindra þig því að leiðin, sem þú ferð, er hættuleg að mínum dómi. 33 Asnan sá mig og vék þrisvar úr vegi fyrir mér. Hefði hún ekki vikið úr vegi fyrir mér hefði ég þegar í stað drepið þig en gefið henni líf.“
34 Bíleam svaraði engli Drottins: „Ég hef syndgað því að ég vissi ekki að þú stóðst í vegi fyrir mér. En nú skal ég snúa aftur. Það sem ég gerði er rangt í augum þínum.“ 35 Þá sagði sendiboði Drottins við Bíleam: „Farðu með mönnunum. En segðu ekkert annað en það sem ég segi þér.“
36 Þegar Balak heyrði að Bíleam væri kominn gekk hann á móti honum til þeirrar borgar í Móab sem er við landamærin við Arnon í jaðri landsvæðisins. 37 Balak sagði við Bíleam: „Hef ég ekki sent menn til þín hvað eftir annað til að sækja þig? Hvers vegna komstu ekki til mín? Heldurðu að ég geti ekki launað þér?“ 38 En Bíleam sagði við Balak: „Nú er ég kominn til þín. En hvað get ég sagt? Ég get aðeins sagt það sem Guð leggur mér í munn.“
39 Síðan fór Bíleam með Balak og þeir fóru til Kirjat Kúsót. 40 Balak færði naut og sauðfé í sláturfórnir og sendi nokkuð af kjötinu til Bíleams og hirðmannanna sem með honum voru. 41 Morguninn eftir sótti Balak Bíleam og fór með hann upp á Baalshæð. Þaðan gat hann aðeins séð þá Ísraelsmenn sem næstir voru.